STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

sunnudagur, mars 01, 2009

Nýtt ár, nýr mánuður, ný bloggfærsla!

Vegna gífurlegs þrýstings frá fólki sé ég mig tilneydda til að henda hér inn einni bloggfærslu!

Það er mjög gott að vera komin aftur heim og nei það er ekki svo leiðinlegt að við höfum ekki frá neinu að segja. Hér koma helstu fréttir:
  • Við búum enn í Laguarbakkaskóla og ætlum okkur að vera þar þar til annað verður ákveðið.
  • Strákarnir eru ánægðir í sínum skólum.
  • Eyþór nýtur þess að geta farið til pabba síns um hverja einustu helgi.
  • Hinrik er að verða þreyttur á að vera í leikskóla og reyndi að fá mig til að samþykkja að þetta væri eiginlega Grunnleikskóli!
  • Marek er enn með síðan topp, hann er komin niður fyrir höku.
  • Palli er ekki enn kominn með fasta vinnu, hann fer í viðtal hjá Vegagerðinni á morgun.
  • Ég er enn í leikskólanum og fíla það bara vel. Var samt að fá 2 aukaverkefni við vefsíðugerð. Það verður bara gaman.
  • Það eru allir í tónlistarskólanum nema ég. Eyþór er enn að læra á bassa, Marek á gítar, Hinrik á trommur og Palli í tónfræði (held ég).
  • Palli er fjórhjólasjúkur! Ætli hann verði ekki kominn á fjórhjól fyrir sumar.
  • Ég er í kirkjukór, spilaklúbbi og prjónaklúbbi.
  • Ég er ekki enn komin í Eurovisiongír en það fer alveg að gerast!
Já, þetta eru nú svona þetta helst í fréttum. Við förum nú ekki mikið, náðum að fara í 2 löngu planaðar heimsóknir í gær og svo er ein á planinu í dag. Sjáum nú til hvort við nennum.

Þar til næst...
Helga

mánudagur, desember 29, 2008

Tvö ný gullkorn

Marek er nú ekkert venjulegur spekingur, hann kom með tvö mjög góð gullkorn um daginn. Það fyrra var rétt fyrir jól, þá spurði ég hann hvernig honum litist á að fara í kirkju á aðfangadag.
-Ekki vel, ég er sko ekkert mikið fyrir messur og svoleiðis.
-Nú?
-Nei, ég er sko ekki trúaður.
-Nú?
-Nei, ég er sko reyndar ALLT ANNAÐ en trúaður.
-Nú, hvað ertu þá?
-Ég er túristi!

Við frekari eftirgrenslan komst ég að því að hann vissi ekki hvað það þýðir að vera trúaður. Mig grunar samt helst að hann haldi að það sé fólk sem er sérstakt áhugafólk um messur!

Seinna gullkornið kom í gær eftir að við höfðum átt frábæran dag í Saurbæ hjá Olgu, Baldri og börnum. Ég verð reyndar að taka það fram að ég NEYDDI Marek til að koma með, hann hótaði að fyrst hann mætti ekki vera í friði heima hjá sér þá myndi hann bíða úti í bíl allan tímann. Ég sagði að ekkert slíkt væri í boði og hann kæmi með hvort sem honum líkaði það betur eða verr. Eftir á, var þetta hinn besti dagur. Þeir bræður léku sér við Dagrúnu og Ínu út í eitt. Það eru líka fullt af dýrum í Saurbæ; hundar, kettir, tófa, kanínur, froskar, fiskar, kindur, kýr og hænur. S.s. hinn fullkomni sveitabær. Hinrik vildi kíkja á kindurnar og aftur varð ég að neyða Marek með. Hann var nú varla kominn inn í fjárhús en hann var lagstur í einn garðann, talaði við kindurnar eins og þær skildu hann og ekki fannst honum leiðinlegra í hænsnakofanum þar sem hann gat haldið á hænum og látið þær standa á öxlunum á sér! Hinrik skemmti sér líka alveg jafnvel, og hvorugur var tilbúinn að fara heim á eftir.

Á leiðinni heim sagði svo Marek:
-Mamma, ef við flytjum í sveit þá getum við bara NOTAÐ pabba til að vinna við allt. Við þurfum sko ekkert að gera neitt. Hann er nefnilega svo góður á traktora og allt svoleiðis!

laugardagur, desember 27, 2008

Gleðileg Jól?

Já, þetta er bara svona spurning um hvort þið áttuð ekki gleðileg jól. Við áttum það að minsta kosti. Við náðum ekki að gera jólakort fyrir jólin, vorum að hugsa um að senda út á milli hátíða en það er orðið ljóst að það verður ekkert af því. Við skulum bara horfast í augu við staðreyndirnar.

Við erum annars búin að koma okkur ágætlega fyrir hér í kennaraíbúð í Laugarbakkaskóla. Enda fengum við góða hjálp þegar Solla vinkona kom og hjálpaði við að taka upp úr kössum. Hún bjó hér, ásamt sinni fjölskyldu, í þessari íbúð á undan okkur og veit því "hvar best er að geyma hlutina". Marek skreytti svo húsið og við urðum tilbúin fyrir jólin. Jólin komu mér reyndar svolítið á óvart... þ.e. ég var ekkert að fylgjast með tímanum og svo var bara allt í einu komin Þorláksmessa!
En ég var víst búin að lofa Hrund einhverjum myndum af íbúðinni. Ég er ekki búin að taka myndir hér innandyra en við fengum sendar myndir teknar hér fyrir utan, rétt áður en við fluttum og hér koma þær í röðum (myndir opnast í nýjum glugga):
Okkar íbúð er á neðrihæðinni þarna til vinstri á myndinni. Það sem sést eru gluggar að borðkrók (alveg innst að húsinu), eldhúsgluggi, baðherbergisgluggi og Eyþórs herbergi. Á endanum eru svo forsetasvalirnar eða einsmannssvalirnar hvort sem maður vill kalla þær. Algerlega tilgangslausar. Skólastofan hans Eyþórs sést ekki á myndinni en hann gengur inn í skólann um þessar dyr sem sjálst. Gluggarnir sem eru svo á milli íbúðarinnar og dyranna er gamla heimavistin sem er núna notuð sem Edduhótel á sumrin.

Á þessari mynd er hægt að sjá íbúðina frá Suð-vestur horninu! Þarna sést í 2 stofuglugga, svalir (og þeir skörpustu sjá kannski glitta í svalahurð), okkarPálsherbergi, og herbergi H&M. Og svo forsetasvalirnar! Það sem er hinum megin við tröppurnar er gamla vistin og annað af þessum herbergjum af hvorri hæð fyrir sig er notað yfir veturinn af tónlistarkennurum.

Já, og hér er svo enn ein fín mynd af þessu líka stórkostlega sloti. Það sem sést vinstra meginn á myndinni er mötuneytið á neðri hæðinni og setustofa á efri hæð. Aldrei man ég nú eftir matarslag í mötuneytinu! Spurning um að bæta úr því!

Mamma og Þráinn voru svo hérna hjá okkur á aðfangadagskvöld, Eyþór var hjá pabba sínum, og þetta voru bara hin ágætustu jól. Hinrik og Marek fengu engin leikföng ef frá eru taldir 2 litlir bílar sem þeir fengu en þeir hafa svosem ekkert kvartað yfir því. Þeir fengu hins vegar trommusett og rafmagnsgítar og síðan þá hafa verið haldnar ansi margar hljómsveitaræfingar. Mjög gaman. Sem betur fer er bæði hægt að loka herbergishurðinni og líka svefnherbergisganginum!

Ég fer að vinna þann 12. jan á leikskólanum á Hvammstanga, bara svona eftir að við verðum búin að koma strákunum í rútínu í skóla og leikskóla. Palli er byrjaður að vinna, bæði sem vinnumaður í sveitinni hjá systur sinni og líka í íhlaupavinnu á Hvammstanga. Hann hefur líka nóg að gera í spilamennsku. Var t.d. að spila í gærkveldi með ðe Zetors, og var það alveg hrikalega fyndið gigg!

En látum þetta nægja í bili.
Helga

fimmtudagur, desember 11, 2008

Ferðalagið langa

Jà dagurinn er loksins runnin upp. Við sitjum hèr ì lestinni à leið til Kaupmannahafnar, stràkarnir bùnir að spila og leika sèr, èg bùin að horfa à - og grenja yfir - bæði survivor og The Amazing Race og nù er komið að Palla að vera ì tölvunni.

Marek hefur nù àhyggjur af þvï að við finnum ekki ìsland þvì við erum ekki með landabrèfabòkina okkar með okkur.

Lendum seint ì kvöld. Meira seinna
Helga.

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Námi lokið... í bili

Já, þá er þessu námi lokið. Ég fór í próf í dag, þ.e.a.s. ég varði ritgerðina okkar í dag og stóðst það með ágætum. Fékk 10 í einkunn (af 12). Einkunnagjöfin hérna er sko næstum því eins og í Eurovision, bara miklu, miklu flóknari!

En já, það er gott að þessu er lokið. Næst er bara útskrift á föstudaginn, svo pakka niður og henda og pakka og henda... og svo bera alla kassa út í bíl á þriðjudaginn. Flytja okkur öll yfir til hans Reynis og svo þrífa þessa íbúð og svo fljúga til Íslands þann 11. des.

Ágætis plan alveg hreint, ekki satt?

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Heimsmeistaramót

Ég hef komið mér saman um að halda heimsmeistaramót í Kleppara og í Hæ-Gosa! Mótið verður haldið á Hvammstanga í Húnaþingi-vestra einhverntíman í febrúar (svona til dæmis).

Og þá er bara að fara að æfa sig!

Það er annars bara fínt að frétta af okkur hérna. Hér á þessu heimili er opinberlega byrjað að... jæja, kannski ekki að pakka niður en allavega að fara í gegnum föt og henda (frá sér).

Hálfnað verk þá hafið er!
...farin í pásu!

Helga.

föstudagur, október 31, 2008

Hljóðfæri

Einu sinni, þegar ég átti heima í Móbergi komu nokkar manneskjur í "heimsókn" í partý. Í þessu eina partýi í Móbergi... nei, bíddu... það varð svo annað seinna. Þetta var það fyrra. Allavega, í þessu fyrra partýi í Móbergi kom alveg hreint ágætis kona. Ég held allavega að hún sé og hafi verið alveg ágæt. Þekki hana svosem ekki mikið. En hún sem sagt kom þarna ásamt einhverju fleiru fólki sem eru eiginlega svona "nóbodíar" í þessarri sögu. Þegar eitthvað hafði liðið á kvöldið, er þessi ágæta kona komin í stuð til að syngja, lítur allt í kringum sig og spyr svona skælbrosandi:
"Hérna, áttu píanó?"
"Neibb" sagði ég. Ónefndakonan varð mjög hissa, hristi það svo af sér og spurði
"En gítar?"
"Nei" sagði ég.
"Ha? En bara blokkflautu?"
"Ehh.. nei" sagði ég.
"HA???? Áttu engin hljóðfæri???" Og konan ágæta trúði ekki sínum eigin eyrum!
Ég varð sármóðguð og neitaði. Hver þarf svosem hljóðfæri? Það eru greinilega ekki allir alveg jafn snobbaðir að þurfa að eiga fullt hús af hljóðfærum! Ha!
Nei, partýinu lauk ekki löngu seinna. Enda ekkert hægt að syngja!

Í nokkur ár var ég hálf móðguð og pínu hneiksluð! En NÚ má þessi alveghreintágætiskona koma í heimsókn því við eigum:
1 blokkflautu
1 írska flautu
1 skrítna flautu
1 fuglaflautu
1 frosk
1 balalæku
1 úkulele
1 írska trommu
1 píanó
2 afríkanskar trommur
2 gítarar
3 bassar
3 fiðlur
sem sagt 19 hljóðfæri!

Komi hún bara! VERTU BARA VELKOMIN!

p.s. Steingleymdi alveg að Palli á líka trompet í geymslu hjá Hjálmari og einhverstaðar á ég ónýtt orgel. 21 Hljóðfæri... geri aðrir betur.

pp.s. Ég er ekki manísk... ég endurtek: EKKI!! Nei! Ég er ekki manísk!