STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, janúar 29, 2008

Þorrablótið búið

Gummi
Já það gekk alveg hreint ágætlega. Fínasta blót bara. Enda góð hljómsveit sem hélt uppi fjöri á ballinu. Maturinn var líka mjög góður enda frá Norðlenska!

Ég hef bara ekki dansað eins mikið og ég gerði í örugglega einhver tvö ár! Svei mér þá. Ef það er þá ekki lengra síðan!
Það er annars hægt að skoða myndir frá blótinu með því að smella á linkinn til hægri.

Við mamma fórum svo í antík- og flóamarkaðsleiðangur á sunnudaginn. Maður endurnærðist gersamlega og veitti nú ekki af því ég var bæði dauðþreytt og öll lurkum lamin eftir þorrablótið. Ég verslaði eina styttu
sem er eins og þessi hér á myndinni. Bara aðeins minni, þ.e.a.s. mín er ca 30 sentímetrar. Mér finnst hún ferlega flott og á hún eftir að sóma sér vel í gluggakistunni inni í stofu.

Ætli maður geti sótt um antíkkaupastyrk frá ríkinu? Mig vantar svoleiðis. Sætti mig líka alveg við styrk til flóamarkaðsviðskipta.

Helga, væntanlegur styrkþegi.

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Hinrik kann að hjóla

Já, yngsti drengurinn er búinn að læra að hjóla! Við tvö löbbuðum í skólann til að sækja Marek og fórum með hjólið hans með okkur. Hinrik ætlaði að æfa sig á leiðinni. Hann er vanur hjólum á leikskólanum - tvíhjólum sem eru ekki með pedala - þannig að hann er vanur að halda jafnvægi á hjóli. Hann er bara ekki vanur að hjóla um leið og hann þarf að halda jafnvægi!
Hér er video af því hvernig gekk í byrjun.
Ég hélt fyrst í stýrið hjá honum en færði svo hendina og hélt í úlpuna hans. Ég var aðalega stressuð yfir að hann missti jafnvægið og færi út á götuna og fyrir bíl.

En þetta gekk ágætlega og fyrr en varði gat ég alveg sleppt honum. Eins og sést hér.

En hér er mikil spenna í gangi. Amma Ása er að koma í heimsókn, hún kemur bara svo seint í kvöld. Strákarnir fá allir að vera í fríi á morgun til að sjá sem mest af henni. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hún verði alveg úrvinda eftir þessa heimsókn. Smá sjens að hún endurheimti orku á sunnudaginn þegar ég fer með hana í antík- og loppumarkaðsleiðangur! Já, ég geri fastlega ráð fyrir því.

En það er ekki bara hún sem kemur því á morgun kemur næstum því heil hljómsveit til okkar! Næstum því heil, því bassaleikarinn myndarlegi býr jú hér. Ingibjörg, Gummi og Hinni úr Kashmir eru að koma og Gunnar Ægir kemur með þeim sem hljóðmaður og þau ætla að spila á þorrablóti hér á laugardagskvöld. Geðveikt gaman. Eða ég geri allavega ráð fyrir því.
Við ætlum auðvitað út að borða annað kvöld, á Mongolian Barbeque... maður fer með alla gesti þangað!
Jamm... mikið að gerast framundan... og þetta er bara rétt byrjunin!
Og á ég að trúa því að enginn vilji kaupa miðann til Danmerkur!
Helga.

mánudagur, janúar 21, 2008

Hver vill til Köben? Eða alla leið til Sönderborgar.

Hver vill kaupa miða til Kaupmannahafnar og til baka, dags. 28 febrúar - 2. mars, fyrir 16.000 kr. ?
Áhugasamir skoði bloggið hennar Hrafnhildar og hafi samband við hana.

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Staðist

Ég náði prófinu! Húrra! Hipp-hipp Húrra!

Þá er einn dagur í fríi og svo er bara að skella sér í næstu verkefni; skólann og þorrablótið hér í Sønderborg.

mánudagur, janúar 14, 2008

Mikil spenna

Já, andrúmsloftið, í bekknum mínum, einkenndist af spennu, stressi og var mjög rafmagnað í dag. Ástæðan? Jú, eitt það erfiðasta próf sem við höfum farið í fram að þessu. Í þessu námi þ.e.a.s.
6 bekkjarfélagar mínir þreyttu prófið í dag. Og hún Hrund mín var fyrst af okkur stelpunum og hún brást okkur ekki heldur náði eins og við hinar vorum nú búnar að spá. Til hamingju Hrund! Af þessum 6 hefur einn fallið, og tel ég næsta víst að hann verði sá eini sem falli af öllum 13 - nema einhver verði svo hrikalega óheppinn að fá mjög erfiða spurningu eða að hann frjósi í kynningu.

Leyfið mér þá að útskýra þetta próf fyrir ykkur: Þegar fyrirfram ákveðinn tími er kominn, er kallað á þann sem fer inn, við skulum kalla þann aðila Hrund bara til að nota eitthvað nafn. Hrund fer inn í skólastofu og dregur þar tvær spurningar; önnur úr forritunarhlutanum í námsefninu, hin er úr tæknilega hlutanum. Síðan er Hrund fylgt inn í annað herbergi þar sem hún hefur 80 mínútur til að lesa í gegnum spurningarnar, koma reglu á hugsanir sínar, reyna að panikka ekki, fá sér vatn að drekka, róa taugarnar enn meira og byrja að forrita. Spurningin úr forritunarhlutanum snýst um að leysa eitthvað vandamál með því að forrita ákveðið efni. Klára þarf 80% af forritinu. Það þarf því ekki að virka en vera mjög langt komið. Þar fyrir utan þarf maður í huganum að ákveða kynningu á efninu. (Eins og maður hafi tíma til að hugsa um eitthvað annað en forritunarhlutann!) Hrund þarf líka að vera með augun á klukkunni því hún þarf að nota amk. 10 mínútur af tímanum til að undirbúa svarið við tæknilega hlutanum. Á þessum 80 mínútum fáum við að hafa allar þær glósur sem við þurfum, bæði rafrænar og á prenti. Við höfum ekki aðgang að interneti.

Eftir þessar 80 mínútur kemur kennari og sækir Hrund sem fylgir honum inn í skólastofuna, ef það hefur ekki liðið yfir hana af stressi. Þar þarf hún að kynna forritið sitt, útskýra upp á töflu hvað hún var að reyna að gera í forritinu OG muna eftir að tala um tæknilega hlutann líka. Hún þarf að tala nánast stanslaust í 30 mínútur ef vel á að vera. Takk fyrir. Inni í skólastofunni sitja 3 kennarar og prófdómari. Tæknihlutakennarinn er mjög almennilegur og reynir virkilega að hjálpa manni ef hann mögulega getur. Annar forritunarkennarinn er nokkuð hlutlaus, en reynir líka að hjálpa manni. Hinn forritunarkennarinn er eins og... jah... manni dettur aftökusveit í hug. Hann er mjög upptekinn við að negla mann á einhverju smáatriði að það er ekki fyndið. Sem einmitt gerðist fyrir hana Hrund. Hina Hrund sko, ekki þessa í dæmisögunni.
Allavega. Eftir málblaður fer Hrund (þessi í dæmisögunni) út úr skólastofunni og bíður þar á meðan kennarar og pr.dómari ræða málin og svo er kallað aftur á hana inn til að fá að heyra einkunina sem hún fær. Einkunin er bæ ðe vei á skalanum frá -3 upp í 12! Ekki reyna að fá mig til að tjá mig um þá helvítis vitleysu!!!

Ég er að fara í umrætt próf kl. 13 á morgun, og verð búin kl. 15. Til hamingju Ég á morgun!

Helga

laugardagur, janúar 12, 2008

Hver vill PÖNNUKLESSUR?


Það er ekki þegar gott mamman á heimilinu (eða sá aðili sem hefur mestu reynsluna í pönnukökubakstri) verður veik. Það sýndi sig best þegar ég tók upp á því að steikja pönnukökur nú í dag. Helga liggur sem sagt í bælinu með hita og ég fékk þá klikkuðu hugmynd að ráðast í pönnukökugerð. Á myndinn sést árangurinn: Ekki góður. Ég tek fram að pönnukakan sem myndin sýnir er reyndar sú lakasta. Hinar heppnuðust sæmilega nema að það er full mikið "ástarbragð" af þeim; aðeins of mikið steiktar sumar. (Einfaldlega brunabragð)

Ég ætla að láta þetta gott heita af hveskonar bakstri... allavega þangað til ég verð stór.

Kveðja,
Palli.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Auglýsing fyrir þorrablót

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Óvænt tannlæknaferð

Ég er búin að vera með óþægindi í neðri góm eins og ég sé með tannrótarbólgu, síðan á fimmtudag í síðustu viku. Í gær ákvað ég að bíða ekki lengur og drífa mig til tannlæknis. Óþægindin höfðu ekkert skánað, en heldur ekkert versnað. Ég er líka þannig að ef mér er illt einhverstaðar er ég sífellt að "tékka á því". Í þessu tilfelli var ég alltaf að bíta saman tönnunum til að tékka á hvort ég finndi enn til. Það er sko ekki til að gera hlutina betri.

Mér var bent á góðan tannlækni í Þýskalandi og hringdi þangað til að panta tíma. Sagiðst vera með tannpínu sem er eins nálægt því að vera satt eins og það er nálægt því að ég geti útskýrt hvað var að mér á dönsku. Tannlæknar í Flensburg og ritarar þeirra tala flestir dönsku.
"Geturðu komið snemma í fyrramálið?" spurði ritarinn.
"Nei, því miður, það get ég ekki. En ég get komið seinni partinn og alla hina dagana" svaraði ég.
"Er kl. 11 í fyrramálið líka of snemmt?"
"Já. Ég er sko í skóla og er í tímum í fyrramálið, en ekkert hina dagana" svaraði ég.
"Hmm... geturðu komið núna?"
"NÚNA? Jah... ég bý sko í Sønderborg og það tekur mig 40 mínútur að keyra."
"Já, já það er allt í lagi. Komdu bara núna ef þú getur."
Svo ég dreif mig. Rauk út, og keyrði til Flensborgar í rigningunni. Fann tannlæknastofuna um leið, enda hafði ég prentað út kort frá Google maps. Ég þurfti auðvitað að bíða smá stund en var svo vísað inn í tannlæknastólinn þar sem ég beið aðra dágóða stund.

Svo kom tannlæknirinn. Ég sagði honum hvað væri að mér; að ég finndi til í neðri góm. Hann skoðaði tennurnar og þuldi upp eitthvað á þýsku. Það eina sem ég skildi voru tölur. Engin kunnugleg orð eins og "murder", "Derek, wor bist du" eða "Ich bin kriminalpolizei" hljómuðu í mín eyru. Orðaforði úr Derek er mín þýskukunnátta.
Áður en ég vissi af var tannlæknirinn farinn að bora í tennurnar. Það hafði brotnað fylling úr einn tönninni í haust og hann ætlaði greinilega að gera við hana. Engin deyfing. Ekki svo ég viti. Allavega ekki úr neinni sprautu. Fyrr en varði var hann búinn að fylla upp í hálfu tönnina og farinn að bora í annarri tönn hinu megin. Og takið eftir, þær voru báðar í efri góm. Fylling í þá seinni, tannsteinn hreinsaður, tennur pússaðar og búmm... 15 mínútum síðar var ég búin og tannlæknirinn farinn!

Ég steig upp úr stólnum og sagði við klinkuna "Þetta var nú fljótt!"
"Já. Við sendum þér svo reikninginn" sagði hún bara og brosti.
Ég kom mér út, leið undarlega í munninum. Fannst fyllingin í hálfu tönninni vera allt of stór. Til að tékka betur á því er ég alltaf að bíta saman jöxlunum og fyrir vikið er ég orðin helaum í fylltu tönninni og líka í þeirri sem er beint fyrir neðan hana.

Engin sýnileg tannrótarbólga sagði tannsi og mér líður eins og hann hafi bara dreyft athygli minni frá ímyndaðri bólgu.

Helga

laugardagur, janúar 05, 2008

OOHHHHH OG AAARRRRGGGGG

KONAN MÍN ER HÁLFVITI......

föstudagur, janúar 04, 2008

Ath. Þetta stæði


Þetta stæði er AÐEINS fyrir þá sem ekki nenna inn með maka sýnum að versla. Tekið fyrir utan SuperBrugsen við Klövermarken í Sönderborg. Skondið það.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

GLEÐILEGT NÝTT ÁR


Jú við hér á Ringgade 77 (2 tv) segjum við ykkur öll:
Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir það gamla.

Við skruppum í smá heimsókn til Hrundar og Steina. Þar var farið í Singstar keppni og sitthvað fleira skemmtilegt gert.
Til dæmis skotið upp sprengjueldum eins og Hinrik kallaði flugeldana.

Hafið það gott.

Kveðja,
Palli.
Posted by Picasa