STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

fimmtudagur, júní 26, 2008

Örblogg

  • Náði prófinu
  • Fékk 10
  • Ahhhhh......


..... Og þá hefst hið endalausa h*#&%$#s verkefni að þrífa íbúðina.

þriðjudagur, júní 24, 2008

Ég er sprelllifandi

Ég er B-manneskja. Ég vil helst sofa út á morgnana - þó svo það sé ekkert vandamál að vakna snemma ef ég þarf þess. En ég er lengi að sofna á kvöldin. Og þó ég sé drulluþreytt allan daginn og hugsa mér að fara snemma í háttinn þá bara glaðvakna ég um 10-leytið og vaki frameftir.

Kvöldið í kvöld er eitt svoleiðis. Venjulega, þegar ég get ekki sofnað þá sný ég mér við í rúminu, þ.e. set koddann þar sem fæturnir eru og öfugt. Það svínvirkar.

En í kvöld, áður en ég ákvað að snúa mér við fór ég að hugsa um hversu óskaplega heppin ég sé að vera lifandi. Ekki bara svona allmennt séð heldur aðalega vegna þess að ég ólst upp á svo hættulegum tíma að það er eiginlega alveg undravert að ég sé enn lifandi.

Ég ólst upp í sveit - það eitt og sér er nú bara stórhættulegt. Þar var hægt að valsa um frjáls eins og fuglinn. Við stífluðum bæjarlækinn og syntum í honum, man ekki einu sinni hvort við systurnar vorum yfir höfuð orðnar syntar. Við steiktum kartöflur og gorkúlur yfir opnum eldi - þegar verið var að brenna rusli - og vegna einhvers kraftaverks hlutum við aldrei brunasár. Ég lærði að slá með orfi og ljá. Enn með alla upprunalega útlimi áfasta. Keyrði traktor frá ca 7 ára aldri og lærði á Land Roverinn 11 ára. Fór helst ekkert úr honum eftir það. Maður fór á hestbak berbak og jafnvel beislislaust. Ég valsaði bæði niður í fjöru og upp í fjall þar sem við tíndum ber og bestu berin v0ru alltaf á einhverri mjórri syllu í berginu svokallaða fyrir ofan bæinn heima. Til að komast í sund þurfti að hjóla um 8 kílómetra yfir á Laugarbakka og það gerði maður án þess að hugsa sig tvisvar um. Hjálmlaus. Oft hjólaði ég niður á Hvammstanga og þá var skemmtilegast að leika sér niður á bryggju. Þar var stundum stolinn pínulítill plast árabátur og siglt í höfninni. Björgunarvestislaus. Svo maður tali ekki um það sem maður át; kókópuffs og franskbrauð. Trix sem var svo stútfullt af litarefnum að það var því miður bannað á Íslandi. Ávextirnir sem maður borðaði töldu aðeins fimm tegundir: epli, appelsínur, banana, perur og svo mandarínur á jólunum. Grænmetið var sko langt frá því að dekka 1/3 af disknum - jú kannski ef maður hefði safnað saman yfir nokkrar vikur. Þegar pabbi ræktaði svo rófur át maður þær beint upp úr jörðinni, rétt að skola aðeins í næsta skurði - ef eitthvað vatn var að finna. Maður smakkaði drullumall og lét ánamaðka á tunguna á sér væri maður manaður í það.

Svo fær maður næstum hjartaáfall ef maður uppgötvar að einhver sonurinn hefur gleymt að spenna bílbeltið og maður hefur þegar keyrt 100 metra. Eða að þeir tali um að fara út að hjóla - aleinir - og það með hjálm. Ekki má klifra - maður gæti dottið. Alls ekki leika sé að eldi - maður gæti brennt sig. Ekki má hlaupa yfir götu - gæti orðið undir bíl. Hvað má?

Er maður orðinn of taugaveiklaður gagnvart sínum eigin börnum? Það er spurning.

Ég er farin aftur upp í rúm.
Góða nótt.
Helga - þakklát fyrir lífið.

sunnudagur, júní 15, 2008

Mikið að gera og samt mikil leti í gangi

Við eigum að skila síðasta verkefninu okkar á þessarri önn á þriðjudaginn, sjálfan þjóðhátíðardaginn! Þeim er sko ekkert heilagt þessum Dönum! Djók!
Þetta verkefni sem við (með "við" á ég við mig sjálfa, Hrund og Janus) erum að gera er hvorki erfitt í gerð né flókið - svona miðað við undanfarin verkefni. Það er engin forritun. Þetta er "bara" ein ritgerð um kerfisþróun (System development). En það er alveg ótrúlegt hvað þessi ritgerð er seingerð! Hún á að vera að minsta kosti 10 blaðsíður. Usss.... hugsuðum við, við verðum að minsta kosti með 25 - 30 blaðsíður. En málið er að leturstærðin á að vera 10 og bara eitt línubil! Þá vandast málin og við erum nú að reyna að teygja ritgerðina upp í heilar 10 blaðsíður!
Jamm þetta hlýtur að hafast. Ég bara nenni alls ekki að gera neitt meira í bili.

En það er annars búið að vera frekar mikið að gera í öðru líka og ég er búin að taka fullt af myndum af því. Á föstudaginn var siglingakeppni hér í Sønderborg og skólinn okkar var með eitt lið. Þau lentu í 3. sæti sem er alveg frábær árangur miðað við að þau höfðu tæplega klukkutíma til að æfa sig nokkrum kvöldum fyrir keppnina.

Á laugardagsmorgun fór Eyþór í "Rollespil" eða hlutverkaleik. Þetta er haldið einu sinni í mánuði allt árið. Ég tók auðvitað nokkrar myndir þar.

Strax á eftir var 17. júní haldinn hátíðlegur hér í Sønderborg. Það var bara rosalega fínt, grillaðar pylsur, íslenskt nammi og góður félagsskapur.

Jæja, verð endilega að fara að reyna að skrifa eitthvað! Takk fyrir allar skemmtilegu mismæli-sögurnar í fyrri færslu.

Helga

mánudagur, júní 09, 2008

Mismæli

Ég elska mismæli. Og þegar orðin koma vitlaust út úr manni eins og þegar Ninna spurði mig "Er stóllinn ekki of kjór?" Hahahahaha. Og þegar ég gat ekki kallað systkini Þráins réttu nöfnum og sagði alltaf Steggi og Bella. (Heimasíða Stellu er annars HÉR).
Mér finnst alveg merkilegt að þetta skuli yfirhöfuð vera hægt.

Í dag mismælti ég mig. Ansi skemmtilega líka. Mamma hafði farið í aðgerð á fingri og ég hringdi í hana til að heyra aðeins í hvernig hefði gengið. Rétt áður en hún svaraði fór ég að hugsa um hvort ég ætti að segja "aðgerð" eða "uppskurð" en í staðinn sagði ég: "Jæja, ertu búin í þessari uppgerð?" Hahahahaha

Hefur þú mismælt þig skemmtilega? Endilega segðu frá því í kommentunum.

Helga.

laugardagur, júní 07, 2008

Grill og meira grill


Við fórum í heimsókn til Sólrúnar og Garðars í dag (laugardag) til að grilla með þeim. Í boði var argentískt nautakjöt, danskt svínakjöt, danskir grillpinnar með beikoni, danskur laukur (grillaður auðvitað) grillaðir sveppir og grillaðar kartöflur. Alveg dásamlega gott mest allt.
Og þar áður skiptum við Garðar um bremsudiska og klossa að framan undir bílnum okkar.
Takk fyrir aðstoðina og takk fyrir matinn.

Kveðja,
Palli.

sunnudagur, júní 01, 2008

Fer Halldóra til Peking?

Ég var bara að lesa það að íslenska landsliðið í handbolta fer á Ólympíuleikana í Peking í Kína í sumar og það fyrsta sem mér datt í hug var hvort Halldóra; kær frænka mín, skyldi ætla að elta liðið til Peking! Það næsta sem mér datt í hug var hversu hrikalega gaman það hefði verið að vera á leiknum á móti Svíum! Jii, hvað það hefði verið gaman - næstum því eins og Eurovision!

Ég er annars á kafi í skólanum. Við eigum að skila verkefni á hádegi á morgun og kynna það svo eftir hádegið. Við erum ekki aaaaallveg búin - alltaf þetta smotterí eftir- lesa yfir og leiðrétta og svona. Prentum svo út á morgun og skilum í tíma! Ekki spurning.

Svo seinnipartinn á morgun ætlum við í bekknum að halda strandapartý með grilli og tilheyrandi. Það verður geðveikt gaman.

Á þriðjudag fáum við svo næsta verkefni í hendur, líka svona prófverkefni nema þetta er öðruvísi en hitt að það verður alvöru próf í þessu, þ.e. við drögum spurningu í þessu efni og eigum að svara munnlega. Gaman, gaman.

Ekki nóg með þetta, heldur ætlum við að reyna að hitta á Guðrúnu og Gústa, hennar ektamann, en þau verða á ferðinni á þriðjudaginn. Ekki beint á ferðinni... eða jú, á ferðinni, bara ekki beint í nágrenninu. En því verður reddað. Annað hvort förum við og hittum þau hjá Kolding eða einhverstaðar eða þá að þau koma niðureftir til okkar í kaffi og kökur. Kemur í ljós.

En svona er nú lífið í Danmörku; heitt og rakt með tilheyrandi moskítóflugudrápi.
Helga