Ég er B-manneskja. Ég vil helst sofa út á morgnana - þó svo það sé ekkert vandamál að vakna snemma ef ég þarf þess. En ég er lengi að sofna á kvöldin. Og þó ég sé drulluþreytt allan daginn og hugsa mér að fara snemma í háttinn þá bara glaðvakna ég um 10-leytið og vaki frameftir.
Kvöldið í kvöld er eitt svoleiðis. Venjulega, þegar ég get ekki sofnað þá sný ég mér við í rúminu, þ.e. set koddann þar sem fæturnir eru og öfugt. Það svínvirkar.
En í kvöld, áður en ég ákvað að snúa mér við fór ég að hugsa um hversu óskaplega heppin ég sé að vera lifandi. Ekki bara svona allmennt séð heldur aðalega vegna þess að ég ólst upp á svo hættulegum tíma að það er eiginlega alveg undravert að ég sé enn lifandi.
Ég ólst upp í sveit - það eitt og sér er nú bara stórhættulegt. Þar var hægt að valsa um frjáls eins og fuglinn. Við stífluðum bæjarlækinn og syntum í honum, man ekki einu sinni hvort við systurnar vorum yfir höfuð orðnar syntar. Við steiktum kartöflur og gorkúlur yfir opnum eldi - þegar verið var að brenna rusli - og vegna einhvers kraftaverks hlutum við aldrei brunasár. Ég lærði að slá með orfi og ljá. Enn með alla upprunalega útlimi áfasta. Keyrði traktor frá ca 7 ára aldri og lærði á Land Roverinn 11 ára. Fór helst ekkert úr honum eftir það. Maður fór á hestbak berbak og jafnvel beislislaust. Ég valsaði bæði niður í fjöru og upp í fjall þar sem við tíndum ber og bestu berin v0ru alltaf á einhverri mjórri syllu í berginu svokallaða fyrir ofan bæinn heima. Til að komast í sund þurfti að hjóla um 8 kílómetra yfir á Laugarbakka og það gerði maður án þess að hugsa sig tvisvar um. Hjálmlaus. Oft hjólaði ég niður á Hvammstanga og þá var skemmtilegast að leika sér niður á bryggju. Þar var stundum stolinn pínulítill plast árabátur og siglt í höfninni. Björgunarvestislaus. Svo maður tali ekki um það sem maður át; kókópuffs og franskbrauð. Trix sem var svo stútfullt af litarefnum að það var því miður bannað á Íslandi. Ávextirnir sem maður borðaði töldu aðeins fimm tegundir: epli, appelsínur, banana, perur og svo mandarínur á jólunum. Grænmetið var sko langt frá því að dekka 1/3 af disknum - jú kannski ef maður hefði safnað saman yfir nokkrar vikur. Þegar pabbi ræktaði svo rófur át maður þær beint upp úr jörðinni, rétt að skola aðeins í næsta skurði - ef eitthvað vatn var að finna. Maður smakkaði drullumall og lét ánamaðka á tunguna á sér væri maður manaður í það.
Svo fær maður næstum hjartaáfall ef maður uppgötvar að einhver sonurinn hefur gleymt að spenna bílbeltið og maður hefur þegar keyrt 100 metra. Eða að þeir tali um að fara út að hjóla - aleinir - og það með hjálm. Ekki má klifra - maður gæti dottið. Alls ekki leika sé að eldi - maður gæti brennt sig. Ekki má hlaupa yfir götu - gæti orðið undir bíl. Hvað má?
Er maður orðinn of taugaveiklaður gagnvart sínum eigin börnum? Það er spurning.
Ég er farin aftur upp í rúm.
Góða nótt.
Helga - þakklát fyrir lífið.