STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

sunnudagur, desember 10, 2006

Loppumarkaður og Þýskaland

Já, ég veit að þetta virðist vera endurtekning frá einhverju öðru bloggi. En jú ég fór bæði á loppu og til Þýskalands í gær. Fór reyndar á loppu aftur í dag, en það er nú allt önnur Ella.

Hallfríður Ólafs kom í heimsókn yfir helgina og var laugardagurinn tekinn snemma. Fyrst var farið á flóamarkað sem var hér rétt fyrir utan Sønderborg. Þar keypti ég kaffi/kakó könnu, hvíta með gyllingu á brúnum, en mig einmitt VANTAÐI svoleiðis! Það voru nú bara heilar 8 könnur í boði! Og svona ýmislegt annað mis-nytsamlegt.

Því næst fórum við til Flensborgar að versla og stóðum okkur allveg með prýði við það. M.a. var keyptur jólamaturinn; Hamborgarhryggur! Ég er nú svo vitlaus - ef mig skyldi kalla - að ég vissi ekki hvernig hamborgarhryggur lítur út! Fyrst það var ekki hægt að kaupa innpakkað stykki með greinagóðri merkingu á þá stóð ég bara á gati! Sem betur fer er þetta kjötstykki líka kallað hamborgarhryggur á dönsku og það vissi einhver sem var að afgreiða þarna og gat selt mér tæplega 1,8 kg. stykki. Borgaði ég bara 1.100 krónur fyrir þetta allt. Það getur vel verið að 1,8 kg sé alls ekki nóg fyrir okkur 4 (Eyþór fer til Íslands) en þá bara borðum við meira af eftirrétt eða einhverju. Hey! Eigiði góða uppskrift af góðum eftirrétt sem er hvorki ís né möndlugrautur? Og það má ekki vera mjög mikið áfengi í honum. Flestir þeir eftirréttir sem mig langar mest í innihalda áfengi!

Allavega! Það er búið að kaupa allar jólagjafirnar og næstum því búið að pakka þeim öllum inn og svo er planið að senda þetta á morgun.

Í dag komu Inga og Hjalti svo í brunch og Inga fékk þessa brilljant hugmynd að skreppa aftur á flóamarkaðinn. Ekki var ég nú treg til þess! Ég hafði nefnilega hálf séð eftir að hafa ekki keypt þarna nokkur vatnsglös í búið. Við drifum okkur allar þrjár (Hallfríður líka sko) og Inga fann þarna ýmislegt sem hana vantaði eins og aðventukertastjaka og jólatrésfót. Það hafði heldur betur bæst við draslið... nei ég meina sko góssið frá því daginn áður og Hallfríður fann þarna þennan forláta fýsibelg sem hún keypti. Ég setti inn myndir frá flóamarkaðinum sem ég tók á símann minn en ég er ekki búin að taka mynd af könnunni og glösunum. Þær koma þá bara seinna.
Oh, ég er strax farin að hlakka til næsta sumars þegar flóamarkaðirnir verða fjölmargir hverja helgi!
Já, það er sko gaman að vera til - sérstaklega um helgar.

Helga - auðvitað!