STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

mánudagur, nóvember 27, 2006

Já, komið sæl aftur.
Okkur Hrund tókst að ljúka verkefninu okkar og skila á réttum tíma en við sátum líka í skólanum allan laugardaginn. Ég var ekki komin heim fyrr en rúmlega 7 um kvöldið. Palli var þá búinn að elda þennan líka fína kjúlla sem var dásamlegt því ég var glorhungruð.
Daginn eftir rauk ég út um kl 10 til að fara á flóamarkað en annar af þessum tveimur var líka á sunnudaginn. Og þvílíkt og annað eins bölvað rusl sem þar var! Ég átti bara ekki til orð! Skrítið hvernig sumir markaðir eru þannig að maður þarf að ganga 4 hringi til að geta séð örugglega allt - og mann langar til að kaupa fullt af óþarfa hlutum. Svo eru aðrir eins og þessi í gær sem eru fullir af bölvuðu RUSLI, ekki dóti, heldur rusli. Þarna voru gamlar vídeóspólur - skoðaði þær ekki einu sinni, gamlar kasettur, Carmen-rúllur, brauðrist ljósabekkur, kertastjakar og fleira rusl. Það eina sem var eitthvað þess virði að líta tvisvar á voru gamlir borðstofustólar. En það var líka bara það sem ég gerði; leit tvisvar á þá og fór svo heim.

Ég er búin að sitja í tölvunni í allt kvöld. Fyrst fór ég að horfa á þátt sem heitir Ugly Betty (þáttur nr. 7 held ég) svo horfði ég á síðasta Survivor og svo horfði ég á þátt úr Grey's Anatomy. Ég er s.s. að ná í þessa þætti á netinu - mest vegna þess að þeir eru ekki sýndir hér og svo smá (Grey's þættirnir) vegna þess að ég get ekki beðið í heila viku eftir næsta þætti!

Mér brá nú svolítið um daginn þegar ég sá auglýsingu á netinu frá póstinum um að maður þarf að fara að senda jólapakka. Maður er ekki einu sinni kominn í jólastuð. Það var reyndar verið að kveikja á jólatrjám hérna um helgina og á jólaskreytingum niðri í bæ. Alveg ferlega flott. Ég keyrði niður í bæ í gær til að taka myndir en þegar ég var búin að koma mér fyrir, kveikti ég á myndavélinni og fékk þau skilaboð að það vantaði minniskortið! Týpískt. Svo ég fór bara aftur heim og þetta verður að bíða seinni tíma.

Svo fórum við að veiða í dag. Já, öll hele familien! Juha sýndi okkur hvar best er að kasta út í sjóinn. Fengum samt ekkert en þetta var samt gaman. Var líka með myndavélina með mér - með mynniskorti í.

Sveinbjörg; Eyþór er sá eini sem kemur til Íslands um jólin. Ég var reyndar að gæla við þá hugmynd að fara heim í vetrarfríinu sem er í febrúar og taka alla strákana með (Eyþór fer sko þá) en það myndi kosta 66 þúsund krónur fyrir okkur öll, svo ég snar hætti við þá hugmynd. Athuga kannski bara að leyfa Marek að fara með Eyþóri.

Ég fékk þessa brilljant hugmynd að hringja í Ninnu vinkonu nú í kvöld. Langt síðan ég hef heyrt í henni - og við komumst að því að það eru sennilega u.þ.b. 2 ár síðan við töluðumst við síðast! Ekkert smá sem tíminn er fljótur að líða! Við vorum sammála um að láta ekki líða nema um ár næst! Hehehe...

Jæja, ég ætti eiginlega að fara að sofa. Þarf að vakna fyrir kl. 6 því ég er aftur farin að hjóla með Hinrik á leikskólann.
góða nótt :)