STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

föstudagur, nóvember 03, 2006

Veturinn er kominn

Allavega eru komnar frosthörkur... svona hér um bil. Einn daginn þegar við fórum út þá var komist frost og voru það mikil viðbrigði eftir "hitabylgjuna" sem er nýbúin að vera. Nú þurfti húsmóðirin allt í einu að grafa upp jólasokkana góðu (nei ekki svona sem eru hengdir upp heldur eru þeir mjúkir með jólamynstri og voru (ekki) keyptir (handa Gullu) í Boston) og fara í lokaða strigaskó. Ekki nóg með það heldur þurfti hún að grafa upp vettlinga hana öllu liðinu, húfur og úlpur!
Og hér inni í íbúðinni er ekkert hlýtt heldur. Á kvöldin kveikir maður á fullt af kertum, skríður svo undir teppi upp í sófa og skelfur. Við erum búin að heyra svo margar sögur af því hversu dýrt það sé að kynda hús hér úti að við ætlum að þrjóskast við að kveikja á ofnum eitthvað fram eftir mánuðinum. Ætli maður fari ekki að hugsa sig um ef við verðum farin að pissa klökum - eftir að hafa skautað inn á klósett!

Annars er allt fínt að frétta af okkur. Palli er kominn í hundleiðinlega vinnu og er búinn að setja auglýsingu í lókal-blaðið sem kemur út í næstu viku. Vonandi kemur eitthvað skemmtilegt út úr því.
Ég fór í próf í gær og það er eiginlega hægt að segja að ég sökkaði á því! Djöfull sem ég er léleg í þessu! Uss! En ég held í vonina um að það eigi eftir að breytast.
Það er búið að ganga frá flugmiða fyrir Eyþór heim um jólin. Hann flýgur heim 20. Des og til baka aftur 2. janúar. Hann fer í samfloti með strák sem er í skólanum mínum þannig að enn sleppur hann við að fara aleinn. Næst er bara að finna einhvern sem fer til Íslands í vetrarfríinu í febrúar.
Marek og Hinrik eru bara þokkalega ánægðir í skólunum. Hinrik þó ánægðari og danski orðaforðinn hans fer vaxandi með hverjum degi sem líður. Í þessum töluðu orðum situr hann á klósettinu og syngur "tommelfinger, tommelfinger, hvor er du?" (hvernig sem á nú að skrifa þetta). Marek segir hins vegar enn á hverjum degi að hann geti alls ekki átt góðan dag. Hann var heldur betur ánægður með sig í gær. Við kíktum inn í vöruhús sem selur notaða hluti til styrktar kirkjunni og þar fann hann tvö hnattlíkön sem hægt er að kveikja ljós inn í. Hann langaði mikið í svona og ég studdi það heilshugar. Líkanið sem var "veglegra", þ.e. á tréplatta en ekki á plasti, var 50 kr dýrara og kostaði 150 kr. Ég rétti honum 100 kr og sagði að ef hann talaði sjálfur við manninn um að fá líkanið fyrir 100 krónum þá mætti hann kaupa það. Hann tók við peningnum, fór og spurði og fékk líkanið fyrir 100 kr! Hann ekkert smá ánægður líka að hafa gert þetta einn.

Jæja, ætla að horfa á eitthvað í sjónvarpinu.
hh.