STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, mars 27, 2007

Fréttir!

Já, héðan er nú aldeilis mikið í fréttum. Íbúðin er hreinlega að breytast í dýragarð - og sumarið bara rétt að byrja!
Fyrst ber að nefna helvítis veggjalýsnar. Þegar ég hélt að ég hefði verið búin að drepa allt kvikt inni í herbergi strákanna - þar sem kojan er - og herbergið sjálft verið í hálfgerðri sóttkví í næstum 3 vikur ákvað ég að það væri kominn tími fyrir strákana að sofa þar inni. Hinrik niðri og Marek uppi. Ég fór seint að sofa og leit inn til þeirra, ætlaði að laga sængina hans Hinriks þegar ég sé 3 lýs ofan á sænginni, nokkrar á veggnum og nokkrar á kojunni sjálfri. Ég vakti þá báða og lét þá sofa hjá Palla en svaf sjálf inni í stofu - í öllum fötunum! Þetta er algjör viðbjóður.
Í gærmorgun fékk ég Hrund til að hringja í leigufélagið en við fundum einhverjar reglur um að þeir eigi að sjá um að drepa þessi kvikindi. Ekki nóg með það heldur fann ég líka upplýsingar um að þetta eitur sem fæst hér í DK DREPUR EKKI KVIKINDIN heldur FÆLIR ÞAU Í BURTU. Já, flott! Kaupum endilega vonda lykt í brúsa sem fælir skordýrin yfir í næstu íbúð svo ég sé laus við þau! Alveg hreint dásamlegt.

Þá að hömstrunum. Mér fannst vera orðið ansi þröngt um þá í búrinu með ungana 5 og mömmuna og það var eitthvað um fæting núna fyrir helgina. Við ákváðum að leyfa þeim að vera yfir helgina svo vinir hans Mareks fengi að skoða þá og fara með þá strax á mánudaginn. Það var svo drifið í því í gær, strax eftir skóla og Eyþór var svo heppinn að hann fékk heilar 100 krónur fyrir allan hópinn. Ungana sko. Hann keypti kúlu til að setja kelluna í á meðan við þrífum búrið og hún var prufukeyrð strax þegar við komum heim. Kellan virtist vera bara nokkuð ánægð með að vera orðin alein í hreinu búrinu á eftir og laggði sig.
Í morgun langaði Eyþóri til að setja hana aftur í kúluna en ég vildi það ekki því ég var viss um að hún væri ólétt aftur - eftir kallinn sinn auðvitað. Ég kíkti í búrið og viti menn; hún var búin að gjóta aftur! Í þetta sinn var hún svo hugulsöm að gjóta á efri hæðinni svo við gátum séð ungana. Við töldum 7 unga! Við vissum samt vel að einhverjir gætu átt eftir að hverfa svo við fyrsta tækifæri sem gafst nú seinnipartinn töldum við aftur og sáum að þetta var ekki endanleg tala heldur eru þeir 9!!! Já, NÍU! Það þýðir að í heildina verða 10 stykki í búrinu! Ja, nema hún eigi eftir að borða einhverja. Ég stökk til og tók nokkrar myndir með símanum mínum. Þær eru ekki mjög skýrar, því það er erfitt að taka myndir af þeim þar sem þeir eru svo mikið að sprikla! En skoðið endilega inni í Hamstraalbúminu. :-)
(þið getið rétt ímyndað ykkur hvort Eyþór sé ekki búinn að reikna út gróðann!)

Ég set líka inn nýjar myndir inn í marsmyndir.