STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

föstudagur, nóvember 23, 2007

Vinsælasta orðið.

Ef til væri keppni um mest-notaða-orðið þá held ég að á þessu heimili myndi orðið “hættu” hreppa vinninginn. Eflaust eru einhverjir sem myndu halda að orðið “mamma” væri mest notað en það er nú ekki svoleiðis. Hinsvegar er “hættu” orðið mest notað af þeirri sem svarar til “mömmu” orðsins.

“Hættu” er líka stundum notað í fleirtölu – já og jafnvel oftar en ekki, og er það þá “hættið”. Ýmislegt getur fylgt þessu orði, langoftast önnur orð en því miður sjaldan sagnorðið “að hlýða”.
Algengast er að heyra “hættu” eða “hættið” með mismunandi raddblæbrigðum, langalgengast er hvass reiðitónn, stundum sagt á milli hláturkviða þá alls ekki með reiðitón og mjög oft heyrist þetta sagt með uppgjafartón. Hér á eftir kemur listi yfir algengar notkunarmyndir orðsins “hættu” eða “hættið”:
Hættu / hættið
Strákar, hættið þið!
STRÁKAR, HÆTTIÐ ÞIÐ!!
Viljiði gjöra svo vel að hætta!
Hættu/hættið þessum hávaða.
Hættu/hættið að fíflast.
Hættu þessum leikaraskap.
Hættu/hættið þessu suði.
Hættu að kitla.
Og þegar kveikjuþráðurinn er orðinn verulega stuttur og viðkvæmur: hættið þið þessum helvítis hávaða/látum (eða hvað sem það er).
Í Guðs bænum, gerið það fyrir mig að hætta....

Í næsta þætti tökum við fyrir orðið "ekki".

Helga - í málræktarpælingum.