STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

miðvikudagur, desember 26, 2007

Annar í jólum

Voðalega er tíminn fljótur að líða! Ég sem ætlaði að gera svo margt um jólin, bjóða fólki í heimsókn, hvetja Eyþór til að fara að leika við vini sína áður en hann fer til Íslands, læra alveg heilmikið... og svo frv.

Eyþór fer heim á morgun, hann hefur ekkert farið að leika við aðra. Ég fór aðeins upp í skóla í dag... lærði aðeins. Hef ekki boðið sálu til okkar...

En sem betur fer er þetta ekki alveg búið. Ég fylgi Eyþóri til Kaupmannahafnar á morgun og við förum bara með lest. Ég var reyndar algerlega úti að aka þegar ég pantaði lestarmiðana því það var algerlega fastskrifað í kollinum á mér að hann færi þann 28. Svo ég pantaði lestarmiða fyrir þann dag. Sem betur fer tékkaði ég á dagsetningunni á öllum miðunum (flugmiðanum líka) og sá að þetta voru alls ekki sömu dagarnir svo ég gat pantað nýja miða og fæ hina endurgreidda að hálfu! Hefði auðvitað getað farið í lestarferð fram og til baka þann 28. líka. Bara svona til að skemmta mér!

Annars hafa jólin verið alveg yndisleg. Maturinn var hrikalega góður sem skemmir nú ekki fyrir. Hinrik var alger brandari því hann misskildi eitthvað varðandi þetta allt. Málið var að Marek las á pakkana og hann fékk því ansi oft "Takk Marek minn" frá Hinrik og oftar en ekki fylgdi rembingskoss í kjölfarið. Eyþór hafði teiknað fjársjóðskort fyrir þá hina tvo og lét þá leita að sínum pökkum frá honum. Marek grætti svo pabba sinn þegar hann las á merkimiða frá Ingunni og Heimi þar sem stóð "takk fyrir spilamennskuna" en þetta langa orð stóð svo í honum að hann ætlaði aldrei að getað lesið það. Á meðan grenjaði Palli af hlátri - hljóðlega! Eyþór dansaði um af gleði þegar hann fékk samlokugrill í jólagjöf og fullyrti að hann hefði sko fengið bestu gjöfina!
Við Palli fengum met í DVD myndum; 8 stykki talsins sem þýðir að við neyðumst til að kaupa okkur DVD spilara fljótlega :-)

Og svo fengum við Palli sitthvora bókina. Takk tengdó! :-)

Myndir frá þessu kvöldi fara svo að koma inn.

Mojn, Helga

mánudagur, desember 24, 2007

Gleðileg Jól

Já, jólin komu bara þó svo ég væri ekki búin að skúra! Alveg ótrúlegt!

Þessi jól verðum við með mikið af kertaljósum svo maður sjái ekki óskúruðu gólfin eða fatahrúguna sem á eftir að þvo.

Þetta eiga eftir að verða góð jól, enda síðustu jólin okkar hér í Danmörku... ekki það að ÉG sé farin að telja niður. Það verður hamborgarhryggur í matinn, möndlugrautur á eftir og hangikjöt á morgun. Við eigum svo góða nágranna (Sólrúnu og Garðar) sem ætla að koma á eftir með laufabrauð handa okkur. Í staðinn gefum við þeim slatta af hrísgrjónasalati til að hafa með hamborgarhryggnum! Frábær skipti.

Palli er veikur, hann vaknaði með bullandi hita og hausverk í gær og var rúmliggjandi allan gærdag. Sama dag bakaði ég mömmukökur og um það leyti sem ég var að setja kremið á þær gat hann skriðið fram til að smakka. Nei, nei smá ýkt, en hljómaði samt vel.

Ég fór með strákana í kakóboð heim til Eddu Selmu og Sighvats í morgun. Það var hrikalega huggulegt! Þegar við fórum út þá var hvítt hrím yfir öllu og strákarnir, þessir yngri, hrópuðu upp yfir sig; Loksins snjóaði í Danmörku!!


Hey, man eftir einu; karlinn á fyrstu hæðinni - þessi með sterka Valdarássvipinn (hann hlýtur að vera skyldur Helga heitnum frá Valdarási) talaði við Palla hérna við póstkassana og bað okkur um að láta sig frá íslensk frímerki. Við fáum náttúrlega bara 80 krónu frímerki fyrir þessi jól og allur annar póstur er bara með stimpli. Svo ef það er einhver sem nennir að klippa frímerkin af umslögunum og senda okkur þá yrði það æði!

Við óskum ykkur Gleðilegra jóla!
Helga.

laugardagur, desember 22, 2007

Ljós og mynd.... verða að ljósmynd.



Það er alveg hreint með ólíkindum hvað það er gaman að taka myndir. Sérstaklega ef maður hefur góða græju eins og við Helga vorum að fá okkur, (mamma og tengdamamma gáfu okkur reyndar slatta af henni í jóla- og afmælisgjafir og takk fyrir það elskurnar mínar) Canon 350D. Alveg hreint geðveikt góð græja. Það er hægt að skoða myndirnar sem ég var að taka nú í kvöld með því að smella á "Næturmyndir" linkinn hér til hægri. (Og svo þegar að ný bloggfærsla kemur þá verður það "hér UPPI og til hægri")

En eins og flestir sem lesa þetta blogg hérna vita, þá er ég kominn aftur til Danmerkur með tilheyrandi látum og óhljóðum. Það er fínt.

Líklega verður spilað eitthvað milli jóla og nýárs, í það minsta æft með Gauta, Jens(i) (tíhíhí) og Carlottu... ef ég man rétt...
nei ég var nú ekkert búinn að fá að vita hvað hún heitir, söngkonan og gítargyðjan sem Jens(i) er búinn að tala við um að spila jafnvel með okkur í þessu bandi.... sem er að verða til..... vonandi. Bráðum. En við köllum hana bara Carlottu..... eða kartöflu.

En munið að skoða myndirnar. Þær eru geðveikt flottar, þó svo ég segi sjálfur frá.

Ég er farinn út að taka fleiri myndir. Ég verð nefnilega að ná myndum af Sønderborg frá Als brúnni. Það er mjög erfitt sökum mikillar umferðar á daginn og hef ég því ákveðið að, gerast "hálf brotlegur" og fara NÚNA, klukkan 02:40 að nóttu til og taka myndir þegar traffíkin er sem allra minnst. Það er ekki vel liðið að það sé verið að ganga mikið á þessari brú.

Hafið það gott greyin mín og þar sem ég kem ekki til með að blogga meira fyrr en á næsta ári þá segi ég GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.


Kveðja,
Palli.

mánudagur, desember 17, 2007

Allt í gúddí á þessum vígstöðvum

Það er lítið að frétta...
  • Jólakortin hafa verið send
  • Síðasti jólapakkinn hefur verið sendur
  • ég er orðin húkkt á Journeyman
  • Survivor er búið
  • Dexter er búinn
  • allir aðrir þættir komnir í frí
  • Ég fer ekki í frí fyrr en á föstudaginn.
Annars var helgin fín. Nei, hún var bara nokkuð góð! Laugardagurinn var góður fyrir okkur öll - nema kannski síst fyrir Palla. Við fórum með strákana í SumSum land sem er svona risastórt Ævintýraland svipað og er í Kringlunni, bara miklu stærra. Þar skildum við strákana eftir hjá Evu og co og við Palli fórum niður í miðbæ Flensborgar. Byrjuðum í mollinu í jólagjafainnkaupum. Hittum þar kunningja; Viðar og Rannveigu með strákinn sinn og ákváðum að fara á kaffihús saman. Það var geðveikt huggulegt!

Eftir kaffihúsið var farið út úr mollinu í C&A og svo á göngugötuna og þá fór nú að síga á þolinmæðina hjá honum Palla mínum. Göngugatan var nefnilega PAKKFULL af fólki. Ekki fullu fólki samt. Hann var ekki alveg að fíla verslunarleiðangur með svona mörgu fólki. Auðvitað vill hann bara vera aleinn með mér! En við náðum að fara í þær tvær búðir sem við þurftum í án þess að hann missti algerlega geðheilsuna. Og ekki var hægt að sjá á honum að geðheilsan væri nokkuð tæp! Ég hefði hinsvegar getað verið þarna í amk. 4 klukkutíma í viðbót!

Í gærkveldi borðuðum við lambahrygg í boði Þórunnar, sem borðaði auðvitað með okkur og svo fengum við Garðar í heimsókn og stuttu seinna Hafdísi og Leif.

Já, bara hin fínasta helgi.

Helga

föstudagur, desember 14, 2007

Lífið er dásamlegt

... eins og hann Gústi Jak segir alltaf.

Palli kominn heim. Ég er upptekin við að leyfa honum að bera alla ábyrgð á heimilinu (lesist; ég er upptekin við að slappa af!)
Við förum öll til Flensborgar á morgun - já minnir mig á að ég verð að muna eftir öllum vegabréfunum! Matilda hennar Evu Bjarkar heldur upp á afmælið sitt þar í einhverju ævintýralandi og við foreldrarnir getum vafrað stefnulaust um miðbæinn á meðan. Ef við finnum þá bílastæði! Það er yndislegt að fara á göngugötuna í Flensborg í desember. Gatan er bókstaflega full af fólki, það eru sölubásar um allt, mjög margir þeirra eru með jólaglögg og eitthvað annað sem ilmar dásamlega. Svo er hægt að kaupa ristaðar hnetur - sem ilma líka dásamlega. Ég fer full væntinga um að finna jólaskapið þar!

Helga

mánudagur, desember 10, 2007

Bara að láta ykkur vita...

... að Palli kemur heim á morgun! Jibbííí

Hinrik fékk heim með sér tvo jólabúálfa - eða julenisse eins og þeir kallast á dönsku - yfir alla helgina. Hann tók þessu starfi sínu sem gestgjafa mjög alvarlega, lét þá fara að sofa og leyfði þeim bæði að horfa á sjónvarpið með sér og spila í PlayStation tölvunni. Þeir gerðu auðvitað einhvern ursla um nóttina - bara þá seinni. Þeir voru nefnilega svo hrikalega þreyttir fyrri nóttina að þeir sváfu út í eitt.

Í gær þurfti móðirin fullkomna að skrifa svo lýsingu á heimsókninni - á dönsku auðvitað. Ekki er hún fullkomnari en svo að hún steingleymdi bókinni í leikskólanum þannig að ég gat ekki einusinni séð hvað hinir höfðu skrifað hvað þá meira! En ég gat soðið saman eitthvað sem fyllti A4 blað - með myndum og Guði sé lof að Sigga Hreins var online og gat farið yfir þetta fyrir mig áður en Hinrik skrifaði undir og fór með þetta upp í leikskóla.

Það lá nú samt við dauðsfalli þegar Eyþór Logi - uppáhalds elstidrengurinn - sá blaðið liggja hér á borðinu og sá allar villurnar á því! Sérstaklega þegar hann sá að móðirin fullkomna hafði skrifað "i stofaen" í merkingunni "í stofunni" þá veltist hann um af hlátri! Sem betur fer hafði móðirin fullkomna líka séð villuna og leiðrétt hana áður en blaðið fór í leikskólann en samt skildi uppáhalds elstisonurinn mörg orð eftir undirstrikuð á blaðinu. Orð sem hann hefði leiðrétt.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Mikið að gerast

Síðasta helgi var ansi hreint annasöm og skemmtileg svo ekki sé meira sagt. Við byrjuðum á að fara niður í bæ að sjá kveikt á jólatrénu á föstudaginn. Strax á eftir fór Hinrik upp í leikskóla með dýnu og svefnpoka því hann ætlaði að gista þar ásamt hinum krökkunum á deildinni og kennurunum þar. Síðan var bara hyggekvöld hjá okkur Eyþóri og Marek.

Við mættum svo upp í leikskóla snemma á laugardagsmorgun til að sækja Hinrik og borða morgunmat með honum þar. Það var frábært. Hann var mjög ánægður með gistinguna enda fékk hann að sofa við hliðina á Tine leikskólakennara sem hann elskar! Hann verður allur mjúkur í framan þegar hann talar um hana. Það er svo fyndið.

Brunað var til Þýskalands á laugardaginn til að versla smá inn. Guð hvað ein stutt verslunarferð getur tekið hrikalega langan tíma!

Á sunnudaginn brunaði ég svo til Billund. Fór í morgunmat til Fanneyjar og Ágústar - þetta er farið að líta út eins og ég keyri hist og her bara til að snappa mér fríum morgunmat! En takk þið tvö, það var frábært að hitta ykkur og það var eins og mig grunaði, þetta var eiginlega allt of stuttur tími!

En ástæðan fyrir því að ég keyrði alla leið til Billund er sú að ég var að sækja mömmu og Halldóru sem ferðuðust alla leið til Sønderborgar frá Kaupmannahöfn bara til að hitta okkur í 6 klukkutíma! Það var YNDISLEGT að fá þær og þar var líka allt of stuttur tími! Marek hafði haft orð á því áður en þær komu að hann skildi bara ekkert í þeim að koma í svona stuttan tíma. Honum fannst 3 dagar vera við hæfi. En okkur fannst frábært að fá þær báðar!

Palli kemur heim eftir viku. Það eru 7 dagar, u.þ.b. 164 tímar! Húrra!