STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, október 24, 2006

Fullt af húsgögnum

Ég var á bílnum í dag, keyrði Palla fyrst í vinnuna eldsnemma í morgun. Kom svo heim og sótti restina af heimilisfólkinu og keyrði það á sína staði. Svosem ekkert merkilegt við það. Eftir skóla gerðist álíka ómerkilegt, fór fyrst og sótti Eyþór og Marek, svo Hinrik í leikskólann. Þar sem klukkan var ekki alveg orðin 3, og Palli því ekki búinn að vinna, kom ég við hjá Hrund bekkjarsystur og lét hana fá glósur, sótti svo Palla og skutlaði honum og Hinrik heim. Síðan fór ég að versla! Og verslaði mikið vegna þess að ég var náttúrlega á bílnum fína. Nú, ég er nú að koma að rúsínunni. Þegar ég kom heim kom Palli út að hjálpa mér með pokana og þá var kallað halló á okkur. Þetta voru þá nágrannahjón okkar þau Irene og Uwe. Uwe spurði strax hvort okkur vantaði lampa sem vantaði á skermi. Ég sagði að það gæti nú verið og við skokkuðum saman niður í kjallara til að kíkja á gripina. Þetta voru þessir fínu lampar, tveir, sem ég tók með mér. Uwe hafði fundið þá í ruslagámnum. Nú, þetta var nú ekki allt því hann sagði mér að það lægju tvær kommóður í papparuslagámnum sem er hér rétt hjá. Ég hljóp því upp, náði í tóma pappakassa sem ég þurfti að henda og hljóp yfir með þá. Ég gat nú ekki opnað lásinn svo ég sótti Uwe sem opnaði gáminn og sýndi mér kommóðuna. Hún var frekar lúin en alveg hægt að nota hana. Hún var bara heldur stór fyrir okkur, ég hefði viljað hana ef þetta væri pínulítil eins og náttborð. En ég hringdi í Ingu og Hjalta sem vildu koma og kíkja á hana. Uwe spurði þá hvort ég vildi fá hina, en ég neitaði því. "Man skal aldrig sige aldrig" sagði hann þá og bætti við að það lægi þarna ein gömul kommóða. Nú? sagði ég og það lifnaði heldur betur við mér! Kannski maður kíki allavega á hana. Þetta reyndist þá vera hinn fínasti skápur með einni stórri skúffu efst og við drösluðum henni upp úr gámnum. Hjalti og Inga komu til að sækja kommóðuna sína og ég bað Hjalta að hjálpa mér með hina. Palli kom svo út til að bera hana inn... og við skulum segja að hann hafi ekki verið alveg eins brosandi og ég! Uwe sagðist svo ætla að halda áfram að hafa augun opin handa mér en ég sagði að þetta væri víst alveg að verða orðið nóg! Nú þarf ég bara að skrúfa skrúfur úr lásnum, ná honum úr og lesa einhverjar tölur á honum og þá get ég látið smíða nýjan lykil fyrir skápinn. Fullkomið!

Já, lífið er svo sannarlega dásamlegt!
hh