STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Þvottakortið víðförla

Einu sinni var lítið þvottakort sem var mjög svipað vísakorti nema það var ekki hægt að versla með því annað en þvottatíma. Einn daginn, þegar húsbóndinn á heimilinu var búinn að þvo þvott, ákvað þvottakortið að því langaði til að sjá heiminn. Því faldi það sig í rassvasa húsbóndans. Húsbóndinn vissi ekkert um fyriráætlanir þvottakortsins og fór grunlaus í vinnuna á þriðjudagsmorgni. Ferðinni var heitið til Frederikshavn. Mikið hlakkaði þvottakortinu til að sjá sig aðeins um á norður Jótlandi. Það hafði nefnilega ekkert ferðast síðan það fór til Íslands fyrir tæpu ári síðan og var það orðið ansi þreytt á tilbreytingaleysinu í þvottahúsinu.
En viti menn. Húsbóndinn fékk símhringingu frá yfirmanninum sem sagði honum að hann ætti að fara til Stokkhólms! Hjartað (kubburinn) í þvottakortinu tók kipp af tilhlökkun. Því hafði alltaf langað til að fara til Svíþjóðar. Vá, hvað þetta yrði spennandi. Hin þvottakortin verða örugglega græn af öfund yfir þessum ferðalögum.

Ferðalagið gekk vel og snuðrulaust fyrir sig. Þvottakortið hlustaði á húsbóndann tala við hina og þessa merkilega menn í símann. Eitt sinn heyrði það hann tala við konuna sína sem grét á hinum endanum. Þvottakortið heyrði ekki hvað konan sagði en húsbóndinn talaði um að senda kortið heim í pósti! Þvílík vanvirðing! Átti bara að senda mann heim eins og hvern annan flækingshund! Þvottakortið reiddist og faldi sig. En hvað gerðist? Í stað þess að senda kortið heim í pósti ákvað húsbóndinn að leyfa því að ferðast með sér. Hann hafði líka svo gaman af félagsskap þess.
Nú hringdi síminn einu sinni enn. Það var yfirmaðurinn. Hvað? Olsó? Það er í Noregi! "Húrra" hrópaði þvottakortið og trúði varla sínum eigin eyrum! Nú átti það eftir að ferðast um þrjú lönd áður en það kemur aftur heim á laugardaginn!

...framhald síðar!

Ég fékk góða heimsókn á þriðjudaginn þar sem Sigga Hreins og Óla Maja komu í heimsókn frá Kaupmannahöfn. Sigga var búin að vera þar á námskeiði en Óla Maja kom þangað bara til að vera nokkra daga. Ég varð reyndar að sækja þær til Padborg því þær sofnuðu í lestinni, en það er nú önnur saga!
Það var gaman að fá þær og við náðum að drekka 2 1/2 vínflösku! Enda mjög heitt hérna og gott að drekka eitthvað svalandi (þetta voru kalt hvítvín og kaldur rauðvínsafgangur). Heimsóknin var nú allt of stutt því þær fóru svo aftur með mér til Kaupmannahafnar á miðvikudag en ég þurfti þangað til að sækja Eyþór. Hann lenti rúmlega 6 og það var sko gaman að sjá hann aftur eftir 4 vikur! Og strákarnir Hrund var svo í Köben með dóttur sinni og fékk far með okkur til baka. Sem var bara gaman og við notuðum sko tækifærið og stoppuðum á Pizza Hut!
Og ég hlakka til að fá Palla heim á laugardaginn - ekki síst svo ég geti farið að þvo þvott!