STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, október 31, 2006

Interrail??

Vissuð þið að Interrail passi í 16 daga kostar bara um 25 þúsund krónur? Og að það er ekkert aldurstakmark (eins og var fyrir einhverjum árum). Og að það eru fullllt af löndum í Evrópu sem ja... t.d. ég, á eftir að kanna! Eins og t.d. Ungverjaland, Austurríki, Sviss. Og Tékkland. Og.. og... já!
Interrail væri sko ekki leiðinlegt!
Er ég nokkuð ein um að vera svolítið ferðasjúk?
Ha?
Einhver?

hh

p.s. var að setja inn fleiri myndir.

sunnudagur, október 29, 2006

Farið til útlanda

Hrafnhildur Laufey kom hingað fyrir helgi, á fimmtudaginn reyndar og var hérna um helgina. Hún varð að mestu að sjá um sig sjáf á föstudaginn því ég var í skólanum og Palli að vinna. En á laugardaginn fórum við tvær í smá ferðalag. Leiðinni var heitið til Þýskalands en við þurftum að keyra í gegnum þorp hér rétt hjá sem heitir Gråsten og þar var gert stutt stopp því þar var loppumarkaður! Aldrei að sleppa úr markaði ef maður er í nágreninu! Það var ýmislegt merkilegt þar, t.d. bollastell með 14 bollum, kakókönnu, rjómakönnu og kökudiski (minnir mig) og þetta kostaði 230 dk. Svo var þarna geðveikt flott sósukanna með áfastri undirskál frá Villeroy & Boch - geðveikt flott! Og svo var einn flottur veggskápur með glerhurð. Já, og borð og ýmislegt fleira. En ég hugsa að Páll hefði EKKI verið ánægður ef ég hefði komið með fleiri húsgögn í búið og ekki gat ég heldur sagt að mig VANTAÐI sósukönnuna eða bollastellið svo við fórum þarna út tómhentar.

Þá fórum við til Flensburgar. Byrjuðum að kanna miðbæinn því við ætluðum í H&M þar - miklu stærri búð heldur en í Sönderborg. Við vorum ekki lengi í miðbænum svo við skoðuðum ekki mikið þar. En næsta stopp var verslunarmiðstöð sem heitir Citti-Park. Þar komum við inn í einhverja þá stæðstu matvöruverslun sem ég hef farið í! Ekkert smá stór og þar fæst næstum því allt sem mann langar í. Ég held að við höfum eytt u.þ.b. klukkutíma í víndeildinni. Ég keypti mér [yellow tail] rauðvín (með gulum miða) sem er uppáhaldsvínið mitt. Geðveikt gott! Það kostaði 2.99 evrur sem eru u.þ.b. 260 íslenskar krónur en á Íslandi kostar sama vín 1190 krónur sem er svolítið mikið dýrara en hér úti. Mig minnir líka að maður geti keypt heilan kassa af þessu víni - 10 flöskur - fyrir 23 evrur (2000 ísk). Og svo er rauðvín líka svo gott fyrir hjartað!

Þarna í Citti-Park var sýning á skorkvikindum og við sáum þarna slöngur, sporðdreka, landskjaldböku, tvær mismunandi en samt risastórar köngulær, kamelljón, gekkó, einhverskonar engisprettur og einhver kvikindi sem litu út eins og trén sem þau stóðu á og þau voru sko ekki lítil! Hvað var aftur fleira? Æi ég man það ekki. En þetta var mjög áhugavert að sjá.

Ég keypti mér annars ekki bara rauðvín í Þýskalandi heldur keypti ég líka hrærivél. Við skildum hina eftir hjá Stebbu systur því hún var svo fyrirferðamikil að við komum henni ekki fyrir. Ég keypti þarna Bosch vél, og það er hægt að kaupa viðbót á hana (f. tölvunörda heitir það extention pack) sem er hakkavél, rifjárn og blandari. Og kannski eitthvað fleira sem ég veit ekki um.

Nú er búið að breyta klukkunni svo að við erum bara einum klukkutíma á undan Íslandi! Þetta þýðir að þegar við þurfum að vakna klukkan 6 á morgnana þá er "líkamsklukkan" orðin 7! S.s við getum sofið í klukkutíma "lengur". Snilld!

Það er eiginlega orðið það kalt hérna að maður ætti að fara í sokka - eða allavega lokaða skó. Og kannski líka flíspeysu.

Ein saga af Marek hér í lokin: hann og Eyþór fóru út í búð í gær að kaupa tvíbökur, mjólk og rjóma því það átti að vera kakósúpa í matinn. Þeir gátu alls ekki fundið rjómann og eftir að hafa leitað um allt vatt Marek sér að búðarkonunni og spurði eins og ekkert væri; "Hvor er flødeskum?" Góður! Og þeir komu heim með allt sem þeir áttu að kaupa.
Over and out.

þriðjudagur, október 24, 2006

Fullt af húsgögnum

Ég var á bílnum í dag, keyrði Palla fyrst í vinnuna eldsnemma í morgun. Kom svo heim og sótti restina af heimilisfólkinu og keyrði það á sína staði. Svosem ekkert merkilegt við það. Eftir skóla gerðist álíka ómerkilegt, fór fyrst og sótti Eyþór og Marek, svo Hinrik í leikskólann. Þar sem klukkan var ekki alveg orðin 3, og Palli því ekki búinn að vinna, kom ég við hjá Hrund bekkjarsystur og lét hana fá glósur, sótti svo Palla og skutlaði honum og Hinrik heim. Síðan fór ég að versla! Og verslaði mikið vegna þess að ég var náttúrlega á bílnum fína. Nú, ég er nú að koma að rúsínunni. Þegar ég kom heim kom Palli út að hjálpa mér með pokana og þá var kallað halló á okkur. Þetta voru þá nágrannahjón okkar þau Irene og Uwe. Uwe spurði strax hvort okkur vantaði lampa sem vantaði á skermi. Ég sagði að það gæti nú verið og við skokkuðum saman niður í kjallara til að kíkja á gripina. Þetta voru þessir fínu lampar, tveir, sem ég tók með mér. Uwe hafði fundið þá í ruslagámnum. Nú, þetta var nú ekki allt því hann sagði mér að það lægju tvær kommóður í papparuslagámnum sem er hér rétt hjá. Ég hljóp því upp, náði í tóma pappakassa sem ég þurfti að henda og hljóp yfir með þá. Ég gat nú ekki opnað lásinn svo ég sótti Uwe sem opnaði gáminn og sýndi mér kommóðuna. Hún var frekar lúin en alveg hægt að nota hana. Hún var bara heldur stór fyrir okkur, ég hefði viljað hana ef þetta væri pínulítil eins og náttborð. En ég hringdi í Ingu og Hjalta sem vildu koma og kíkja á hana. Uwe spurði þá hvort ég vildi fá hina, en ég neitaði því. "Man skal aldrig sige aldrig" sagði hann þá og bætti við að það lægi þarna ein gömul kommóða. Nú? sagði ég og það lifnaði heldur betur við mér! Kannski maður kíki allavega á hana. Þetta reyndist þá vera hinn fínasti skápur með einni stórri skúffu efst og við drösluðum henni upp úr gámnum. Hjalti og Inga komu til að sækja kommóðuna sína og ég bað Hjalta að hjálpa mér með hina. Palli kom svo út til að bera hana inn... og við skulum segja að hann hafi ekki verið alveg eins brosandi og ég! Uwe sagðist svo ætla að halda áfram að hafa augun opin handa mér en ég sagði að þetta væri víst alveg að verða orðið nóg! Nú þarf ég bara að skrúfa skrúfur úr lásnum, ná honum úr og lesa einhverjar tölur á honum og þá get ég látið smíða nýjan lykil fyrir skápinn. Fullkomið!

Já, lífið er svo sannarlega dásamlegt!
hh

laugardagur, október 21, 2006

Kominn tími til að blogga aftur.

Eyþór kom heim aftur í dag. Það var gaman að sjá hann og strákarnir voru mjög fegnir að fá hann heim aftur! Við strákarnir fórum á lestarstöðina að sækja hann og þeim fannst mjög spennandi að hann væri að koma með lest.

Við fórum til "útlanda" (Þýskalands, eða fiskalands eins og Hinrik segir) í fyrradag. Ákváðum að drífa okkur aðeins út og skella okkur yfirum. Það var alveg ágætt, allaf fínt að fara í verslunarleiðangur. Við keyptum nokkur föt á strákana, minniskubb fyrir PlayStation tölvuna og borðsíma. Ég var búin að leita um allt hér í Sönderborg að einföldum, ódýrum síma með snúru (GSMS) því ég er nýbúin að komast að því að við erum með netsíma með dönsku númeri og þar sem heimilissíminn okkar er tengdur við Smartsímann þá vantaði okkur annan síma. Íbúðin sem við búum í er síðan 1947 og ekki mikið um óþarfa innstungur og því gátum við ekki fengið okkur annan þráðlausan síma. Við erum sko með tölvu, skjá, prentara, samartsímaboxið, router, þráðlausan síma, hub, sjónvarp, videó, flakkara, PlayStation og kannski eitthvað fleira sem ég man ekki eftir, allt á sama stað og það er bara ein innstunga í boði! Ekki sniðugt. Þannig að ég var sem sagt búin að leita um allt að snúrusíma en þá er bara ómögulegt að fá í Sönderborg en við fundum hann allavega í Flensborg.

Hvað á ég svo að segja ykkur fleira? Ég er búin að vera ferlega dugleg að læra þessa vikuna - þó ég segi sjálf frá. Við Hrund bekkjarsystir fórum þrjá morgna niður í skóla að læra og ég er búin að vinna upp næstum allt það sem var eftir sem var ekkert smá. Gott mál.

Palli er kominn með vinnu hjá JF Stoll og byrjar á þriðjudaginn. Og fyrir Þórunni er hérna linkur inn á www.jf.dk verksmiðjuna. Það er bara frábært.

Hér er ein skemmtileg saga af Marek: Hann sat á klóinu (já það koma margar klósettferðasögur héðan) og kallaði fram; "mamma ég prumpaði í klósettið. Nú kemur ógeðsleg lykt í sjóinn!"

Já þetta er ágætt í bili. Og má ég minna á að við erum með Íslenskt símanúmer, það er óhætt að hringja í okkur! Símanúmerið er hérna efst á síðunni!!! (4960004, ekkert landsnúmer á undan).

hh.

sunnudagur, október 15, 2006

Kominn til Danmerkur aftur!

Það hafðist. Ég hafði það að af (líkt og hinir farþegarnir með Norrænu) að koma mér til Danmerkur. Og ég sem var alveg búinn að gleyma því hvað ég er sjóveikur og á henni, sjóveikinni, fékk stóri síminn á karlaklósettinu að kenna á, þangað til ég fékk mér sjóveikistöflu. En það er ágætt að ferðast með Norrænu. Að sigla inn til Þórshafnar í Færeyjum er til dæmis fallegt og enn fallegra að sigla inn fjörðinn til Bergen í Noregi( Heyja Norge). Þar er fallegt.

En ég verð að koma á framfæri því sem ég heyrði í sjoppunni á þriðjudaginn var. Það var snilld. Ég sat við borð með Hrannari Har, Stebba Grétars, Tótu kærustu Hrannars Har (og mágkonu Stebba Grétars) og Jóni Hilmari. Þá komu inn Siemens tvíburarnir sem eru Tóti á Staðarbakka og "Gunnar Ægir gerður á Reykjum" eins og ~ritarinn skrifaði hérna um árið. Og allir fóru að spjalla þarna við alla. Aðallega var talað um það hvað lifnaði mikið yfir mér þegar loks var farið að tala um Scania vörubíla en ekki MAN og svo einnig var rætt um nafngiftir fyritækja og einstaklinga. Til dæmis þetta að þeir Tóti og Gunni eru stundum kallaðir Siemens tvíburarnir, og að Stebbi og Hrannar hafi fengið nöfnin Rusli og Basli eða Gámur og Gleypir. En þetta er auðvitað allt í gríni sagt (held ég) og ég óska þeim Hrannari og Stefáni velfarnaðar í snjómokstrinum í vetur og næstu vetur.


En það er fínt að vera kominn til Danaveldis aftur. Á morgun tala ég við Tage Nilsen í JF-Stoll verksmiðjunni. Fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það verksmiðja sem framleiðir heyvinnuvélar hér í Sönderborg.

Meira seinna.
Palli.

föstudagur, október 13, 2006

Landfræðingur, jáh!

Marek sagði við mig rétt áðan að hann langaði geðveikt til að verða landfræðingur. Móðir hans fylltist stolti og sagði við hann að það væri góð hugmynd og að hann gæti alveg orðið landfræðingur þegar hann yrði stór.
-Nú? Hvernig? spurði hann þá.
-Nú með því að læra það þegar þú ert búinn með grunnskólann.
-Þá þarf ég sverð, sagði Marek.
-Ha? ertu kannski að meina "Landkönnuður"?
-Nei, landfræðingur.
Mömmunni létti. Sá fyrir sér son sinn í fréttunum í hverri viku.
-Veistu hvað ég þarf til að verða landfræðingur? spurði hann
-Nei.
-Sko ég þarf bara sloppinn minn, flíspeysuna, veiðivestið mitt og brúnu buxurnar og svo sverð og þá verð ég landfræðingur!
Mamman þarf eitthvað að fara að huga að sínum óskum fyrir framtíð sonarins!

Bakaði annars pönnukökur í dag og bauð Ingu og Hjalta í kaffi. Seinna um kvöldið var opnuð rauðvínsflaska og farið í Sing Star. Inga hafði aldrei prófað það. Ég, hænuhausinn, var bara búin með tæplega 2 lítil rauðvínsglös þegar ég var farin að finna á mér. Nú, þegar smá lögg er eftir í flöskunni, held ég að það sé kominn tími til að fara að sofa.

Ég er annars komin í viku frí - ef frí skyldi kalla. Skólinn er í fríi en mér veitir ekki af að læra eins og hestur ef ég á ekki að dragast meir aftur úr.
Af tilefni þess að í dag var síðasti dagur fyrir frí, þá fór allur bekkurinn, og bekkurinn fyrir ofan í keilu. Það var geðveikt gaman! Ég verð að fara með strákana þangað einhverntíman!

En, allavega, best að fara að sofa - og njóta þess að sofa út á morgun!
Palli kemur annaðkvöld!
hh.

fimmtudagur, október 12, 2006

ÉG ER AÐ KOMA TIL ÍSLANDS!

Ég er að koma til Íslands í dag.
Bæ bæ.


Kveðja Eyþór

miðvikudagur, október 11, 2006

Bogfimi, skólinn og hnémeiðsli!

Við Eyþór létum verða af því að fara í bogfimi á mánudaginn. Eva og Vera dóttir hennar komu líka og líka hann Jói þeirra Ingu Lenu og Hjalta. Þetta var alveg geðveikt skemmtilegt, skemmtilegra heldur en á laugardaginn því nú fengum við almennilegar græjur: örvapoka til að geyma örvarnar í og einhverja leðurpjötlu á fingurna! Ég var búin að segja Ingu og Hjalta, sem voru að passa Hinrik og Marek að við yrðum bara í klukkutíma en áður en við vissum af var þessi klukkutími liðinn og enginn tilbúinn til að fara heim. Ég fór því á undan svo ég gæti farið með strákana heim áður en Hinrik sofnaði. Ég varð reyndar aðeins of sein því hann sofnaði í stofusófanum en ég vakti hann bara. Þau hin voru svo að æfa sig alveg til kl. 19:30.

Hnéð á mér er ekki að verða gott. Það var sæmilegt á mánudaginn, í gær var það verra en vont – þó ekki alslæmt og svo í dag er það þokkalegt. Svona er nú sársaukastuðullinn. Ætli ég sé ekki með íþróttameiðs? Ég meina - bogfimi er flokkuð sem íþrótt, ekki satt?

Ég var alveg við það að fara að grenja og hætta í skólanum í gær. Ég skildi hvorki upp né niður í nokkru sem við vorum að gera, þ.e.a.s. í forritun. Við eigum að skila inn frekar stóru verkefni – miðað við þau sem við höfum verið með – á morgun og ég er svo langt frá því að vera búin með það. Skil ekki einusinni hvernig ég á að vinna það. Við eigum sko að útbúa forrit sem leyfir notandanum að velja sér pizzu frá matseðli, og drykk og svo á hann að geta pantað meira ef hann vill án þess að byrja forritið upp á nýtt. Hljómar kannski ekki svo flókið en það er það ef maður skilur ekki hvernig á að byggja þetta upp. Helv.... !! En ég allavega hætti við að gefast upp þegar ég mundi eftir mánaðarlaununum sem maður getur fengið við svona vinnu sem eru töluvert hærri en kennaralaunin. Vona ég!!

Palli er að fara í Norrænu í dag og kemur á laugardaginn! Húrrrraaa!
hh

sunnudagur, október 08, 2006

Kvennadagur og Sirkus

Í gær var kvennadagurinn hjá Íslendingafélaginu hér í Sønderborg. Við byrjuðum daginn um kl. 11 með því að fara í smá eltingarleik og svo var farið í bogfimi. Bogfimin var geðveikt skemmtileg. Ég var búin að komast að því, áður en við fluttum hingað, að það væri hægt að æfa bogfimi hérna og ætlaði mér alltaf að fara svo þetta var alveg upplagt að prófa þennan dag. Fyrst prófuðum við allar að skjóta einu sinni, svo var skipt í þrjú lið og farið í keppni. Geðveikt skemmtilegt.
Næst var farið í aðstöðu Íslendingafélagsins (kallað loftið) og borðuð súpa og brauð. Strax á eftir kom einhver kona og var með hláturnámskeið fyrir okkur og var það bæði áhugavert og - jah, mjög fyndið.
Eftir það fengum við tíma til að skipta um föt og setja upp Lancome-lúkk og áttum einnig að semja texta við lag um kvennadaginn. Það var nú lítið mál.
Þá var farið aftur á loftið og þar fengum við grískt hlaðborð og vín - geðveikt gott! En dagskráin var nú ekki aldeilis búin því á eftir matnum fengum við námskeið í línudansi - líka geðveikt gaman. Og erfitt! Vá hvað maður svitnaði við þetta. Svo var bara spiluð tónlist og dansað og borðuð ostakaka í eftirrétt. Þetta var hinn fínasti dagur. Ég fór heim um kl. 11, var alveg búin að fá nóg enda hafði þetta verið langur dagur. Eins gott kannski því í dag hef ég verið að drepast í öðru hnénu, hef bara ekkert getað beygt það!

Í dag fórum við svo í Sirkus sem haldinn var hér í götunni fyrir neðan. Þetta var mjög lítill fjölskyldusirkus en dugði okkur vel. Þau voru með nokkur dýr í sýningunni; nokkra hesta af mismunandi stærðum, geitur, dúfur, hunda og kameldýr. Svo var auðvitað trúður sem okkur fannst hrikalega fyndinn! Þetta var hin ágætasta skemmtun.

Annars er bara venjuleg vika framundan. Ég veit ekki alveg hvernig mér gengur að fara með Hinrik í leikskólann á morgun útaf hnénu á mér. Það kemur í ljós. Þetta er síðasta vikan fyrir haustfrí og á föstudaginn fer bekkurinn minn í keilu. Við Eyþór erum líka að hugsa um að fara í bogfimi á morgun. Það er opið þar tvisvar í viku og maður má prófa fjórum sinnum áður en maður ákveður að gerast meðlimur í klúbbnum þeirra. Nú svo bæði fækkar og fjölgar á heimilinu þessa vikuna því Eyþór fer til Íslands á fimmtudaginn og Palli kemur heim á laugardaginn! Gaman, gaman.
hh

föstudagur, október 06, 2006

Fyrst eru veðurfregnir:
Í gær var svo kalt að Hinrik var með bláar varir þegar við komum í leikskólann rúmlega 7 og seinnipartinn tók ég fram úlpu handa honum áður en ég sótti hann. Ég fór þá líka í flíspeysu og renndi upp í háls - en er enn berfætt í sandölum. Það er nú ekki orðið "það" kalt!
Í kvöld kl, rúmlega 18, þurfti ég að hjóla út í búð og það var þungskýjað, súld en samt nokkuð hlýtt og það var ekki laust við að ég fengi smá heimþrá - saknaði haustveðursins á Íslandi. En það var nú fljótt að lagast!

Annars gengur allt sinn vanagang hér. Ég þarf að fara að sinna skólanum betur, var farin að dragast aftur úr, en er að reyna að vinna mig upp aftur.

Svo er kvennadagurinn á morgun, ég get nú ekki beint sagt að ég nenni honum en er viss um að það verði gaman. Það er líka eins gott að það verði gaman! Jú, jú, það verður það örugglega. Það er bara svo freistandi að hvíla sig aðeins hér heima. Þetta verður örugglega fínt.

Birgir Tómas: Eyþór kemur til Íslands 12. október og nei, hann er ekki með blogg. Allavega ekki sem hann notar reglulega.

þriðjudagur, október 03, 2006

Það er að koma haust.

Já, hér koma nokkrar veðurfréttir: í gærmorgun var svo kalt að ég fór í flíspeysu áður en ég fór út. Nei, þetta er reyndar ekki alveg rétt því ég hljóp inn aftur til að sækja hana áður en við fórum af stað kl. rúmlega 7.
- Eyþór fór líka í þykka peysu.

Í fyrrakvöld voru svo miklar eldingar hérna að manni leið eins og kvikmyndastjörnu á rauða teppinu! Við vorum auðvitað svo spennt yfir þessu að við slökktum ljósin inni og límdum okkur við gluggarúðuna til að sjá betur. Það voru ekki eins mikið um þrumur - sem er óvanalegt því þær heyrast oftar en eldingarnar sjást. Þetta veður stóð yfir í tæplega 2 tíma held ég og í byrjun horfðum við á eldingarnar úr stofuglugganum en undir það síðasta var ég farin að horfa út um svefnherbergisglugga sem snýr akkúrat í hina áttina.
Við Marek horfðum lengi á þetta úr stofuglugganum og Marek var sko alveg með útskýringu á þessu öllu: Guð er reiður því það er einhver sem trúir ekki á hann og þá deyr engill og þá verður hann reiður!
Svo fór að rigna og þá sagði hann: Æi, nú er Guð að gráta... eða pissa... man það ekki alveg.

Og eins og titillinn sagði þá er farið að hausta hér, allt blautt og laufblauð út um allt. Samt er langt í að trén verði ber. Nóg til af laufum hérna!

Næsta laugardag er konudagur hjá Íslendingafélaginu, það á að mæta kl. 11 og þetta stendur yfir fram yfir kvöldmat. Hjalti Jó ætlar að passa strákana fyrir mig úr því Palli er ekki kominn heim. Þetta verður örugglega skemmtilegt - þó maður fái alls ekki að vita nokkuð um hvað eigi að gera!