STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

föstudagur, október 31, 2008

Hljóðfæri

Einu sinni, þegar ég átti heima í Móbergi komu nokkar manneskjur í "heimsókn" í partý. Í þessu eina partýi í Móbergi... nei, bíddu... það varð svo annað seinna. Þetta var það fyrra. Allavega, í þessu fyrra partýi í Móbergi kom alveg hreint ágætis kona. Ég held allavega að hún sé og hafi verið alveg ágæt. Þekki hana svosem ekki mikið. En hún sem sagt kom þarna ásamt einhverju fleiru fólki sem eru eiginlega svona "nóbodíar" í þessarri sögu. Þegar eitthvað hafði liðið á kvöldið, er þessi ágæta kona komin í stuð til að syngja, lítur allt í kringum sig og spyr svona skælbrosandi:
"Hérna, áttu píanó?"
"Neibb" sagði ég. Ónefndakonan varð mjög hissa, hristi það svo af sér og spurði
"En gítar?"
"Nei" sagði ég.
"Ha? En bara blokkflautu?"
"Ehh.. nei" sagði ég.
"HA???? Áttu engin hljóðfæri???" Og konan ágæta trúði ekki sínum eigin eyrum!
Ég varð sármóðguð og neitaði. Hver þarf svosem hljóðfæri? Það eru greinilega ekki allir alveg jafn snobbaðir að þurfa að eiga fullt hús af hljóðfærum! Ha!
Nei, partýinu lauk ekki löngu seinna. Enda ekkert hægt að syngja!

Í nokkur ár var ég hálf móðguð og pínu hneiksluð! En NÚ má þessi alveghreintágætiskona koma í heimsókn því við eigum:
1 blokkflautu
1 írska flautu
1 skrítna flautu
1 fuglaflautu
1 frosk
1 balalæku
1 úkulele
1 írska trommu
1 píanó
2 afríkanskar trommur
2 gítarar
3 bassar
3 fiðlur
sem sagt 19 hljóðfæri!

Komi hún bara! VERTU BARA VELKOMIN!

p.s. Steingleymdi alveg að Palli á líka trompet í geymslu hjá Hjálmari og einhverstaðar á ég ónýtt orgel. 21 Hljóðfæri... geri aðrir betur.

pp.s. Ég er ekki manísk... ég endurtek: EKKI!! Nei! Ég er ekki manísk!

þriðjudagur, október 28, 2008

Vegasalt eða jójó

Ég er komin heim frá Írlandi. Frábært ferð en í næsta skólaferðalagi myndi ég vilja hafa fleiri stelpur með! Við vorum bara tvær, hin stelpan er úr hinum bekknum og ég þekki hana ekkert geðveikt mikið. Hún var auðvitað mest með sínum bekkjarbræðrum og ég með mínum. Þ.e.a.s. þegar báðir bekkirnir voru ekki saman. Mínir bekkjabræður eru allir yngri en 25 ára og tala mest um tölvuleiki, stelpur, bíla, drykkju, stelpur og drykkju! Sem er alveg ágætt í eitt kvöld! Sem betur fer tókst mér að fá þá til að spila eitt kvöldið (og þar með taka pásu í stelpu og drykkjutali) og að fara í verslunarleiðangur með mér. Ég reyndar gerði ekkert í því að fá þá með mér í búðir, en á síðasta daginn var talað um að fara í útsýnisrúnt fyrir þá sem vildu. Ég sagði kennurunum að ég ætlaði ekki með, ég þyrfti nauðsynlega að gera verðkönnun í Dublin enda komin með fráhvarfseinkenni með allar þessar búðir í kringum mig og ég hafði ekki kannað neina! Þegar allri svo stóðu upp til að fara komu 3 bekkjarbræður til mín og sögðust ætla með mér að versla! Jess... ég þurfti því ekki að fara ein.

Á þriðjudeginum fór ég að heimsækja mömmu hans Gerards pennavinar míns til níu ára! Sjitt hvað tíminn líður hratt! Systir hans var þar líka með dóttur sinni og þær keyrðu mig út um allt nágrennið til að sýna mér allt það helsta. Pössuðu að sýna mér alla merkilegustu staðina "því annars myndi Gerard drepa þær" eins og þær sögðu og hlógu.

Þetta var því í alla staði hin fínasta ferð - og já, við heimsóttum ekki eitt einasta tölvufyrirtæki því þau höfðu víst ekki svarað fyrirspurnum frá þeim sem átti að sjá um það. Það var bara ágætt! Guinness og Jameson verksmiðjurnar voru líka alveg fræðandi! Myndir eru hér.

Eftir að ég kom heim frá Írlandi erum við búin að vera eins og jójó - eða á vegasalti með að ákveða hvort við eigum að flytja heim eða ekki! Atvinnuástand er víst ekki upp á marga fiska þessa dagana á Íslandi og því ekkert svo spennandi að flytja heim hvað það varðar. En eftir að hafa velt þessu fyrir sér fram og til baka... hringt í alla þá sem eitthvað geta haft um málið að segja... hringt til að spyrjast fyrir um vinnu og ég veit ekki hvað og hvað vorum við enn óráðin. Eða sko, við vorum staðráðin í að gera annaðhvort!
Það valt svo á því hvort við gætum fengið aðra íbúð hjá leigufélaginu okkar, því við erum auðvitað löngu búin að segja þessarri upp. Palli fór á mánudagsmorgun bæði í okkar félag og í annað en ekkert var laust - enda er fyrirvarinn ansi stuttur; ekki nema rétt rúmur mánuður. Það var því tekir ákvörðun um að flytja heim! Og við hana stöndum við þar til annað kemur í ljós!

Helga.

sunnudagur, október 19, 2008

Tónlist og tannstönglasvín...

Jæja. Þá kom að því.
Kvenmaðurinn á bænum yfirgaf heimilið í nótt og eftir erum við strákarnir. Það er svo sem ekkert lengi sem hún verður frá heimilinu en hún kemur aftur á fimmtudaskvöld... eða nótt. Já hún skrapp til Írlands til að versla sér þvottaklemmur, hitta móður og systur pennavinar síns sem er frá Írlandi og skrifar henni eingöngu í kringum júróvisjon og svo til að vita hvort að IRA er ennþá starfrækt. En mikið verður gaman að fá hana heim aftur.

Ég skutlaði Helgu "niður" í skólann hennar klukkan ca 02:45 í nótt þar sem lagt var af stað í ferðina miklu. Hundskaðist svo heim og sofnaði en vaknaði svo aftur um 08:00 þar sem ég þurfti að drífa mig á fætur og keyra heim til Garðars til að horfa á Formúlu 1 með honum, en með viðkomu í Guldbager til að veiða þar rúnstykki í morgunmat. Svo var hljómsveitaræfing eftir það frá kl 13:00 til 16:00 í tilefni þess að Bobby Festival er á næstu grösum. Þar verð ég að spila með hljómsveitinni Rock-Co í stóra salnum í Sønderborghus... sem er einhverskonar félagsheimili Sønderborgara.
Á meðan ég var ekki heima var Eyþór heima með Marek og Hinrik og sá algerlega um þá.
Svo um kl. 6 leitið núna í kvöld sá Eyþór um að steikja hamborgara á línuna og allir voða sáttir og glaðir með það. Eyþór er að verða ansi seigur í eldhúsinu sko.

Heyrðu... heldurðu að ég hafi ekki séð svona tannstönglasvín í Egernsund, heima hjá Poul Erik, þar sem við æfum alltaf.
Þetta eru lítil og frekar ljót skrímsli sem gera sennilega engum mein. Allavega ekki akkúrat þetta kvikindi. Bara stoppaði þarna í götukanntinum og stillti sér upp fyrir myndatöku.

Svona er lífið í Danmörku þessa dagana. Allir voðalega hissa á því að við skulum vera að flytja heim og segja okkur að vera bara dálítið lengur. Sérstaklega þó danirnir. Þeir eiga voðalega erfitt með að segja ekkert um ástandið á Íslandi... skiljanlega. Hver hefur ekki þörf fyrir að tjá sig um það? Egill helgason hefur í það minnsta þörf fyrir það að rassskella götustrákinn hann Jón Ásgeir.

Gott í bili.
Palli.

mánudagur, október 13, 2008

Sultupælingar

Bestu fréttirnar sem ég hef í þessarri viku: Ég fékk samþykki fyrir námslánum! Jessúss hvað mér létti mikið. Þá eru þær áhyggjum frá.

Ég bjó til rabbabarasultu í gærkveldi sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema þetta: Danir eru mikil sultuþjóð. Þeir borða sultu með öllum andskotanum og setja hana meira að segja vitlausu megin á ostinn, þ.e. þegar þeir fá sér brauð með osti og sultu þá setja þeir ostinn fyrst og sultuna svo. Mér finnst það mjög svo órökrétt en þar sem ég borða ekki svoleiðis get ég víst ekki dæmt um það hvort það sé betra. Mér finnst það bara líta rangt út! Hahahaha...
En allavega, gikkurinn ég borða helst ekki sultur. Nema rabbabarasultu, því hún var alltaf til í minni sveit. En það er bara alls ekki hægt að kaupa rabbabarasultu hér í landi, og ekki heldur í Þýskalandi ef út í það er farið (ekki það að ég hafi kannað í öllu landinu - það er bara betra að alhæfa svona) NEMA að rabbabarinn sé blandaður saman við jarðaber. Það er s.s. hægt að kaupa Rabbabara- og jarðaberjasultu. Hmm... afhverju að blanda þessu saman? Er það bara fyrir bragðið eða er það til að drýgja rabbabarann? Ég veit það ekki... ég borða þessa sultu bara í hallæri!

En ég fékk rabbabara hjá Hrund og Steina um daginn og bjó til sultu úr honum í gær. Í dag voru svo bakaðar vöfflur og borðaðar með sultu og rjóma! Namm...

Það eru innan við 2 mánuðir þar til við flytjum heim! Bara ef þið væruð að spá í það.

Helga

miðvikudagur, október 08, 2008

Fair Trade


Við Stefanía héldum Fair Trade partý í dag. Hugmyndin var að bjóða örfáum konum (því stofan er svo lítil) upp á súkkulaði Fondue búið til úr Fair Trade súkkulaði, kaffi úr Fair Trade kaffi og jafnvel eitthvað meira gott. Og jafnframt að segja þeim hvað Fair Trade er en Fair Trade hugtakið er í raun mjög einfalt og það er að borga bændum og framleiðendum í þriðja heim sanngjarnt verð fyrir sína afurði. Það má lesa meira um þetta hér, hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Við fórum í Kvickly og fundum þar fullt af Fair Trade vörum en keyptum það sem við þurftum í fondu-ið, ávexti fyrir það, meðal annars FT banana, og svo kaffi. Við vorum búnar að fá lánað fondue sett svo það var allt klárt.

Svo kom kvöldið, ég mætti til Stefaníu rétt um kl. 7 og það var hafist handa við að brytja niður ávexti og súkkulaði sem var svo brætt yfir vatnsbaði. Ég var búin að finna nokkrar uppskriftir af fondue sósu á netinu sem allar innihéldu rjóma, svo honum var skellt útí bráðið súkkulaðið. Það vildi nú ekki betrur en svo til að súkkulaðið bara hljóp í kekki! og ofan á flaut fita. Oj, hvað þetta var ógeðslegt. Svo við hentum því og brutum afganginn af súkkulaðinu niður. Bræddum og ákváðum að setja bara ööörlitin rjóma. Það gekk betur, nema að nú varð þetta bara að einum þykkum köggli. En hann hlyti bara að lagast þegar hann kæmist yfir eldinn á fonduesettinu. Hmm... olíu hellt í það dót... lampaolíu það er að segja. Ætlaði aldrei að takast að kveikja á dótinu og þegar það lokst tókst þá ósaði það svo mikið að við fengum næstum því reykeitrun! Jæja, því var þá skipt út fyrir venjuleg kerti. En súkkulaðið var orðið svo stíft og seigt að það hefði verið hægt að skera það. Ákváðum þá að setja það í pott og hita. Ekkert lagaðist. Ákváðum að hella smá mjólk útí. En nei! Þá hljóp það líka í kekki og yfir flaut gul fita! Usss. Fitunni var hellt af og konunum var bara boðið upp á ávexti og fitulaust súkkulaði sem þær urðu að moka upp á ávextina.

Við lærðum að minnsta kosti hvernig ætti EKKI að búa til súkkulaði fondue sósu! En þetta var þrælskemmtilegt samt sem áður! Bara hið besta kvöld.

Helga

þriðjudagur, október 07, 2008

Fjöldasendingar á Facebook

Facebook er frábært fyrirbæri fyrir fólk og ... furðuverur ... ja eða eitthvað með effi!

En eitt sem ég þoli ekki á Facebook - já og í tölvupósti - það eru svona keðjubréf. Algengustu eru þessi:
"Trykk på "forward" så kan du se hvem som er mest på facebook-siden din"

Hver hefur oftast ýtt á forward - og hvað hefur gerst?? EKKERT... örugglega!

Ég fékk svo eitt í dag, ætla nú ekki að birta það allt hér því það er svo langt, en það byrjar svona:
"READ THIS... SERIOUSLY....IF U DONT PASS IT ON UR FUCKED UP IN THE HEAD!!! Do you remember February 1993 in England , when a young boy of 3 was taken from a Liverpool shopping centre by two 10-year-old boys?..."

Já, þetta var hræðileg saga, þessi um drenginn sem var myrtur. Þetta bréf hvetur fólk til að skrifa undir lista og senda svo á eitthvað netfang, til þess að mótmæla því að morðingjarnir verði leystir úr haldi.

Þetta er allt saman VITLEYSA... þ.e.a.s. þetta er bara keðjubréf sem gengur í hringi, aftur og aftur. Þegar maður fær svona bréf ætti maður alltaf að:
  1. vera fullur efasemda...
  2. ath hvort dagsetning sé sett á bréfið, t.d. með þessa sögu, þá voru morðingjarnir leystir úr haldi árið 2001 - svolítið langt síðan!
  3. athuga hvort einhver sé skrifaður fyrir bréfinu, ef þetta væri alvöru undirskrifasöfnun þá væri sennilega einhver skrifaður fyrir því.
  4. aldrei að skrifa undir keðjubréf.. ef þetta væri alvöru undirskrifasöfnun þá ætti maður að skrifa undir á vefsíðu (þetta á líka við um öll hótunarbréfin sem gengu um allt "frá Hotmail" þar sem maður varð að senda áfram til allra á hotmail addressu bókinni sinni annars yrði hotmailið hjá manni lokað - mitt er enn opið!!)
  5. Gúgglið hluta úr bréfinu, einni setningu, emaili eða fyrirsögninni og ég er viss um að í 98% tilfella fáið þið að sjá orðið "Hoax" (gabb) í leitarniðurstöðum.
Og þá er ég búin að láta þetta flakka. Nei, eitt enn... það eru líka fullt af bréfum þar sem fólk er hvatt til að áframsenda, til styrktar einhverju barni, því "einhver" ætlar að borga svo og svo mikið fyrir hvert nafn/netfang sem er á listanum. Þetta er BULL! Bara bull.

Já og þá er ég búin! Annars er allt fínt að frétta af þessum vígstöðvum, nema að Hinrik er með kossageit (børnesår) og er með stærðar sár í nefi. Hann nýtur þess bara að fá veikindarfrí úr leikskólanum. Ég er að fara í Fair Trade partý til Stefaníu á morgun þar sem við ætlum að borða Fair Trade súkkulaði fondue og drekka Fair Trade kaffi. Eiginlega er þetta bara góð afsökun til að hittast og borða súkkulaði og drekka kaffi! :-)

bless
Helga.

föstudagur, október 03, 2008

Ís, útsýni og endajaxl

Við Þórunn skruppum til Þýskalands um daginn (jah, eða í síðasta mánuði), bara svona til að versla og svona. Og að sjálfsögðu stoppar maður í Ítölsku ísbúðinni og fær sér örlítinn ís. Já, eða ég fékk mér örlítinn ís... svona þegar maður ber hann saman við ísinn sem þórunn fékk sér. Þetta er hrikalega góður ís!

Þetta er annars útsýnið frá skrifstofunni sem við höfum í vinnunni. Við erum uppi á 4. hæð og það eru eiginlega ekki almennilegir veggir þarna heldur bara gler. Nema í okkar skrifstofu, við erum með einn heilan vegg. Eins gott því það er frekar erfitt að einbeita sér stundum, bæði þegar margir eru að ganga framhjá skrifstofunni eða þegar mikil bátaumferð er um Alssundið.


Ég fór annars til tannlæknis í gærmorgun. Ástæðan var endajaxl sem var ekki enn kominn upp en var farinn að angra mig. Ég fór í síðasta mánuði útaf honum líka, en þá var komin sýking í kringum hann og tannlæknirinn sagði að það þyrfti að taka hann - einhverntíman.
Ég ákvað að drífa bara í því á meðan við erum hér úti því tannlæknaþjónusta hér er miklu ódýrari en á Íslandi.

Ég mætti því galvösk í gærmorgun, harðákveðin í að drífa bara í þessu. Tannlæknirinn hóf strax handa við að deyfa mig - sjiiiiit hvað það var vont! En sem betur fer fór deyfingin strax að virka og það var hægt að fara að skera fyrir jaxlinum. Þær voru tvær þarna inni, tannlæknirinn og aðstoðarkonan (heitir það ekki tanntæknir) en þegar jaxlinn vildi ekki losna var rokið fram og kallað á aðstoð og kom annar tannlæknir til. Líka kona. Þær voru því þarna þrjár yfir mér og allar með fingur í eða yfir munninum! Sjiiiiiiit hvað þetta var líka... ja ekki beint vont því að ég var auðvitað deyfð en amk mjöööög óþægilegt. Ég hélt t.d. að munnvikið á mér myndi rifna því jaxlinn er auðvitað mjög aftarlega. Og svo var þrýst niður við jaxlinn, honum ýtt til, sagað af honum og svo small í einhverju!! Sjiiiittt hvað það var óþægilegt hljóð! Það var ekki fyrr en það var búið að saga tvisvar af honum sem hann loks losnaði!

Þegar allt var búið og ég sest upp, er hurðinni hrundið upp og enn einn tannlæknirinn - líka kona - hentist inn og spurði "missti ég af því?" Hún afsakaði sig strax við mig og sagðist bara hafa verið með við að greina röntgenmyndina um daginn og hefði viljað fá að sjá þegar jaxlinn yrði tekinn. En hún missti af því og gat ekkert annað en dáðst af þessum risastóra jaxli sem nú lá á stálbakka!

Ég er því núna með þrjú spor saumuð í munninum, stokkbólgin - eins og sést kannski á þessarri mynd - gleypi bæði verkjatöflur og pensilín, og gæti drepið mann með andfýlunni úr mér! Og vá, hvað þetta er vont!
Posted by Picasa

miðvikudagur, október 01, 2008

Úff..... hvað er hægt að segja?

það á ekki af íslensku (vesalings) krónunni að ganga.

Ég var að kíkja á heimasíðu Kaupþings áðan eins og ég geri nánast á hverjum morgni og þar blasti þetta við mér

Þetta er alveg ótrúlegt. Ég man ekki eftir því fyrr að íslenska krónan hafi verið svona hrikalega lág gagnvart þeirri dönsku.
Sjálfsagt hefur það einhvertíman gerst en það eru þá ansi mörg ár síðan.

Og mikið vorkenni ég fólkinu sem hefur tekið svo kölluð myntkörfulán, þar sem hluti eða jafnvel allt lánið er tekið í erlendri mynt, til dæmis í evru eða japönsku yeni. Sá sem tók lán í evrum í fyrra þegar evran var í ca 90 krónum er ekki í alveg nógu góðum málum núna því í dag er evran í tæpum 150 krónum íslensku. Ekki gott.

Nei bara smá fjármálapælingar í gangi þennan morguninn.

Kveðja,
Palli.