STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Handboltinn... að leikslokum

Jæja, hvað ætli það bloggi margir um handboltann í kvöld? Örugglega einhverjir tveir eða þrír.

En vá hvað þetta var spennandi og skemmtilegur leikur! Ég hélt á tímabili að ég þyrfti áfallahjálp. Við Eyþór ætluðum að fara og horfa á leikinn með Íslendingafélaginu en ég fékk ekki barnapíu (leitaði reyndar ekki mikið) svo við horfðum bara á hann hér heima, ég og strákarnir. Þeir voru hæstánægðir með að fá snakk og nammi svona á virku kvöldi og sátu og horfðu á. Urðu svo ferlega spenntir yfir þessu öllu. Þjóðerniskenndin blússaði upp - nema hjá Hinrik. Hann hélt staðfastur með Dönum! Í hvert sinn sem þessir rauðu karlar hlupu eitthvert hvatt hann þá áfram, öskraði svo YES þegar þeir skoruðu en greip um höfuð sér ef Íslendingar skoruðu og stundi "Ég trúi þessu ekki". Í hálfleik var hann sendur af velli - í háttinn!
Marek neitaði að fara að sofa fyrr en hann vissi hverjir ynnu. Ég var komin með svo hraðan hjartslátt að ég íhugaði að hætta að horfa. Sem betur fer - og líka því miður - gat ég ekki haft lýsingu á leiknum á netinu um leið og við horfðum á leikinn. Það hefði kannski æst mann enn meira upp!

Annars rétt hljóp ég inn í búð Hjálpræðishersins í dag. Ætlaði bara rétt að kíkja, svo langt síðan ég fór þangað síðast. Málið var að mig langar til að kaupa lítið borð fyrir strákana inn í herbergi til að leika sér við. Það fyrsta sem ég sé er matar og kaffistell sem er til sýnis í glugganum. Ég sem er haldin ólæknandi matar- og kaffistellsfíkn á svo háu stigi að það ætti eiginlega að kalla mig Stellu, hljóp þangað til að skoða. Og ég lét ekki þar við sitja heldur tók ég líka myndir af því. Þarna var s.s. 12 manna stell, með ýmsum skálum, kökudiskum, kaffikönnu og öllu tilheyrandi fyrir... já og haldið ykkur nú... tæplega 3000 kr íslenskar! Ég keypti það ekki.
Sá svo eftir því þegar ég var komin heim. Fór aftur í kvöld, eftir lokun. Bara aðeins að tékka. Alveg ákveðin í að ef stellið væri enn í glugganum þá væri það merki frá Guði um að ég ætti að kaupa það. Það var farið. Ég átti greinilega ekki að kaupa það.
Ég get alls ekki tengt símann minn við fartölvuna til að setja myndirnar inn. Verð sennilega að gera það seinna - en þeirra tími á netinu mun koma.

Verð að fara að læra!