STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Föstudagur eftir þrjá daga

Já það fer alveg að líða að því að við fáum okkar íbúð! Það verður á föstudaginn sem sagt. Klukkan 12 sem við megum fara að flytja inn - og ekki sekúndu fyrr! Þeir eru alveg ótrúlega stífir, starfsmennirnir hjá þessu leigufélagi.

Við fórum í ferðalag um helgina, byrjuðum á að fara í Sommerland Syd sem er svona skemmtigarður. Þar vorum við í rúmlega 2 tíma og hefðum alveg getað verið miklu lengur. Því næst keyrðum við norður Jótland að þorpi sem heitir Hellum en þar gistum við á sveitabæ hjá fólki sem mamma þekkir - og amma á undan henni. Löng saga það en stutta útgáfan er svona: amma var ráðskona hjá þeim á seinni hluta síðustu aldar. Þau heita Karen og Henning og þau komu í heimsókn til Íslands fyrir næstum því 20 árum síðan. Ég hef ekki séð þau síðan en það var mjög gaman að hitta þau. Og þar gistum við eina nótt.
Daginn eftir fórum við að hitta Grím, vin hans Palla og fyrrum vinnufélaga. Hann og fjölskyldan hans býr bara rétt hjá Hellum í þorpi sem tilheyrir Sæby. Við vorum komin þangað um hádegi og vorum alveg til kl. 6. Þeir karlarnir horfðu á formúluna á meðan ég fór með konunni hans Gríms og vinkonu hennar í búðarráp! Mjög gaman. Hvenær er ekki gaman í búðarrápi??

Hinrik byrjaði svo á leikskóla í gær. Þá fórum við í stutta heimsókn og í dag vorum við í rúmlega 2 tíma. Þar er þetta nú heldur lausara í reipunum heldur en maður þekkir þetta heimanfrá - ekkert aðlögunarplan, enginn ákveðin sem tók á móti okkur í dag og fleira svoleiðis. Börn klifrandi uppi í leikfangahillu sem stóð á miðju gólfi og þá var ekki laust við að maður fengi fyrir hjartað!
Á leikskólanum eru a.m.k. 3 aðrar íslenskar stelpur sem allar vildu tala við Hinrik. Honum leist bara mjög vel á þetta allt og spurði meira að segja einn kennarann þarna "Hvad hedder du?" Svo varð hann mjög skrítinn á svipinn þegar hún svaraði honum - kom svona ánægjubros sem hann reyndi að hylja! Á morgun ætla ég að skilja hann eftir í smá stund - maður kann sko á svona aðlögun - hef gert þetta áður sko!
Og Heiða og aðrir leikskólakennarar - í samverustund í dag var sögð saga þar sem krakkarnir eru með með því að nota hendurnar - Heiða svipuð sögunni um manninn sem fer í gegnum skóginn nema þessi er um mann og konu og maðurinn fer af stað og sér ljón! Ferlega skemmtileg og ég varð auðvitað ein stór eyru til að muna hana og ég á eftir að skrifa hana niður. Þeir sem vilja fá hana senda í tölvupósti verða að skilja eftir komment um það hér.

Annars er allt við það sama. Marek orðinn aðeins ánægðari í skólanum - eða það er kannski fullmikið sagt, honum finnst þetta ömurlegt segir hann en hann er allavega ekki ósáttur við að vera skilinn eftir. Það var mjög fyndið í gær þegar Hinrik var búinn í leikskólanum þá fór Marek að yfirheyra hann, svona eina og aðrir hafa gert við hann, og sagði: Fórstu í leikskóla í dag Hinrik? Hinrik svararði já og Marek spurði: Og hvernig gekk í leikskólanum? Bara vel sagði Hinrik. Marek lét þetta ekki duga og vildi vita hvað hann hefði gert í leikskólanum. Ég var bara að leika mér svaraði Hinrik. Marek fannst þetta ekki nógu ítarlegt svar og vildi nákvæma lýsingu á því hvað Hinrik hefði leikið sér með. Hinrik gafst þá upp á þessari yfirheyrslu, sagðist bara hafa leikið sér með hitt og þetta og fór í burtu!
Ég finn á Marek að hann saknar þess að vera ekki í sama leikskóla og Hinrik. En eftir næstu viku getur hann hjólað með okkur Hinrik í leikskólann áður en hann fer sjálfur í skólann sinn.
Jæja, þetta er sennilega orðið óþolandi langt blogg.
Við setjum ekki inn neinar myndir fyrr en við erum flutt og komin með nettengingu.
bless í bili
HH.