STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

föstudagur, ágúst 29, 2008

Dómarar í raunveruleikaþáttum

Eins og alþjóð veit er ég með Raunveruleikaþáttasyndróm! Ég skil eiginlega ekkert í því afhverju það hefur enginn boðið mér í viðtal út af þessum ólæknandi sjúkdómi en það er annað mál.
Við erum í þessum pikkuðu orðum að horfa á Talents 2008 sem er danska útgáfan af Britain's got talent. Fínir þættir!
En það sem ég var að velta fyrir mér er þetta:

Afhverju eru dómarar í svona hæfileikaraunveruleikaþáttum alltaf 2 menn og ein kona??

Skoðum dæmi:

Dómararnir í American Idol eru sjálfsagt frægastir allra hæfileikaraunveruleikaþátta. 3 menn, 1 kona.

X-Factor á Íslandi... dómarar; 2 menn og ein kona.
Idol Stjörnuleit á Íslandi... dómarar; 2 menn og ein kona.

ALLIR Talent þættir sem ég hef séð (Britain's got Talent, Norske Talenter, America's got Talent...) 2 menn og ein kona!

Meira að segja einn sá nýjasti; Oprah's big give... 2 menn og ein kona!!!

Hvað er málið??

Einu þættirnir sem ég man eftir í augnablikinu þar sem karlkynsdómarar eru í minnihluta er Project Runway og America's Next Top Model.

Er þetta í lagi? Þurfum við konur... nei... ég skal leiðrétta mig... þarf ÉG ekki að fara að gera eitthvað og reyna að troða mér inn í einhvern þáttinn sem kvenkynsdómari númer 2??

laugardagur, ágúst 23, 2008

Brjálað að gera!

Það er annað hvort í ökkla eða eyra! Suma daga hefur maður ekkert að gera og aðra daga kemur maður varla heim til sín nema til að sofa. Það var þannig dagur í gær. Það var reyndar ágætis afslöppun fyrir hádegi... við bekkjarfélagar mínir ákváðum að "vinna heima" þennan dag. En strax um kl. eitt byrjuðu lætin. Þá brunaði ég með Dísu á leikskólann að sækja ungana okkar sem voru að koma heim frá Koloni. Það gekk alveg rosalega vel þar... ekki að ég hefði búist við neinu öðru miðað við hvað Hinrik var spenntur fyrir ferðina. Hann hafði tekið fullt af myndum sem voru svo skemmtilegar að skoða. Smellið á linkinn fyrir neðan myndina til að sjá albúmið:
From Koloni 2008

Það var boðið upp á kaffi og kökur í leikskólanum og maður aðvitað settist aðeins niður. En það var ekki hægt að stoppa lengi því það átti eftir að henda Dísu, Dagnýju og Hinrik til Stefaníu, sækja Marek í skólann, skutla Palla í vinnuna og ná heim til Stefaníu ÁÐUR en handboltaleikurinn byrjaði! Það tókst nú ekki alveg, en það voru ekki nema nokkrar mínútur búnar! Og jesús minn hvað það var gaman að horfa á leikinn. Verst að heyra ekki lýsinguna á íslensku því ég er bara ekki nægilega sleip í dönsku til að skilja allt sem sagt er.

Allavega, strax eftir leik og eftir að hafa þurrkað tárin úr augunum eftir sigur liðsins (enn og aftur HÚRRRRRRAAAA!!!) var brunað niður í bæ. Það var nefnilega menningarnótt og skólinn minn ætlaði að vera með tjald til að kynna skólann og reyna að safna pening fyrir Írlandsferð sem við erum að fara í í október. Mitt framlag var s.s. að hjálpa til við að setja upp tjaldið. Það varð svo allt klappað og klárt fyrir kl. 5 og þá gátum við aðeins skoðað okkur um áður en við þurftum að sækja Palla í vinnuna. Hér var ég ekki enn búin að jafna mig eftir handboltann!

Palli sóttur og brunað niður á Kegnæs þar sem Iddi vinur Palla og fjölskylda og tengdafjölskylda hans voru með bústað á leigu. Það borðuðum við grillkjöt og meððí. Ekki var nú nægt að stoppa nægilega lengi þar því menningarnóttin beið. Ég hafði í fyrra lofað stráknunum að vera lengi á menningarnótt þetta árið og ætlaði sko ekki að svíkja það loforð. Sáum tónleika, flugelda, fullt af fólki og fleira! Fórum að sofa rétt fyrir kl. 23:30.

Ekki gat ég samt sofið út! Nei, við Hrund vöknuðum næstum fyrir sólarupprás til að steikja kleinur í morgun. Ástæðan: fjáröflun fyrir Írlandsferð!
"En afhverju að vakna svona snemma" spyr nú eflaust einhver. Já, það er einmitt góð spurning en það var vegna þess að okkur hafði verið boðið í afmæli til Tristans kl. 10 og svo til Dagnýjar Evu kl. 16 svo það var enginn tími þann daginn til að steikja. Matseðill dagsins hefur því verið kleinur í morgunmat (hjá mér, ekki hjá strákunum eða Palla) kökur og kaffi í hádeginu, fleiri kökur um kaffileytið og enn fleiri kökur í kvöldmatinn. Sem betur fer var mikið um brauðrétti svo við vorum nú ekki eingöngu að borða sykur! :-) Ekki að ég hefði nokkuð haft á móti því svosem.

En allavega... leikur í fyrramálið! Sjitt hvað ég hlakka til! Svo getur maður loks farið að slappa aðeins af. Heima hjá sér, það er að segja.

Takk fyrir þessa tvo daga - öll þið sem við höfum hitt :-)

Bless í bili
Helga.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Spenna og skemmtilegheit

Það er nú meira hvað lífið getur verið spennandi!
Á sunnudaginn þegar við Palli fórum á flóamarkaðinn í Flensburg og ég sá að allt bílastæðið við Förde Park var undirlagt söluborðum. Sjiiitt sem ég fékk mikinn fiðring í magann af tilhlökkun. Þetta var bara geggjað, reyndar keyptum við ekki mikið enda var ekki margt sem okkur vantaði bráðnauðsynlega! En ég keypti nokkra hluti í smáhlutahilluna og mjólkurbrúsa fyrir Olgu.
From helguhlutir
Það eru fleiri myndir í albúminu. Smellið bara á linkinn hér við myndina.

Ekki er svo hægt að slappa af yfir handboltanum á Ólympíuleikunum! Ég meira að segja kom of seint í skólann í morgun því ég gat ekki hætt að horfa á leikinn á móti Pólverjum. Vá hvað hann var flottur! Ég hef bara sjaldan séð íslenska liðið standa sig eins vel og í þeim leik... ég er nú kannski ekki sú allra harðasta þegar kemur að handboltaglápi en reyni samt alltaf að horfa á landsleiki á stórmótum. Á laugardaginn næsta er okkur boðið í tvö afmæli og ég geri bara ráð fyrir því að það verði kveikt á sjónvarpinu þar og horft - því auðvitað vinna íslendingar leikinn á föstudaginn. Eiga þeir þá ekki að spila á laugardaginn? Eða sunnudaginn? Hvernig er þetta eiginlega??

Annars er bara allt fínt að frétta af okkur. Ég átti að byrja að vinna hjá Saab að lokaverkefninu okkar á þriðjudaginn en þeir voru víst ekki tilbúnir fyrir okkur svo við byrjum ekki fyrr en á mánudaginn næsta. Þangað til erum við bara að reyna að undirbúa okkur í skólanum. Það kemur sér vel fyrir Palla því þá þarf hann ekki að taka strætó í vinnuna á meðan.

Hinrik er í "Koloni" með deildinni sinni í leikskólanum. Þá fara þau í sumarbústað einhverstaðar rétt fyrir utan Sønderborg og gista í tvær nætur. Hann var svo spenntur yfir ferðinni að hann vildi helst fara í gærkveldi. Og svo vildi hann helst fara að sofa kl. 19:30 í gær svo tíminn liði hraðar. Og hann tönglaðis á því að hann yrði sko í TVÆR nætur. Þvílík spenna í gangi. Það var svo ekkert smá skrítið að sækja hann ekki um kl. 4 í dag. Hann fékk að taka gömlu myndavélina mína með sér, ég vona bara að hann muni eftir að taka myndir og þær verði ekki allar hreyfðar. Þetta er jú gömul digital vél.

föstudagur, ágúst 15, 2008

Upprennandi fatahönnuður


Marek fór að tala um það upp úr þurru fyrir nokkrum dögum síðan, að Hinkik vantaði galdraföt. Ég hef ekki hugmynd um afhverju honum fannst það, kannski vegna þess að hann ætlar sjálfur í galdraskóla þegar hann verður eldri.

Eftir að hafa minnst á galdrafötin hans Hinriks nokkrum sinnum og það að við þurfum að sauma þau, bað ég hann um að teikna þau á blað svo við gætum saumað þau og volá, hér er teikningin.

Hann útskýrði að hann hefði teiknað fötin bæði eins og Hinrik væri í þeim og svo líka sitt í hverju lagi. Glæsileg teikning, ekki satt? Verst að ég er ekki með saumavélina hér úti.
Posted by Picasa

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Facebook!!

Internetið er bara bóla! Eða hvað? Er Facebook bara bóla? Maður er allavega ekki maður með mönnum nema maður sé á Facebook. Og svo addar maður næstum því öllum sem maður svo mikið sem kannast við. Ég er t.d. með stelpu sem er dóttir vinkonu mömmu! Ég hef sjálf hitt þessa stelpu tvisvar eða þrisvar sinnum.

Mér fannst þetta alger vitleysa fyrst, skráði mig inn bara til að skoða og ætlaði sko ekki að fara að verða eitthvað föst í þessu. En þá fann hann Hakan vinur minn mig á Facebook. Ég sem var algerlega búin að tapa sambandi við hann eftir að við fluttum út! Gott að finna Hakan! Ok, kannski maður gefi Facebook sjens.

Á Facebook er hægt að gera allan andskotann, maður þarf bara aðeins tíma til að LIGGJA í þessu og svo hafa hugarflug í að leita að dóti til að liggja í. Það heitasta í þessarri tölvu er að spila Scrabble við vini sína, já eða "ekki vini" sína. Ekki að það séu óvinir... bara fólk sem maður kannast ekki við. Scrabble örvar auðvitað heilastarfssemina því maður þarf svo mikið að hugsa svo maður fái mörg stig.

Svo er þarna leikur sem heitir Owned, þá selur maður myndir af sér og kaupir aðra, vini og ókunnuga. Við hverja mynd sem selst frá manni græðir maður meiri pening. Verst að þetta eru ekki alvöru peningar því þá gæti ég keypt mér einbýlishús með útisundlaug. Eða hús og bíl. En þetta eru sýndarpeningar. Ætli vinir manns séu þá kannski líka sýnarvinir?

Mamma er að minsta kosti ekki sýndarmamma, þó hún sé á Facebook - því eins og ég sagði; maður er ekki maður með mönnum nema maður sé á Facebook.

Ert þú á Feisinu? (Smá könnun - verið nú dugleg að kvitta - já eða nei)

mánudagur, ágúst 04, 2008

Sárið hans Mareks

Við fórum niður að strönd fyrir viku síðan, eins og bloggað var um í þarsíðustu færslu. Það sem ekki var bloggað um, en verður úr bætt hér í þessari færslu, er sagan um sárið hans Mareks. Hann tók nefnilega eftir stærðar blöðru á hnénu á sér, á þriðjudaginn eftir sjóferðina. Blaðran var virkilega risastór - svona miðað við lítið hné - og sprakk hún fljótlega og lak hálf gulur vökvi úr. Frekar ógeðslegt og Marek var strax viss um að þetta væri eitur.

Mamman á góða vinkonu sem er hjúkrunarfræðingur og hefur því erft mikla visku frá henni og kunni því vel að þurrka upp vökvann sem annars rann niður fótlegginn á barninu. Að öðru leiti var ákveðið að láta blöðruna vera. Á miðvikudaginn var afmæli hjá Önju frænku og fór Marek í sparibuxurnar sínar sem eru svartar flauelsbuxur. Eftir afmælið var sprungna blaðran orðin svört af kuski og neyddist hann til að fara í sturtu til að skola sárið. Leit allt nokkuð vel.

Á laugardaginn var svo önnur afmælisveisla hjá Kristjáni Kára og ákvað ég að spyrja fólkið þar hvort það vissi eftir hvað þessi blaðra gæti verið. Hvort það gæti verið að hann hafi verið stunginn af marglyttu. Marek dró upp buxnaskálmina (aftur svörtu sparibuxurnar, því maður er jú alltaf spariklæddur í afmælum) og þá bara leit sárið alls ekki nægilega vel út. Hann var því meðhöndlaður af sjúkraliða á staðnum. Mamman brunaði heim og sótti Bactigras grisju sem allt læknar og svo var bundið rækilega um sárið.

Í dag tókum við svo plásturinn af og settum nýtt á og leit allt mun betur út. Þetta er því allt í áttina. Því miður er þessi mynd sem ég tók á símann minn ekki alveg nægilega skýr en það sést samt hvað sárið er stórt miðað við baðmullarskífuna sem Lára heldur við fótinn.

Annars var Marek heldur glaður í gærmorgun þegar hann kom og vakti okkur Palla með þær gleðifréttir að hann væri með lausa tönn. Það væri sko ekki fréttnæmt ef þetta væri ekki tönn númer 3 sem losnar, og hann orðinn 8 og hálfs árs gamall!

Þeir strákarnir allir eru mjög hrifnir af því að fá símann minn lánaðan til að taka myndir. Þegar ég var að hlaða myndunum af honum inn á tölvuna sá ég að þeir hafa ansi oft fengið hann lánaðan! Svo ég ákvað að búa til myndaalbúm fyrir þær myndir sem þeir taka því það er oft ansi skemmtilegt að skoða hvað þeim finnst vera áhugavert myndefni!
Posted by Picasa

laugardagur, ágúst 02, 2008

Eyþór Logi á afmæli í dag

Já, frumburðurinn er bara orðinn 12 ára! Ótrúlegt! Ég varð reyndar að hugsa mig aðeins um til að vera viss um að þetta væri alveg rétt. En það er það. Af því tilefni ákvað ég að skanna inn nokkrar gamlar myndir af honum:

Hér er hann um tveggja og hálfs árs með Elvari Austra frænda sínum.

Þessi mynd var tekin hjá Bonna ljósmyndara þegar hann var rúmlega tveggja ára.


Og þessi mynd er akkúrat 9 ára gömul, Eyþór á þriggja ára afmæli þarna og við borðið sitja (frá vinstri til hægri) Kári, Kristófer, Ólafur og Eyþór og Steinunn stendur við vegginn. Je, hvað það er langt síðan, samt svo örstutt!

Elsku Eyþór okkar, til hamingju með daginn í dag :-)
Posted by Picasa