STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Föstudagur eftir þrjá daga

Já það fer alveg að líða að því að við fáum okkar íbúð! Það verður á föstudaginn sem sagt. Klukkan 12 sem við megum fara að flytja inn - og ekki sekúndu fyrr! Þeir eru alveg ótrúlega stífir, starfsmennirnir hjá þessu leigufélagi.

Við fórum í ferðalag um helgina, byrjuðum á að fara í Sommerland Syd sem er svona skemmtigarður. Þar vorum við í rúmlega 2 tíma og hefðum alveg getað verið miklu lengur. Því næst keyrðum við norður Jótland að þorpi sem heitir Hellum en þar gistum við á sveitabæ hjá fólki sem mamma þekkir - og amma á undan henni. Löng saga það en stutta útgáfan er svona: amma var ráðskona hjá þeim á seinni hluta síðustu aldar. Þau heita Karen og Henning og þau komu í heimsókn til Íslands fyrir næstum því 20 árum síðan. Ég hef ekki séð þau síðan en það var mjög gaman að hitta þau. Og þar gistum við eina nótt.
Daginn eftir fórum við að hitta Grím, vin hans Palla og fyrrum vinnufélaga. Hann og fjölskyldan hans býr bara rétt hjá Hellum í þorpi sem tilheyrir Sæby. Við vorum komin þangað um hádegi og vorum alveg til kl. 6. Þeir karlarnir horfðu á formúluna á meðan ég fór með konunni hans Gríms og vinkonu hennar í búðarráp! Mjög gaman. Hvenær er ekki gaman í búðarrápi??

Hinrik byrjaði svo á leikskóla í gær. Þá fórum við í stutta heimsókn og í dag vorum við í rúmlega 2 tíma. Þar er þetta nú heldur lausara í reipunum heldur en maður þekkir þetta heimanfrá - ekkert aðlögunarplan, enginn ákveðin sem tók á móti okkur í dag og fleira svoleiðis. Börn klifrandi uppi í leikfangahillu sem stóð á miðju gólfi og þá var ekki laust við að maður fengi fyrir hjartað!
Á leikskólanum eru a.m.k. 3 aðrar íslenskar stelpur sem allar vildu tala við Hinrik. Honum leist bara mjög vel á þetta allt og spurði meira að segja einn kennarann þarna "Hvad hedder du?" Svo varð hann mjög skrítinn á svipinn þegar hún svaraði honum - kom svona ánægjubros sem hann reyndi að hylja! Á morgun ætla ég að skilja hann eftir í smá stund - maður kann sko á svona aðlögun - hef gert þetta áður sko!
Og Heiða og aðrir leikskólakennarar - í samverustund í dag var sögð saga þar sem krakkarnir eru með með því að nota hendurnar - Heiða svipuð sögunni um manninn sem fer í gegnum skóginn nema þessi er um mann og konu og maðurinn fer af stað og sér ljón! Ferlega skemmtileg og ég varð auðvitað ein stór eyru til að muna hana og ég á eftir að skrifa hana niður. Þeir sem vilja fá hana senda í tölvupósti verða að skilja eftir komment um það hér.

Annars er allt við það sama. Marek orðinn aðeins ánægðari í skólanum - eða það er kannski fullmikið sagt, honum finnst þetta ömurlegt segir hann en hann er allavega ekki ósáttur við að vera skilinn eftir. Það var mjög fyndið í gær þegar Hinrik var búinn í leikskólanum þá fór Marek að yfirheyra hann, svona eina og aðrir hafa gert við hann, og sagði: Fórstu í leikskóla í dag Hinrik? Hinrik svararði já og Marek spurði: Og hvernig gekk í leikskólanum? Bara vel sagði Hinrik. Marek lét þetta ekki duga og vildi vita hvað hann hefði gert í leikskólanum. Ég var bara að leika mér svaraði Hinrik. Marek fannst þetta ekki nógu ítarlegt svar og vildi nákvæma lýsingu á því hvað Hinrik hefði leikið sér með. Hinrik gafst þá upp á þessari yfirheyrslu, sagðist bara hafa leikið sér með hitt og þetta og fór í burtu!
Ég finn á Marek að hann saknar þess að vera ekki í sama leikskóla og Hinrik. En eftir næstu viku getur hann hjólað með okkur Hinrik í leikskólann áður en hann fer sjálfur í skólann sinn.
Jæja, þetta er sennilega orðið óþolandi langt blogg.
Við setjum ekki inn neinar myndir fyrr en við erum flutt og komin með nettengingu.
bless í bili
HH.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Förum í ferðalag

Jáh, við fjölskyldan ákváðum að taka bílaleigubíl og skella okkur í ferðalag á morgun, laugardag. Fyrst er ferðinni heitið í Sommerland Syd sem er svona skemmtigarður og svo ætlum við að keyra alla leið norður í rassgat næstum því eða norðar en Aalborg. Þar ætlum við að hitta fólk sem amma heitin þekkti, og mamma þekkir en ég varla þekkir og hvað þá Palli sem hefur aldrei heyrt á þetta fólk minnst. Þetta góða fólk heitir Karen og Henning og ætlar að hýsa okkur eina nótt. Svo ætlum við að heimsækja Grím, vin hans Palla og svo komum við heim aftur á sunnudagskvöld.

Það verður sennilega eitthvað lítið bloggað í næstu viku. En þeim mun meira þegar við verðum flutt í okkar íbúð NÆSTA FÖSTUDAG!

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Lítið að frétta

Vá hvað tíminn líður hratt. Við höfum ekki bloggað síðan á laugardag!
Það gengur allt sinn vanagang hér, strákarnir ekkert sérstaklega ánægðir í skólanum ennþá. Eyþór hlakkar samt til á hverjum degi að fara í sérkennslu í dönsku á meðan Marek hatar það. Ég þarf að kaupa litla stílabók handa honum til að skrifa niður öll nýju orðin sem hann lærir því hann segist gleyma þeim jafnóðum.
Hinrik byrjar svo á leikskóla á mánudaginn. Hann er rétt hjá þar sem Eva og Juha búa en það þýðir að hann er lengra frá okkar íbúð. En það verður ekkert mál að hjóla þangað! Ég fæ þá alla næstu viku til að aðlaga hann, nema föstudaginn því þá þarf ég að byrja í skólanum.
Palli hefur ekki fundið vinnu ennþá en hann og Hjalti frá Jörfa fóru í vinnuleit í gærdag. Vonandi kemur eitthvað út úr því.
Við hjóluðum annars í fyrradag í nytjasölu Rauða Krossins og fundum þar sófasett, sófaborð og skáp undir sjónvarpið fyrir 1200 danskar krónur. Alveg ágætt það.
Við ætlum að taka bíl á leigu um helgina og fara eitthvert, sennilega á norður Jótland að hitta vin hans Palla. Við erum ekki alveg búin að setja niður ferðaplan en eitthvað verður maður að gera til að láta helgina líða.
Jæja, meira síðar.
HH

föstudagur, ágúst 18, 2006

Grenjandi rigning og hiti

Það mætti halda að þetta væri blogg veðurstofunnar!

Við stórfjölskyldan fórum í hjólaleiðangur niður í bæ, aðalega til þess að fá okkur vélís. Hinrik hefur eiginlega ekkert fengið að fara út nema aðeins í gær og hann var alveg svangur í ís! Það var orðið ansi þungskýjað þegar við lögðum af stað og einmitt þegar við komum niður í bæ var byrjað að rigna duglega. Við dunduðum okkur í bænum, keyptum okkur regnhlífar og regnföt. Átum ís undir regnhlífunum og fórum inn í verslun til að bíða eftir að það stytti upp. Sem það gerði og við gátum hjólað heim aftur án þess að verða eins gegndrepa eins og um daginn.

Marek átti frekar erfiðan dag í skólanum í dag. Hann var einn og í allan dag í sérkennslu í dönsku og það fór eitthvað illa í hann. Ræfillinn var alveg mállaus en það var farið með hann til Eyþórs og hann gat sagt honum hvað væri að. Eftir skóla fór hann í vistun en ég var þá komin til að fylgja honum. Ein konan þar sagði mér að það væru fleiri íslensk börn þarna í vistuninni en þau koma eftir helgi. Þannig að hann verður ekki alveg aleinn og mállaus.

Eyþór er búinn að eignast vin sem heitir Arnór og býr hann hér rétt hjá. Mamma hans sér um íslenskukennsluna í skólanum þeirra. Hann er í sama bekk og Eyþór og sitja þeir saman. Eyþór fer líka í sérkennslu í dönsku og eftri fyrsta tímann í gær sagði hann mér að Jói þeirra Ingu Lenu og Hjalta hefði verið með honum. Honum fannst það ekki verra að hafa einhvern sem hann hefði séð áður.

Meira síðar. Palli hjólaði út í sjoppu að kaupa snakk og kók. Nammmmm......

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

20°c, sól og blíða.....

Jú sælt veri fólkið.
Hinrik Elvar hefur verið slappur seinustu daga, eða eins og fram kom á bloggi hér áður var hann með hita um daginn. Hann er allur að hressast núna og við erum að spá í að fara út í skóg til að finna froska og snigla.
Ég hringdi áðan í konuna hans Allan Lund sem vantar að ráða mann eða menn í vinnu við að keyra og vinna á einhverjum vélum. Ég og Hjalti Jó ætlum að kíkja þangað á morgun.

Helv.... samrtsíminn virkar ekki ennþá og ég veit ekkert hvað er að honum. Hann blikkar einhverju rauðu ljósi þegar slökkt er á símanum og þegar maður ýtir á græna takkann á símanu til að hringja þá breytist ljósið á smartsímanu (boxinu) í grænt sem segir manni það að hann ætti að virka, SEM HANN GERIR EKKI.
DRASL.

Ólöf Birna, ertu búin að panta miða?

Kær kveðja frá Danmörku.
PSB

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Fyrsti skóladagurinn

Já, það var fyrsti skóladagur Eyþórs í dag. Ég fór auðvitað með honum og var með honum allan tímann og ég held svei mér þá að ég hafi lært meira en hann því það var danskur strákur sem sat við hliðina á honum sem talaði svo mikið við mig að ég mátti hafa mig alla við til að skilja hann. Hinumegin við Eyþór var svo íslenskur strákur, sá eini sem fyrir var í þessum bekk. Þeir léku sér svo eftir skóla og alveg fram að kvöldmat svo þetta var ágætur dagur fyrir Eyþór.
Marek byrjar svo á morgun kl. 10. Ég fer fyrst með Eyþóri í fyrramálið, kem svo heim og sæki Marek og verð með honum allan tímann. Ég geri ráð fyrir að geta svo tekið samræmt próf í dönsku eftir þessa skólagöngu.
Annars er það helst að frétta að við fórum í heimsókn til Regínu frænku hans Palla, á sunnudaginn, öll á hjólum auðvitað, og Hinrik var eitthvað slappur þegar við komum þangað og vildi bara leggja sig. Þegar hann vaknaði aftur var enginn vafi á að hann var kominn með hita. Regína keyrði hann og Palla heim en við hin hjóluðum. Það var aðeins kominn rigningarúði þegar við lögðum af stað en fljótlega breyttist það í steypiregn þannig að við vorum orðin alveg gegndrepa þegar við komum heim. Sama var um Palla sem fór aftur með Regínu til að sækja hjólið sitt.
Hann og Hjalti fóru svo til Esbjerg í dag til að sækja dótið okkar. Nú er bara að bíða spenntur eftir 1. september þegar við fáum íbúðina okkar!
Við höfum ekki getað notað Smartsímann ennþá, en getum það kannski núna fyrst dótið okkar er komið því okkur vantar hubinn sem er ofan í einhverjum kassanum.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Skordýrin í skóginum

Við fórum í frábæran göngutúr í skóginum fyrr í dag, með "við" meina ég þessi 9 manna fjölskylda sem býr hér á Jørgensgård, Eva, Juha og dætur og við fjölsk.
Þetta var alveg frábær göngutúr og það sem við sáum var eftirfarandi: mjög marga snigla, fullt af froskum sem voru svo pínulitlir og sætir (og Solla, ég hélt á fullt af þeim, þeir eru ekkert slímugir eins og einn frændi þeirra á Lindarbergi), engisprettur, risastóra bjöllu (eða eitthvað svoleiðis). Fullt af skrítnum trjám, brómber, kirsuber og já, einn ánamaðk. Vitaskuld þurfti að stoppa og skoða hvern einasta frosk og snigil sem á vegi okkar varð.

Þetta var mjög skemmtilegur dagur - en það er frekar heitt og mjög rakt.

föstudagur, ágúst 11, 2006

Hjólað um Sønderborg

Palli og Eyþór skruppu til útlanda (hehehe... Þýskalands) í gærmorgun og keyptu 2 stk hjól, annað handa Eyþóri og hitt handa mér (Helgu). Við Palli höfðum komið auga á þau í Þýskalandi um daginn en gátum ekki komið þeim fyrir í bílinn svo þeir fóru bara tveir þangað í gær. Marek hafði fengið hjól daginn áður og var það sett saman í gær líka. Á meðan þeir tveir elstu fóru til útlanda fór ég með þá tvo yngstu á ströndina og prófuðu þeir að vaða í sjónum. Það var nú reyndar skýjað og þar af leiðandi ekki mjög hlýtt svo við vorum ekki mjög lengi þar. Leiðin heim tók um það bil klukkutíma en Hinrik þurfti að pota í alla maura sem hann sá og skoða hitt og þetta, m.a. allar köngulær en eins og hann segir "hann svo sætur" (köngulærnar þ.e.a.s.).
Við fórum svo í dag í heljarmikinn hjólatúr niður í bæ. Við Eyþór og Marek en Palli keyrði Hinrik í kerru, þeim síðarnefnda til mikils ama því hann vildi hjóla eins og hinir. Við vorum að skrá okkur inn í landið og gengum svo göngugötuna allt að dótabúðinni og til baka (þá fannst strákunum ekki ástæða til að fara ofar).
Við fengum okkur dönsk símanúmer í gemsana okkar, Palla númer er: 4032 4186 og mitt er: 4032 3690 og svo auðvitað landsnúmerið á undan. Hvort þetta eru varanleg símanúmer eða ekki kemur svo í ljós. Við erum ekki enn búin að prófa smartsímann því okkur vantar eina snúru til að tengja síma við smarttækið.
Jæja, ég ætla að leggja mig smá stund.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Vid erum komin til Sønderborgar heil a hufi og thurftum ekkert ad tala vid marga utlendinga a leidinni. Tolvan hja Evu og Juha er oll a Finnsku og eg skil ekki hvernig eg breyti lyklabordinu i islenskt en ef eg thekki minn mann tha verdur hann ekki lengi ad breyta thessu.
Thad var steikjandi hiti sem tok a moti okkur i Kaupmannahofn og var Marek ekki lendi ad rifa sig ur bolnum og var bara ber ad ofan. Vid gistum a Gistiheimili Halldoru, vorum komin thangad seint um kvold og eg held ad ekkert okkar hafi sofid vel vegna hita - og kongurloafobiu!
Sko, nú er Palli minn búinn að breyta lyklaborðinu. Ég get sagt ykkur það að hann les finnskuna eins og ja... moggann!
Allavega, við fórum í dýragarðinn á þriðjudagsmorgun, strákunum dugði að fá að sjá mörgæsir og blettatígra, þá voru þeir ánægðir og þá var bara að keyra suður eftir.
Planið er svo að skreppa til Þýskalands í dag til að athuga hvort við finnum ekki einhver ódýr hjól til að kaupa.
Bless í bili.

laugardagur, ágúst 05, 2006

commenting and trackback have been added to this blog.
Nú, já. Eitthvað verður að skrifast hér svo þetta geti kallast bloggsíða.
Við fjölskyldan erum nú stödd í Reykjavík og erum í fullri vinnu við að heimsækja vini og vandamenn áður en við yfirgefum klakann á mánudaginn.

Best að setja inn eitthvað kommentakerfi á þessa síðu svo þið getið kommentað. Ikke?