STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Tæknilegir örðuleikar

Það er alveg merkilegt hvað maður er háður tækjum, eða ég er það allavega. Ég komst heldur betur að því um daginn þegar ég ætlaði að uppfæra stýrikerfið í símanum mínum og "óvart" eyddi út öllum upplýsingunum sem voru í honum. Með "óvart" meina ég sko að ég hunsaði viðvörun um að taka öryggisafrit af öllu í símanum. Nei, ég ýtti bara á 'ok' og allt þurrkaðist út. Allir afmælisdagar sem síminn ætlaði að minna mig á, allir minnispunktarnir sem ég mátti alls ekki gleyma og það mikilvægasta af öllu; öll símanúmerin sem voru í símanum.

Ég ákvað samt ekki að panikka, hugsaði með mér að fólk hlyti á endanum að hringja í mig eða senda sms og þannig gæti ég smátt og smátt fengið símanúmerin aftur - þau sem ég myndi á annað borð ekki finna inni á krak.dk. Síðan lagði ég af stað til að sækja Palla í vinnuna. Hann hafði beðið mig um að vera mætt í síðasta lagi korter yfir 10. Ég náttúrlega stundvís með eindæmum (amk. þetta kvöld) var mætt 10:10. Beið bara í bílnum og skoðaði símann minn. Beið og beið og ekkert bólaði á Palla. 25 mínútur yfir 10 var ég farin að ókyrrast. Kannski hafði Viðar keyrt hann heim og hann hefði gleymt að láta mig vita. Ekki gat ég hringt í hann því ég vissi ekki númerið hans. Ekki heldur númer Viðars. Ég gat ekki einusinni hringt í neinn, Hrund, Þórunni eða Evu og beðið þær um einhver númer því ég vissi ekki þeirra númer!
Sem betur fór komu Palli og Viðar út fljótlega og ég gat hætt að hafa áhyggjur af þessu.

Nú eru mörg númer komin í símann en engir afmælisdagar. Það verður næsta verkefni.

Annars er búið að vera æðislegt veður hérna. Við fórum í afmælisgrillveislu á sunnudaginn í 23 stiga hita en skýjuðu veðri og haldið þið ekki að ég hafi ekki bara brunnið aftan á hálsinum! Já, sumarbleikur er tískuliturinn í ár (sem og síðastliðinn 35 ár) og er aðeins farinn að láta sjá sig.

Helga bleika.

föstudagur, apríl 25, 2008

Hinrik í makeover

Svona til að leiðrétta allan misskilning þá FÉKK Hinrik sitt makeover daginn eftir að ég fékk mitt. Hann mátti bara ekki fá sitt makeover þegar hann vildi því hann var háttaður og kominn upp í rúm og eins og allir vita þá sefur maður ekki með Lancome-lúkk... eða ætti ekki að gera það.
Hér er hann svo að fá sitt makeover. Marek auðvitað að vanda sig vel.


Og Hinrik varð hæstánægður með árangurinn - hér var hann samt ekki búinn að sjá sig í spegli.


Marek bað hann um að loka öðru auganu svo maður sæi betur á augnlokið.

Á eftir málaði Marek sig og svo fóru þeir út saman að leika sér í stríðsleik!
Posted by Picasa

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Extreme Makeover


Eftir mini-fótsnyrtingu, handáburðarásetningu og handanudd fékk ég nokkurnskonar makeover með tilheyrandi litum. Það var hann Marek sem fór á kostum við dekrið.

Næst á eftir mér í röðinni var Hinrik, en honum var meinuð andlitsmálning! Kannski á morgun sagði ég.
Posted by Picasa

sunnudagur, apríl 20, 2008

Bon Jovi tónleikar

Ætlar einhver á Bon Jovi tónleikana sem eru rétt hjá Randers þann 19.06. 2008?
Kostar 550 kr á B svæði - uppselt á A svæðið.
Mig dauðlangar... nenni samt ekki ein.
Einhver??

Hver vill líka fara til Stettin í lok júlí?? Einhver?? Ha?

Helga í ferðahug!

föstudagur, apríl 18, 2008

Vinna mín... (Palli)

Gott kvöld (þegar þetta er skrifað).

Enn er Marek að koma með spakmæli. Núna áðan sagði hann mér að hann gæti ekki sofnað í sínu rúmi vegna þess að hann væri svo hræddur við að sofna í myrkri. Besta leiðin til að sofna væri að sofna í "mömmu rúmi". En þá sagði ég honum að það væri líka myrkur í "mömmu rúmi". Nú já, en þá sofna ég bara með opin augun þar en það get ég ekki í mínu rúmi :)

Það stendur ALDREI á svörum hjá honum.

En það er ákaflega gaman hjá mér í vinnunni minni.
Viltu bara sjá?



Skemmtilegt það?

þriðjudagur, apríl 15, 2008

Og enn talar Marek

Eftir laaaangar umræður (móðurinni til mikillar armæðu) um stríð, heimsstyrjöldina fyrri sem og þá síðari, stormdaginn í Danmörku (stríð), byssur, særða hermenn sem lifðu af hinar hrikalegustu sprenginar (í stríði) sagði móðirin; Vitiði það að ég hef meiri áhuga á Barbie heldur en stríði.
-Ekki við, heyrðist sagt tvíróma (Eyþór og Hinrik).

Þá kom þessi speki:
Mamma, vissir þú að stelpur og konur eru stóra kúlu í heilanum? Og strákar og menn eru með litla kúlu. Ég er með litla kúlu.
-Ha? svaraði mamman steinhissa. -Afhverju?
-Það er vegna þess að stelpur og konur eru betri en strákar og menn.

Mamman reyndi að fela sigri hrósandi tóninn í röddinni og spurði:
-Nú? Hver sagði þér það?
-Kennarinn minn sagði mér það. Hann Lars.

Já, það þarf greinilega ekkert að endurskoða námsefnið hér í Danmörku.

Helga með stóra kúlu í heilanum.

föstudagur, apríl 11, 2008

Þróunarkenning Mareks

Marek finnst alveg hrikalega gaman að lesa allskonar fræðibækur (t.d. alfræðibækur, dýrabækur og orðabækur) en hann getur alls ekki setið einn að þessum fróðleik og látið okkur hin missa af honum.
Í dag kom hann með þessa speki:
Það eru 5 tímar: Fyrst var risaeðlutíminn, svo kom riddaratíminn, næst kom hermannatíminn, þessi með hermönnunum sem voru svo latir að þeir nenntu ekki að búa til bíla og löbbuðu um allt. Svo kom hinn hermannatíminn, þessi með venjulegu hermönunnum sem eru í svörtu og hvítu og svoleiðis og við erum í honum núna. Og síðast er geislasverðatíminn. Hann kemur í framtíðinni þegar ég er orðinn fullorðinn og bílarnir farnir að fljúga.

Og þá hafið þið það! Ef þið hafið haldið eitthvað annað um þessa tíma er það sjálfsagt vitleysa.

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Pönnsur eru alltaf góðar!


Já þær standa alltaf fyrir sínu, pönnukökurnar. Þessar vorum við að snæða rétt áðan. Namm...

Um daginn... hvenær var það aftur... já á sunnudaginn, komu Eva, Juha og Matilda í mat til okkar. Við erum líka búin að vera með alveg hreint ágætis "gest" sem gengst við nafninu Jón Bergmann þannig að ástæða var til að elda öðruvísi mat. Því var ákveðið að borða bjúgu með grænum baunum, uppstúf og kartöflumús eftir mínu nefi (með beikoni, blaðlauk og papriku).

Nema hvað að ég er ekki alveg vön að sjóða bjúgu. Og þá sérstaklega ekki heimagerð sem koma innpökkuð í dagblöð og engar eldunarleiðbeininar utan á. Hvað gerir maður þá? Jú, þá grípur maður matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur því hún er svo sannarlega biblía íslenskra húsmæðra. Og er hún mikið notuð á þessu heimili!

En þá vandaðist málið eilítið; það var ekkert talað um bjúgu í bókinni, hvorki í kaflaskiptingayfirlitinu né í efnisyfirlitinu! Ha? Rammíslensk bjúgu!! Og ekki minnst einu orði á þau. Við Eva leituðum báðar. Fyrst samtímis, svo í sitthvoru lagi. Ekkert dugði. Ekki orð um bjúgu. Ekki einu sinni undir kinda- eða hrossabjúgu! Ég átti ekki til orð!

En þá datt mér í hug hvort þau gætu verið listuð undir öðru nafni. Hmm... jú það gat verið en ekki höfðum við hugmynd um hvað það gæti verið. Evu datt svo loks í hug eitthvað Sp... eitthvað og ég gáði í sp í efnisyfirlitinu. Sperðlar! Um leið og ég sá orðið mundi ég að hafa heyrt það áður. SPERÐLAR! Hvurslags eiginlega orð er það? Hvað með BJÚGU? Hvað er það þá í eintölu? Sperðill? Hér er sperðill, um sperðil, frá sperðli til sperðils??? Í alvöru?? Fuss... ég bara get ekki sagt annað.

BJÚGUN voru annars alveg einstaklega góð og áttu sérstaklega vel við heimagerðu kartöflumúsina.

Helga Húsmóðir.
Posted by Picasa

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Vorið er komið og grundirnar... eru enn grænar

Vorið er svo sannarlega komið, hitastigið komið um og yfir 10 gráður og það er yndislegt að heyra fuglana syngja fyrir utan gluggan. Það sem er hins vegar minna yndislegt eru helvítis pöddurnar sem fara að lifna við! Eins og moskítóflugan sem ég drap inni í herbergi hjá okkur um daginn. Ég meina, það var annaðhvort hún eða ég, ekki satt! Bara að verða fyrri til, það þýðir ekkert annað.

Það er líka annað sem bendir til þess að það sé að koma vor en það er grænmetis og ávaxtaborðin í verslununum því að sumt af þessu fæst bara alls ekki nema það sé "sá tími". T.d. rababari og ýmis ber. Og eitthvað fleira sem ég man ekki eftir.

Það gengur bara vel í skólanum hjá mér. Þessi önn er svo gerólík hinum þremur að það er ekki fyndið. Mér finnst þetta bara vera næstum því eins og að vera í fríi því miðað við hinar annirnar þá er þessi svo róleg með fáum verkefnum, svo að maður bara nær að gera næstum því alla heimavinnuna! Bara snilld!

Palli er farinn að vinna í verksmiðju sem framleiðir eitthvað merkilegt. Ég get varla sagt frá því og ætla því að kasta þeim bolta yfir til hans. Kast!

Grip! Takk fyrir.
(Palli hér) Já, ég er að vinna í verksmiðju sem framleiðir allskonar hluti og svona dót í sláturhús og fiskveiðiskip. Svona vinnslulínur. Mitt hlutverk er að starta framleiðslunni á hverju verkefni fyrir sig og er ég á fundum með forstjóra, framkvæmdastjóra og stjórnarmönnum á hverjum degi. Þar eru teknar ákvarðanir um framtíð og stefnu fyritækisins ásamt því að finna út leiðir til að klekkja á samkeppnisaðilanum en það er hið öfluga íslenska fyrirtæki Marel. Einnig hef ég töluvert með mannaráðningar að gera og hef þar af leiðandi ráðið marga íslendinga í vinnu en þeir eru jú mun þægilegri í umgengni en danirnir. Það ræðst einkum af starfsgleði og vinnuvilja íslendinga gagnvart stórum og rótgrónum fyrirtækjum sem þetta fyrirtæki er.
Að lokum vil ég koma á framfæri eftirfarandi yfirlýsingu sem tekur þó ekki gildi fyrr en við flytjum heim til íslands aftur nú í vetur, en yfirlýsingin hljóðar svona:
ÉG ÆTLA AÐ FÁ MÉR GÖTUSKRÁÐ FJÓRHJÓL OG ÞAÐ STOPPAR MIG ENGINN Í ÞVÍ.... ENGINN SEGI ÉG. ALLS ENGINN. Takk fyrir. Og yfir til þin aftur Helga mín.


Takk Palli minn.
Eyþór er hættur við að vilja fara á Kiss tónleika. Móðirin er himinlifandi, því satt að segja nennti ég alls ekki. Ekkert að því að fara á tónleika með Kiss ef þeir væru bara hérna í nágrenninu en ekki í Kaupmannahöfn þannig að maður ætti eftir að keyra í rúma 3 tíma heim aftur eftir tónleika. Nei, ég brosti út að eyrum og það var ákveðið að fara á einhverja aðra tónleika hér í nágrenninu t.d. hér í næstu götu en þar eru oft tónleikar. Enda hægt að fara oft hér í bæ fyrir sama verð og öll ferðin til Köben hefði kostað okkur, með miðum meðtöldum.

Jamm, þetta er bara orðið ágætt í bili.
Helga