STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Óvænt tannlæknaferð

Ég er búin að vera með óþægindi í neðri góm eins og ég sé með tannrótarbólgu, síðan á fimmtudag í síðustu viku. Í gær ákvað ég að bíða ekki lengur og drífa mig til tannlæknis. Óþægindin höfðu ekkert skánað, en heldur ekkert versnað. Ég er líka þannig að ef mér er illt einhverstaðar er ég sífellt að "tékka á því". Í þessu tilfelli var ég alltaf að bíta saman tönnunum til að tékka á hvort ég finndi enn til. Það er sko ekki til að gera hlutina betri.

Mér var bent á góðan tannlækni í Þýskalandi og hringdi þangað til að panta tíma. Sagiðst vera með tannpínu sem er eins nálægt því að vera satt eins og það er nálægt því að ég geti útskýrt hvað var að mér á dönsku. Tannlæknar í Flensburg og ritarar þeirra tala flestir dönsku.
"Geturðu komið snemma í fyrramálið?" spurði ritarinn.
"Nei, því miður, það get ég ekki. En ég get komið seinni partinn og alla hina dagana" svaraði ég.
"Er kl. 11 í fyrramálið líka of snemmt?"
"Já. Ég er sko í skóla og er í tímum í fyrramálið, en ekkert hina dagana" svaraði ég.
"Hmm... geturðu komið núna?"
"NÚNA? Jah... ég bý sko í Sønderborg og það tekur mig 40 mínútur að keyra."
"Já, já það er allt í lagi. Komdu bara núna ef þú getur."
Svo ég dreif mig. Rauk út, og keyrði til Flensborgar í rigningunni. Fann tannlæknastofuna um leið, enda hafði ég prentað út kort frá Google maps. Ég þurfti auðvitað að bíða smá stund en var svo vísað inn í tannlæknastólinn þar sem ég beið aðra dágóða stund.

Svo kom tannlæknirinn. Ég sagði honum hvað væri að mér; að ég finndi til í neðri góm. Hann skoðaði tennurnar og þuldi upp eitthvað á þýsku. Það eina sem ég skildi voru tölur. Engin kunnugleg orð eins og "murder", "Derek, wor bist du" eða "Ich bin kriminalpolizei" hljómuðu í mín eyru. Orðaforði úr Derek er mín þýskukunnátta.
Áður en ég vissi af var tannlæknirinn farinn að bora í tennurnar. Það hafði brotnað fylling úr einn tönninni í haust og hann ætlaði greinilega að gera við hana. Engin deyfing. Ekki svo ég viti. Allavega ekki úr neinni sprautu. Fyrr en varði var hann búinn að fylla upp í hálfu tönnina og farinn að bora í annarri tönn hinu megin. Og takið eftir, þær voru báðar í efri góm. Fylling í þá seinni, tannsteinn hreinsaður, tennur pússaðar og búmm... 15 mínútum síðar var ég búin og tannlæknirinn farinn!

Ég steig upp úr stólnum og sagði við klinkuna "Þetta var nú fljótt!"
"Já. Við sendum þér svo reikninginn" sagði hún bara og brosti.
Ég kom mér út, leið undarlega í munninum. Fannst fyllingin í hálfu tönninni vera allt of stór. Til að tékka betur á því er ég alltaf að bíta saman jöxlunum og fyrir vikið er ég orðin helaum í fylltu tönninni og líka í þeirri sem er beint fyrir neðan hana.

Engin sýnileg tannrótarbólga sagði tannsi og mér líður eins og hann hafi bara dreyft athygli minni frá ímyndaðri bólgu.

Helga