STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, september 23, 2008

Alsíska

Nei, þetta er ekki alsírska sem gæti verið töluð í Alsír... eins og ég hélt fyrst!! Nei, ég ætla að tala um alsíska sem er töluð á eyjunni Als... sem Sønderborg liggur á, en alsíska er afbrigði af suðurjósku. Þetta er gersamlega óskiljanlegt mál... eða svona næstum því. Hér er dæmi um setningu:

Suðurjóska: Æ ka æe glass uhen at det go mæ naue.
Danska: Jeg kan spise glas, det gør ikke ondt på mig.

Og annað dæmi, tekið af Æ Synnejysk Forening: Hvis vi i æ fremti ska blyw væ mæ å kold voss synnejyder æ vi nøj tæ å bevar voss synnejysk sproch.

Og svo kemur eitt erfitt dæmi:

A æ u o æ ø i æ å.

Hver veit hvað þetta þýðir. Ef þið vitið það... eða viljið giska, skrifið þá í kommentin.

Skemmtilegt þetta!
Helga á Als

miðvikudagur, september 17, 2008

Pappírsvinna í vinnunni

Ég ákvað að blogga í vinnunni! Já, það er bara eiginlega ekkert að gera hjá okkur, þó svo að það sé nóg að gera! Heheheh. Málið er að við þurfum að fara eftir ákveðnum reglum með hvernig við vinnum hlutina, samningar þurfa að vera samþykktir áður en við höldum áfram með að plana forritið og svoleiðis og til þess að fá samning samþykktan þarf að kalla til fund með amk heils dags fyrirvara (og senda samninginn með sem viðhengi þannig að hann þarf líka að vera tilbúinn). Á fundinn mæta 7 manns; við þrjú sem vinnum að verkefninu, 2 leiðbeinendur okkar hér í fyrirtækinu, einn kerfisfræðingur og svo yfirmaðurinn okkar. Það er ansi hreint erfitt að ná öllum saman á sama tíma og nú s.s. lentum við í því að það er enginn laus tími hjá þeim öllum saman fyrr en á mánudag. Þannig að við getum í rauninni ekki byrjað að forrita - þó svo að við séum búin að svindla á því og erum aðeins byrjuð.

En við getum alltaf nýtt tímann til að skrifa ritgerðina.

Allavega. Ég er s.s. að vinna í Alsion þar sem háskólinn er staðsettur, fullt af fyrirtækjum, synfóníuhljómsveitin hefur aðsetur og tónleikasalurinn er staðsettur hér. Það er einmitt opið hús þar í dag á milli kl. 14 og 15 og mun symfóníuhljómsvietin vera að æfa fyrir tónleika sem verða annað kvöld.
Ég ætla sko að mæta á eftir milli 2 og 3!

Palli er búinn að panta flug fyrir okkur heim... við komum 11. desember, seint um kvöld. Þá er það ákveðið og ekki aftur snúið! Fólk er líka farið að koma til að skoða íbúðina! Það birtist ein kona í gær, alveg án þess að hringja á undan sér! Ég var ekki ánægð með það, en ég var ekki heima heldur Eyþór.

Talandi um Eyþór, hann er að verða svo hrikalega góður í eldhúsinu að það er alveg frábært. Á sunnudaginn bakaði hann pönnukökur, og að sjálfsögðu er hann ekkert að hanga yfir einni pönnu heldur notaði tvær!

Kannski maður ætti að reyna að gera eitthvað af viti hér!

Helga.

sunnudagur, september 14, 2008

Ákvörðun tekin

Jæja, þá er búið að taka ákvörðun. Að minsta kosti þar til annað verður ákveðið. Ákvörðunin er sú að við ætlum að flytja á Hvammstanga! Og hananú. Nú er bara aðalmálið að finna húsnæði. Veit einhver um eitthvað stórt hús sem kostar lítið handa huggulegri fjölskyldu? Helst með bílskúr. Myndir af bílskúrnum vel þegnar.

Ég er annars ekki búin að vera beint í bloggstuði undanfarið. Ég fékk nefnilega að vita það í síðustu viku að samkvæmt reglum LÍN þá á ég ekki rétt á námslánum fyrir síðustu önnina því hún er svo stutt, er í rauninni bara hálf og þar af leiðandi bara 15 ECTS einingar á henni en reglan segir að maður þurfi að taka 20 ECTS einingar að lágmarki. Og ekkert tillit tekið til þess að önnin er hálf en ekki heil, og að námið sé bara svona uppbyggt svona í skólanum.

Ég var s.s. búin að fá að heyra það frá ráðgjöfum LÍN að ég ætti ekki rétt á þessu, svo ég skrifaði bréf til stjórnarinnar sem var svo tekið fyrir á stjórnarfundi og í kjölfarið fékk ég sama svar og áður; að ég yrði að bæta við mig einingum!

Ég hafði því samband við SÍNE sem er Samband Íslenskra Námsmanna Erlendis og sú ágæta kona sem vinnur þar bað mig um að senda sér öll þau gögn sem ég hefði frá LÍN en hún mun sitja sem fulltrúi námsmanna á vafamálafundi sem verður haldinn hjá LÍN í næstu viku. EF þeir telja mitt mál vera vafamál þá skilst mér að það verði tekið upp á stjórnarfundi seinna í haust, nú og ef ekki... já eða það teljist ekki vera vafamál, þá get ég sent það áfram til Málskotsnefndar.

Það sem mér finnst asnalegast er þetta;
1. ég er að klára og má eiginlega ekkert við því að vera að hafa áhyggjur af þessu núna
2. ég er ekki að biðja um ölmusu eða styrk heldur lán sem ég kem til með að borga til baka

En svona er þetta bara! Ég er nú bara að grenja yfir nokkrum hundraðþúsundköllum og gæti alveg reddað þessu með bankaláni. Ég er ekki að tala um tæplega 10 milljónir eins og hún Ragna mamma Ellu Dísar skuldar vegna veikinda Ellu og hún fær ekki niðurgreiðslur frá TR. En það er hægt að lesa um það allt inni á blogginu þeirra.

Annars var ég að koma heim frá spilakvöldi heima hjá henni Dísu þar sem við vorum 6 skemmtilegar stelpur að spila hin ýmsu spil! Hrikalega skemmtilegt!

Er farin að sofa...
Góða nótt
Helga

p.s. kleinubakstur tókst með afburðum vel og seldist allt upp - ég kom heim með 5 stykki sem urðu afgangs. Leikurinn verður endurtekinn næsta laugardag.

miðvikudagur, september 10, 2008

Kleinur til sölu... kosta eina.. já nei.

 
Nú býðst alveg einstakt tækifæri til að kaupa nýsteiktar kleinur. Við Hrund erum að safna fyrir Írlandsferð í október og ætlum því að steikja alveg geðveikt mikið af kleinum á laugardaginn þann 13. september.

Fólk er hvatt til að láta þetta tækifæri ekki fram hjá sér fara og panta nokkra poka. Pokinn inniheldur ca 20 stykki kleinur (um 500 gr) og kostar 50 kr stykkið... sko pokastykkið, ekki kleinustykki!
Hringið í mig í síma 41283693 eða Hrund í síma 26793431 og pantið.
Posted by Picasa