STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

föstudagur, ágúst 31, 2007

Merkisdagur...í gær! (er sko skrifað á laugardegi)

Takk fyrir allar kveðjurnar á blogginu, í sms-um og líka símhringingar! Mér leið eins og drottningu (sem ég jú er pínulítið innst inni).

Fyrir þá sem koma hér alveg af fjöllum þá varð ég (Helga) 35 ára í gær. Ekki hálf sjötug heldur hálfnuð í sjötugt. (Oh, þá verður nú gaman!)

Það er gott að vera að læra tölvudót því nú get ég sagt frá því að ég er orðin 23 ára telji maður í hexadecimal tölum! Hahaha! (Hér hlægjum við Hrund hrikalega mikið)

Eftir frekar leiðinlegan skóladag - sem endaði með skyndiprófi sem ég var EKKI góð í - fór ég heim og fór að undirbúa kvöldið. Einn liður í undirbúning var að fá sér bjútíslíp!
Um kvöldið fylltist húsið svo af góðu fólki. Þórunn var fyrst í hús, svo komu þau öll í einu; Hrund og Steini, Hafdís og Leifur, Stefanía, Gauti og dóttir þeirra hún Saga. Eva og Juha og Dísa og Snorri komust því miður ekki. Og hvað haldiði að þau hafi fært mér í afmælisgjöf?? Jú, fiðluna sem mig er búið að langa svo hrikalega mikið í en hef ekki keypt mér, því hvern vantar þriðju fiðluna?? Hún er hrikalega flott svo ekki sé meira sagt. Hún er í harðri tösku og það flgir henni ýmislegt dót, svo sem eins og þrjár gamlar kvittanir sem mér sýnist vera ársettar 1952. Er samt ekki viss. Fiðlunni fylgdi líka bók sem heitir eitthvað "saga fiðlunnar", á dönsku!

En ég fékk fleira í afmælisgjöf og það ekkert síðri gjafir. Eyþór gaf mér smjörhníf sem hann smíðaði sjálfur og merkti í bak og fyrir. Virkilega flottur og einmitt það sem mig vantaði. Marek teiknaði mynd handa mér, og faldi svo ég varð að leita að henni. Palli gaf mér gjafabréf í NUDD! Vá, hvað ég hlakka til að fara. Þetta er einn tími sem er í einn klukkutíma, og ég hef verið að spá í það lengi að prófa að fara en ekki haft mig í það.

Það var svo mikill gestagangur í dag því Eva og börn, Dísa, Snorri og börn og Hrund og börn komu öll í "afganga" í dag.
Svo í kvöld komu nágrannar okkar þau Sólrún og Garðar í heimsókn með enn eitt hljóðfærið inn á heimilið en þau gáfu mér ukulele í afmælisgjöf. Þau fundu það óvart á loppumarkaði í dag!

Talandi um loppumarkað! Við Palli fórum í dag. Ætluðum að skoða og kannski kaupa mandolin banjóið sem ég sá um daginn en þegar við skoðuðum það betur ákváðum við að kaupa það ekki. Karlinn í búðinni hvatti okkur til að kíkja líka í antíkbúð sem þau eiga þarna rétt hjá. Við ákváðum að skella okkur og þetta var einhver sú ógeðslegasta búð sem ég hef farið í. Köngurlóavefir út um allt og fúkkalyktin alveg við það að svæla mann aftur út! En um leið og maður hætti að horfa á vefina þá fór maður að sjá allt góssið sem var þarna. Það var 50% afsláttur af öllu þarna og við fórum út með fullt af smáhlutum og 4 (stórar) smáhlutahillur með okkur. Ekki það að þær séu fyrir okkur, nei nei, ég ætla að senda þær til mömmu. Einhvern veginn.

Ætla samt að kíkja aftur í fyrramálið. Það var nefnilega djö... flottur skápur sem ég sá þarna og fattaði ekki að spyrja að hvað hann kostaði. Það er jú 50% afsláttur af öllu. Hver veit nema ég þurfi bara að fá lánaða kerru á morgun!