STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

mánudagur, ágúst 04, 2008

Sárið hans Mareks

Við fórum niður að strönd fyrir viku síðan, eins og bloggað var um í þarsíðustu færslu. Það sem ekki var bloggað um, en verður úr bætt hér í þessari færslu, er sagan um sárið hans Mareks. Hann tók nefnilega eftir stærðar blöðru á hnénu á sér, á þriðjudaginn eftir sjóferðina. Blaðran var virkilega risastór - svona miðað við lítið hné - og sprakk hún fljótlega og lak hálf gulur vökvi úr. Frekar ógeðslegt og Marek var strax viss um að þetta væri eitur.

Mamman á góða vinkonu sem er hjúkrunarfræðingur og hefur því erft mikla visku frá henni og kunni því vel að þurrka upp vökvann sem annars rann niður fótlegginn á barninu. Að öðru leiti var ákveðið að láta blöðruna vera. Á miðvikudaginn var afmæli hjá Önju frænku og fór Marek í sparibuxurnar sínar sem eru svartar flauelsbuxur. Eftir afmælið var sprungna blaðran orðin svört af kuski og neyddist hann til að fara í sturtu til að skola sárið. Leit allt nokkuð vel.

Á laugardaginn var svo önnur afmælisveisla hjá Kristjáni Kára og ákvað ég að spyrja fólkið þar hvort það vissi eftir hvað þessi blaðra gæti verið. Hvort það gæti verið að hann hafi verið stunginn af marglyttu. Marek dró upp buxnaskálmina (aftur svörtu sparibuxurnar, því maður er jú alltaf spariklæddur í afmælum) og þá bara leit sárið alls ekki nægilega vel út. Hann var því meðhöndlaður af sjúkraliða á staðnum. Mamman brunaði heim og sótti Bactigras grisju sem allt læknar og svo var bundið rækilega um sárið.

Í dag tókum við svo plásturinn af og settum nýtt á og leit allt mun betur út. Þetta er því allt í áttina. Því miður er þessi mynd sem ég tók á símann minn ekki alveg nægilega skýr en það sést samt hvað sárið er stórt miðað við baðmullarskífuna sem Lára heldur við fótinn.

Annars var Marek heldur glaður í gærmorgun þegar hann kom og vakti okkur Palla með þær gleðifréttir að hann væri með lausa tönn. Það væri sko ekki fréttnæmt ef þetta væri ekki tönn númer 3 sem losnar, og hann orðinn 8 og hálfs árs gamall!

Þeir strákarnir allir eru mjög hrifnir af því að fá símann minn lánaðan til að taka myndir. Þegar ég var að hlaða myndunum af honum inn á tölvuna sá ég að þeir hafa ansi oft fengið hann lánaðan! Svo ég ákvað að búa til myndaalbúm fyrir þær myndir sem þeir taka því það er oft ansi skemmtilegt að skoða hvað þeim finnst vera áhugavert myndefni!
Posted by Picasa