STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

mánudagur, janúar 14, 2008

Mikil spenna

Já, andrúmsloftið, í bekknum mínum, einkenndist af spennu, stressi og var mjög rafmagnað í dag. Ástæðan? Jú, eitt það erfiðasta próf sem við höfum farið í fram að þessu. Í þessu námi þ.e.a.s.
6 bekkjarfélagar mínir þreyttu prófið í dag. Og hún Hrund mín var fyrst af okkur stelpunum og hún brást okkur ekki heldur náði eins og við hinar vorum nú búnar að spá. Til hamingju Hrund! Af þessum 6 hefur einn fallið, og tel ég næsta víst að hann verði sá eini sem falli af öllum 13 - nema einhver verði svo hrikalega óheppinn að fá mjög erfiða spurningu eða að hann frjósi í kynningu.

Leyfið mér þá að útskýra þetta próf fyrir ykkur: Þegar fyrirfram ákveðinn tími er kominn, er kallað á þann sem fer inn, við skulum kalla þann aðila Hrund bara til að nota eitthvað nafn. Hrund fer inn í skólastofu og dregur þar tvær spurningar; önnur úr forritunarhlutanum í námsefninu, hin er úr tæknilega hlutanum. Síðan er Hrund fylgt inn í annað herbergi þar sem hún hefur 80 mínútur til að lesa í gegnum spurningarnar, koma reglu á hugsanir sínar, reyna að panikka ekki, fá sér vatn að drekka, róa taugarnar enn meira og byrja að forrita. Spurningin úr forritunarhlutanum snýst um að leysa eitthvað vandamál með því að forrita ákveðið efni. Klára þarf 80% af forritinu. Það þarf því ekki að virka en vera mjög langt komið. Þar fyrir utan þarf maður í huganum að ákveða kynningu á efninu. (Eins og maður hafi tíma til að hugsa um eitthvað annað en forritunarhlutann!) Hrund þarf líka að vera með augun á klukkunni því hún þarf að nota amk. 10 mínútur af tímanum til að undirbúa svarið við tæknilega hlutanum. Á þessum 80 mínútum fáum við að hafa allar þær glósur sem við þurfum, bæði rafrænar og á prenti. Við höfum ekki aðgang að interneti.

Eftir þessar 80 mínútur kemur kennari og sækir Hrund sem fylgir honum inn í skólastofuna, ef það hefur ekki liðið yfir hana af stressi. Þar þarf hún að kynna forritið sitt, útskýra upp á töflu hvað hún var að reyna að gera í forritinu OG muna eftir að tala um tæknilega hlutann líka. Hún þarf að tala nánast stanslaust í 30 mínútur ef vel á að vera. Takk fyrir. Inni í skólastofunni sitja 3 kennarar og prófdómari. Tæknihlutakennarinn er mjög almennilegur og reynir virkilega að hjálpa manni ef hann mögulega getur. Annar forritunarkennarinn er nokkuð hlutlaus, en reynir líka að hjálpa manni. Hinn forritunarkennarinn er eins og... jah... manni dettur aftökusveit í hug. Hann er mjög upptekinn við að negla mann á einhverju smáatriði að það er ekki fyndið. Sem einmitt gerðist fyrir hana Hrund. Hina Hrund sko, ekki þessa í dæmisögunni.
Allavega. Eftir málblaður fer Hrund (þessi í dæmisögunni) út úr skólastofunni og bíður þar á meðan kennarar og pr.dómari ræða málin og svo er kallað aftur á hana inn til að fá að heyra einkunina sem hún fær. Einkunin er bæ ðe vei á skalanum frá -3 upp í 12! Ekki reyna að fá mig til að tjá mig um þá helvítis vitleysu!!!

Ég er að fara í umrætt próf kl. 13 á morgun, og verð búin kl. 15. Til hamingju Ég á morgun!

Helga