STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

fimmtudagur, júní 28, 2007

Fyrsti áfanginn búinn

Jæja, þá er löngu og ströngu tímabili í skólanum lokið. Þetta var nú meiri törnin. Við Hrund vorum eins mikið og við gátum í skólanum, alveg frá morgni til kvölds um helgar en bara til rúmlega 3 virka daga, allt til að læra fyrir próf.
Ég fór svo í próf í dag. Prófið var þannig að við strákarnir tveir sem voru með mér í hóp, fórum inn og kynntum verkefnið okkar. Síðan fórum við út og eitt og eitt var kallað inn í senn. Í einstaklings hlutanum þurftum við fyrst að svara spurningum um verkefnið okkar og svo áttum við að draga tvær spurningar sem við þurftum að svara á staðnum. Ég fékk spurningu um lúppur í forritun - mjög létt spurning og alveg fáránlegt að ég gat varla svarað henni! Og svo spurningu um MS Project sem er heilt forrit sem ég þekki ágætlega svo ég brilleraði alveg á þeirri spurningu.

Niðurstaðan var svo sú að ég og annar strákurinn fengum 7, hinn strákurinn fékk 9 þannig að við stóðumst öll! Húrra fyrir okkur!

Hrund fer svo í próf á morgun - og glætan að ég geti bara setið heima og beðið eftir að fá að heyra eitthvað um það. Nei, ég fer sko í skólann og veiti henni andlegan stuðning áður en hún fer í prófið! Krossa fingur! X

sunnudagur, júní 24, 2007

Komið þið sæl.

Á þriðjudaginn var brá ég (Palli, Helga skrifar ekki allt hérna en hún les allt kellingin sú ;-) ) mér í örstuttan bíltúr frá Sønderborg til Kegbuj (skrifað Kærby en sagt Kegbuj á dönskunni) sem er ekkert langt frá Randers. Þar er hljóðver sem heitir PUK STUDIO og komu góðvinir hlustenda Rásar 2 og annara landsmanna, Sniglabandið þangað til að taka upp nokkur lög. Gaman frá því að segja er að Silli sjálfur var með þeim í för til að taka upp allt stöffið og var hann afar upptekinn á meða minni dvöl stóð þarna, sem hefur verið í ca 5 tíma. Ég ætlaði að góma hann í nokkrar mínútur og spjalla við hann en það gáfust ekki nema ca 3-4 mínútur til þess í heildina. Svo hann missti af því að spjalla við mig hehe. Nei nei. Það var ákaflega gaman að hitta hann og mér tekið með faðmlagi (sem var ekki tekið upp) þegar ég kom á staðinn.
En í stað þess að hanga og bíða eftir tækifæri til þess að geta kannski hitt á Silla þar sem hann var afar upptekinn eins og áður hefur komið fram, þá fóru ég, Skúli Gautason og Þorgils Björgvinsson, eða þeir sem eitthvað smotterí kunna í þessu stórfurðulega tungumáli dönsku, í bíltúr til næstu bæja til að versla í matinn..... eða í snarlið frekar. Nissan Almerin var óskaplega þungt haldin á leiðinni til baka, þvílíkt var verslað. Ekki verður talið upp hér hvað verslað var en þó get ég sagt ykkur að Gilsi keypti sér þessa líka fínustu Clox skó en þeir eru eftirlíking að Crocs. Hér er Crocs heimasíða. Hann var mikið að spá í að fá sér SVONA BLEIKA skó en hætti snögglega við það þegar hann fann loksins svarta í sínu númeri. Reyndar skil ég ekkert í honum að láta ekki undan þrýstingnum sem á hann var beitt af okkur Skúla, en við stóðum yfir honum allan tíman sem hann var að skoða skóna og töldum við honum trú um að, það að vera í hvítum stuttermabol, svörtum gallabuxum, svörtum sokkum og svo bleikum Clox skóm, það væri sko ekta Þorgils. En hann lét ekki undan þessum þrýstingi heldur fékk sér svörtu skóna. Furðulegt það..... eða ekki :)
Hér á myndunum sést vinnuaðstaðan hans Silla annarsvegar og hins vegar Björgvin að skoða myndir í tölvunni sinni með þungt hugsi Þorgils sér við hlið og svo partar af löppunum á Pálma en eins og flestir vita er Pálmi AFAR feiminn maður og lætur ekki mikið sjást í sig. Eins sést kaffibolli þarna á borðinu líka og nokkur blöð.
Ég setti nokkrar myndir inn á Vefalbumið og hér sjást þær myndir.

Kveðja,
Palli.

sunnudagur, júní 17, 2007

Kominn tími á blogg!

Já, það er búið að vera mikið að gera síðan síðast. Fyrst ber að nefna að ástkær vinkona mín, elskulegur maður hennar og börn eru í heimsókn hjá okkur. Þau komu til landsins á miðvikudaginn en til okkar á föstudagskvöld. Því miður er búið að rigna síðan þau komu svo það er mjög takmarkað sem við höfum getað gert. Erum þó búin að fara í skóginn og finna froska (...já þið eruð farin að kannast til Túristarútínuna okkar!), keyra um Als eyjuna, kaupa jarðaber, sjá ströndina úr fjarska, sjá eldingu og heyra þrumur. Á morgun verður farið til Flensborgar í verslunarleiðangur. Og svo bara eitthvað. Já og ekki má gleyma að við Solla erum búnar að sötra hvítvín. Já, þið lásuð rétt; HVÍTVÍN. Bara að breyta aðeins um.

Við strákarnir fórum ásamt Kristínu að sjá Sirkus Arena á miðvikudagskvöldið. Ég tók engar myndir því þær takast svo illa nema þegar strákarnir FÓRU Á FÍLSBAK. Það fannst þeim geðveikt skemmtilegt!

Hey, ég gleymdi að segja að við Solla fórum á loppumarkað í gær! Ó mæ god, hvernig gat ég gleymt því, ég sem hef ekki farið á loppu í margar vikur! Og gerðum við aldeilis góð kaup. Jahá. Solla keypti sér forláta hillu og ég keypti mér tvo stóla til að setja út á svalir... afsakið, í koníaksstofuna okkar. Svo keypti ég lítinn koll og fullt af smádóti. Sumt af því verður sent til hennar Unnar vinkonu. Já, svo voru þarna eldgamlir, skeggsíðir karlar sem sötruðu bjór og renndu til okkar hýru auga, sem dofnaði aldeilis þegar eftir að við svöruðum þeim því að við værum ekki frá Færeyjum heldur frá Íslandi. Var engu líkara en þeir hefðu átt einhverja leynda drauma um færeyskar konur sem íslenskar gætu aldrei staðið undir. Þetta er eitt af því í lífinu sem við komust aldrei að.

Kíkið á myndirnar. Ef þið viljið. Ég er ekkert að neyða ykkur. Þið ráðið bara. Og kommentið. Hvort sem þið viljið eður ei, kommentið samt.

miðvikudagur, júní 13, 2007

Loksing búin.... í bili!

Já, erfiðisvinna og fjarverur frá heimili undanfarna daga eru nú að baki því fyrir fimm mínútum síðan (þegar þetta er pikkað) skiluðum við verkefninu okkar. Síðustu þrjá daga höfum við unnið allan daginn. Sunnudag og mánudag til kl. 22 en í gær til kl. 20 en þá vorum við búin. Sunnudagurinn var hreint helvíti því þá var yfir 30 gráðu hiti og blakti ekki hár á höfði svo það loftaði ekkert út úr stofunni.
Allavega. Hér eru nokkrar myndir af forritinu okkar:


Ég veit ekki hversu vel þær sjást, en það kemur bara í ljós.

Nú, það sem er þá á dagskrá á næstunni er að við bekkurinn ætlum að grilla á eftir, svo er önnur grillveisla í leikskólanum kl. 4 og því næst vorum við að vonast til að komast í sirkus í kvöld. Svaka bissí bara. Morgundagurinn verður notaður í "afslöppun", bara (@#!!*@) heimilisstörf og svona og svo koma Solla, Gústi og börn í heimsókn á föstudaginn! Jibbí! Þá verður sko gaman.

bless í bili.

laugardagur, júní 09, 2007

Smá ferðalag

Já, ferðalagið til Kaupmannahafnar er lokið. Við mættum beint í Sendiráð Íslands á hádegi á föstudag og vorum það í ca hálftíma. Eftir það vildi Eyþór ólmur fara í dótabúðina (BR) sem er á Strikinu en við fórum þangað fyrir tveimur árum síðan þegar við komum hingað til að skoða. Strákarnir voru sko alveg að fíla þessa dótabúð og fengu að kaupa sér lítið dót hver. Það var mjög fyndið á Strikinu var götulistamaður sem var eins og stytta með dós undir peninga við fæturna. Marek þorði ekki að gefa honum pening en Hinrik fór alveg óhræddur og gaf honum pening. Um leið og hann lét krónuna detta í dósina hreyfði maðurinn sig og Hinrik greyið brá svo rosalega að ég hélt hann færi að gráta. En honum fannst þetta svo fyndið að hann vildi gefa manninum aftur og aftur. Eyþór gaf honum líka svo á endanum var maðurinn örugglega orðinn ansi ríkur! Marek vildi ekkert koma nálægt honum!

Því næst fórum við yfir Eyrarsundsbrúna og í heimsókn til Birgittu Sievert í Malmö. Það var geðveikt gaman, það er alltaf eins og maður hafi bara hitt hana í gær. Við náðum að stoppa þar í tæplega 3 tíma en þá var brunað yfir Sjáland... yfir Fjón og yfir á Jótland, beygt norðureftir og keyrt norður nálægt Grenå en þar voru Skúli, Ester og börn og tengdabarn með sumarbústað á leigu. Við vorum ekki komin þangað fyrr en eftir kl. 1 og kjöftuðum til kl. 3! Það var líka alveg frábært að hitta þau.
Við komum svo heim aftur í kvöld.

Það er búið að vera næstum því óbærilega heitt í dag og alveg hrikalegt að ferðast í svona veðri þegar maður er ekki með loftkælingu í bílnum. Hitinn fór upp í ca 30 stig hjá Ester og Skúla í dag. Eyþór greyið brann aftan á hálsinum, þrátt fyrir að hafa verið með sólarvörn nr 15 smurða ríkulega á hann. Ég er bara að vera geðveikt brún. Því til sönnunnar set ég hér inn myndir.
Ég er líka búin að setja inn fullt af myndum frá síðustu dögum.

Og hér kemur bloggfærsla sérstaklega handa henni móðursystur minni frá Palla:
Kæra Gunna Jónsdóttir mín. Skúli sagði mér í dag að þú saknir þess að sjá bloggin mín.
Ég ætla að bregðast ofurskjótt við (svona eins og merin sem var úti í haga með folaldið sitt en folald þetta var einnig ofurskjótt..... hvílík litasamsetning) og henda hérna einu bloggi til þín alveg hreint í hvelli.
Ég er reyndar enn að pæla í þvi hvað ég gæti sagt þér...... mér dettur ekkert í hug ennþá sko..... 27,256 sekúndum síðar:
Jú, hér kemur það. Við fórum sem sagt í þetta ferðalag. Aksturinn var upp á 1085 km frá því klukkan 08:00 á föstudagsmorgni og þar til klukkan 19:00 nú í kvöld (einum og 1/2 sólarhring síðar). Bíllinn okkar eyddi ekki nema 7,8 lítrum á hverja 100 km sem hann rúllaði sem þýðir að við höfum mengað andrúmsloftið með ca 78 lítrum af bensíni.
Ég settist inn í Citroen bílinn sem Skúli og Ester tóku á leigu og ég held að þú bráðnir ef ég segi þér allar tölulegar staðreyndir um hann. Það geta þau gert og ég hef þetta gott í bili.
Hafðu það gott og takk fyrir að nenna að lesa bloggin mín.
Þinn "bloggvinur",
Palli.

Smá hérna í viðbót: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=2837

sunnudagur, júní 03, 2007

Veðruhorfur næstu daga...


Komið þið sæl.
Hér eru veðurhorfur næstu daga.
Gert er ráð fyrir (ENGUM) stormi og (ENGRI) snjókomu næstu viku. Hiti verður víða á bilinu 20-26°c yfir dagin en nær frostmarki (eða um 13-15°c) að næturlagi.

Helga er í þessum töluðu orðum í skólanum að vinna verkefnið fyrir skólann. Það felst í því að búa til forrit sem finnur alla hriðjuverkamenn og helíumblöðrusala á svipstundu hvar sem þeir eru staddur á hnettinum sé maður með GSM síma sem styður þriðju kynslóðar farsímakerfin. Einnig er hægt að elda mat með þessu forriti án þess að kunna eitthvað í eldamennsku.... sem kæmis sér AFAR VEL fyrir mig :)

Ætli við trítlum ekki niður á ströndina í dag til þess að vita hvort að Flensborgarfjörðurinn sé nokkuð að þorna upp. Og ef ég þekki Hinrik og Marek rétt þá vilja þeir mjög trúlega vaða í sjónum.

Myndin er fengin "að láni" hjá DMI (dönsku veðursíðunni).


Hér er eitt "nýyrði" fundið upp af Guðmundi Helgasyni í gær: Hnattræn-viðskipta-vélvirkjun. Ansi hreint skemmtileg orðasamsetning þarna á ferð og vil ég þakka Munda mínum fyrir snögga og ánægjulega þýðingu á svipstundu. Enska "orðið" sem þetta íslenska springur af er: Global-Business-Engineer.

Kveðja,
Palli.

föstudagur, júní 01, 2007

Örstutt blogg hérna. Ég er sko í skólanum að vinna í verkefninu okkar - nú er bara ein og hálf vika eftir og ekki laust við að taugarnar eru aðeins farnar að spennast.

Jette bekkjarsystir mín bjó til vefsíðu um þetta nám, sem þið getið lesið ef þið hafið áhuga.

Við þurfum að fara til Kaupmannahafnar í næstu viku. Við ætluðum á mánudaginn en svo kom það upp í morgun að Palli kemst ekki þá og því verðum við að fresta því þangað til að föstudaginn. Ástæða ferðarinn er að fá ný vegabréf bæði fyrir hann og fyrir Eyþór. Palli má ekki fara einn með Eyþóri því ég VERÐ víst að koma líka. Það þýðir þá líka að hinir drengirnir tveir neyðast til að koma með líka. En það verður allt í lagi því Eva bauð okkur ferðageislaspilarann að láni! Geðveikt! Við Eyþór urðum reyndar frekar svekkt yfir að þurfa að fara þennan dag því þá missum við af tónleikum sinfóníuhljómsveitarinnar sem við ætluðum á. Og líka af grillveislu í grunnskólanum! En vegabréfin eru víst mikilvægari.

Nú en fyrst að við verðum að fara í borgarferð til Köben þá fannst okkur alveg tilvalið að skreppa til útlanda og keyra yfir sundið yfir til Malmö að hitta BIRGITTU SIEVERT! Við höfum ekki séð hana í 2 ár svo það verður geggjað að hitta hana aftur. Ég vona bara að hún geti fengið frí úr vinnunni þennan dag!
Nú og fyrst að við verðum komin yfir til Svíþjóðar þá er eins gott að versla eitthvað af Cheeriosi! Þ.e.a.s. ef það er framleitt af General Mills en ekki af Nestlé - veit einhver um það?