STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

mánudagur, desember 29, 2008

Tvö ný gullkorn

Marek er nú ekkert venjulegur spekingur, hann kom með tvö mjög góð gullkorn um daginn. Það fyrra var rétt fyrir jól, þá spurði ég hann hvernig honum litist á að fara í kirkju á aðfangadag.
-Ekki vel, ég er sko ekkert mikið fyrir messur og svoleiðis.
-Nú?
-Nei, ég er sko ekki trúaður.
-Nú?
-Nei, ég er sko reyndar ALLT ANNAÐ en trúaður.
-Nú, hvað ertu þá?
-Ég er túristi!

Við frekari eftirgrenslan komst ég að því að hann vissi ekki hvað það þýðir að vera trúaður. Mig grunar samt helst að hann haldi að það sé fólk sem er sérstakt áhugafólk um messur!

Seinna gullkornið kom í gær eftir að við höfðum átt frábæran dag í Saurbæ hjá Olgu, Baldri og börnum. Ég verð reyndar að taka það fram að ég NEYDDI Marek til að koma með, hann hótaði að fyrst hann mætti ekki vera í friði heima hjá sér þá myndi hann bíða úti í bíl allan tímann. Ég sagði að ekkert slíkt væri í boði og hann kæmi með hvort sem honum líkaði það betur eða verr. Eftir á, var þetta hinn besti dagur. Þeir bræður léku sér við Dagrúnu og Ínu út í eitt. Það eru líka fullt af dýrum í Saurbæ; hundar, kettir, tófa, kanínur, froskar, fiskar, kindur, kýr og hænur. S.s. hinn fullkomni sveitabær. Hinrik vildi kíkja á kindurnar og aftur varð ég að neyða Marek með. Hann var nú varla kominn inn í fjárhús en hann var lagstur í einn garðann, talaði við kindurnar eins og þær skildu hann og ekki fannst honum leiðinlegra í hænsnakofanum þar sem hann gat haldið á hænum og látið þær standa á öxlunum á sér! Hinrik skemmti sér líka alveg jafnvel, og hvorugur var tilbúinn að fara heim á eftir.

Á leiðinni heim sagði svo Marek:
-Mamma, ef við flytjum í sveit þá getum við bara NOTAÐ pabba til að vinna við allt. Við þurfum sko ekkert að gera neitt. Hann er nefnilega svo góður á traktora og allt svoleiðis!