STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

laugardagur, september 30, 2006

Myndir og fleira

Eins og glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir þá eru komnir á síðuna einhverjir tenglar á önnur blogg og líka tenglar inn á myndaalbúm - LOKSINS! Já, ég hef bara verið frekar dugleg - þegar ég ætlaði að vera að læra! En svona er þetta.

Smartsíminn er sko alveg að slá í gegn. Ég lá bókstaflega í símanum í gær og það var geðveikt gaman. Og ég er sko bara rétt að byrja. Það er að vísu mjög misjafnt hversu gott sambandið er, stundum er það mjög gott, alveg eins og í venjulegum síma og stundum er það mjög slitrótt. En þá bara skellir maður á og hringir aftur!

Ég hitti nýju vinkonu mína, hana Irene (gömlu konuna sem býr í sömu blokk) í morgun niðri í þvottahúsi og við spjölluðum alveg heilmikið saman. Eitthvað barst það í tal að við værum ekki enn búin að koma okkur fyrir og hún spurði mig hvort ég vildi fá rimlagardínur gefins. Hún þekkti nefnilega konu sem væri að skipta út hjá sér. Ég hélt það nú og þá mundi hún eftir annari sem ætti bláan stól sem hún þyrfti að losna við. Sú kona var að missa mömmu sína og var með alla búslóðina hennar inni hjá sér. Ég þáði stólinn og bað hana endilega að athuga hvort hún ætti ekki eitthvað fleira handa mér, t.d. skenk og eitthvað eldhúsdót.

Inga Lena, Hjalti og Jói komu í mat í kvöld. Við Eyþór elduðum Fajitas og svo var ísterta í eftirmat. Á eftir spiluðum við Trivial Pursuit. Þetta var mjög skemmtilegt og við þyrftum að hittast svona oftar. Marek var mjög ánægður með áhuga Ingu á myndaalbúmunum en honum finnst nefnilega svo skemmtilegt að skoða þau. Svo lét hann hana skoða möppuna sína sem inniheldur öll listaverkin hans, bæði frá leikskólanum og hér heima, og hún dásamaði hæfileika hans svo mikið en varð heldur hissa þegar hann neitaði því að ætla að verða listamaður þegar hann yrði stór því hann ætlar að verða hraðpóstur! Alveg harðákveðinn í því, enda var hann mikið búinn að æfa sig á meðan við vorum á Laugarbakka áður en við fluttum út. Þá klæddi hann sig í veiðivestið sitt (auk annara fata), skrifaði póst eða tók dagblað frá ömmu, svo hljóp hann eitthvað út í buskann og hljóp svo á ofsahraða að húsinu með póstinn! Geðveikt hraðskreiður!

fimmtudagur, september 28, 2006

Smartsíminn virkar!

Jah, við erum komin með netið og Smartsíminn virkar bara! Jéssohissa! Nú getum við hringt frítt í heimilissíma á Íslandi og þið hringt í okkur á innanlandstaxta eða sent okkur sms um að hringja í ykkur. Símanúmerið góða er 4960004.

Tæknigaurinn kom í morgun um kl. 10:30, horfði á routerinn sem var í gangi, benti á appelsínugula ljósið og sagði "já, þetta virkar rétt" og fór svo! Fín vinna þetta!

Og þá get ég farið niður í þvottahús að þvo þvott án þess að eiga það á hættu að þurfa að borga fleiri hundruð krónur í sekt!
hh

miðvikudagur, september 27, 2006

Internettenging - næstum í höfn!

Jæja, gott fólk, þá erum við næstum því komin með internettengingu! Routerinn er kominn í hús, búið að tengja við Lappann en ekki búið að opna fyrir það. Mér skilst að það verði gert á morgun. Ég reyndar skil ekki þetta system því á einu blaði stóð að við hefðum keypt Gør det selv pakka sem þýðir einfaldlega að við gerum þetta sjálf og að ÞAÐ KEMUR EKKI TÆKNIMAÐUR HEIM. Ef við hins vegar viljum fá tæknimann þá kostar það tæplega 700 dkr. Nú, svo fengum við bréf í pósti þar sem stendur að netið verði opnað þann 28. sept og að TÆKNIMAÐUR KOMI til að setja þetta upp einhverntíman á milli kl. 7:30 og 16:00. Ef enginn er heima þegar hann kemur þá þarf að borga tæplega 700 dkr í sekt!!! Maður þorir ekki einusinni að fara niður í þvottahús af ótta við að það kosti mann um 700 kr! Nei, ég held ég hjóli frekar niður í bæ að spyrja aðeins út í þetta.
Ég er reyndar spenntari yfir að fá að sjá hvort Smart síminn okkar virki eins og skyldi, eftir að við fáum netið!

Nýjustu fréttir eru annars þær að Palli verður í viku í viðbót á íslandi! Það er ömurlegt! Bara ömurlegt! Ferlega, ferlega, ferlega ömurlegt! Ójá! En svona er þetta bara. Held ég fari þá bara í klippingu!

Hinrik var mjög fyndinn um daginn þegar ég sótti hann í leikskólann. Hann er svo óhræddur við að reyna að tala dönsku og þegar hann kvaddi kallaði hann: "Hej, hej. Vi ses i morgen. Hvor gammel er du?" hahahahahaha best að nota bara allt sem maður kann!

Það er búið að ganga frá flugmiða fyrir Eyþór til Íslands þann 12. október og hann kemur heim aftur þann 21. október svo hann nær rétt rúmri viku. Hann er þegar búinn að gera lista í huganum yfir það sem hann langar til að kaupa til að koma með heim aftur. Það er t.d. pakkar af kakósúpu, Vilko búðing, mysing og fleira!

Jæja, er þetta ekki bara nóg í bili.
hh

mánudagur, september 25, 2006

Hiti um 20 gráður!

Já, hér er ekki slæmt veður - og svona mun þetta verða þar til næsta sumar. Nei, sennilega ekki! Ég hef heyrt að veturinn hérna er yfirleitt mjög kaldur því það er svo mikill raki í loftinu.

Hinrik er hættur með bleyju! Mikið verður hann glaður þegar hann kemst að því, á unglingsaldri, að mamma hans hefur bloggað reglulega um klósettferðir hans! Bræðrum hans til mikillar ánægju kúkaði hann í klóið á föstudaginn og var því Bionicle karlinn tekinn niður og var mikið leikið sér að honum. Og svo fór hann sjálfur í gær á klóið og kúkaði! Duglegur strákur.

Við strollan fórum niður í bæ á laugardaginn. Ástæðan var aðalega sú að Eyþóri vantaði leikfimisföt. Við fundum þau í Intersport og svo var farið í H&M að versla fleiri föt. Eyþóri vantaði peysur og buxur - sem við fundum ekki því hann vill helst bara íþróttabuxur. Verðum að fara aftur í Intersport. Marek vantaði líka bæði buxur og peysur og Hinrik vantaði aðalega buxur. Þetta var allt keypt, Eyþór fann meira að segja 3 peysur sem hann langaði í og einn bol og honum varð nú að orði; vá hvað það er gaman að versla föt! Ég gæti nú alveg gleymt mér þarna í H&M því það eru svo flott fötin þarna. Svo hef ég líka fundið eina geðveika barnafataverslun í Flensburg í Þýskalandi. Þar voru sko flott föt, líka í mínum uppáhaldslitum! Fer sko þangað að versla jólafötin í ár.

Skólinn er annars búinn snemma í dag. Hér sat ég í frímínútunum að hamast við að nýta þessar 10 mínútur sem við höfum, áður en hann "Axel annar" kom til að kenna. Hálftíma seinna fattaði ég að það er enginn kennari kominn inn og spurði því hana Hrund bekkjarsystur sem situr hér við hliðina á mér hvenær í ósköpunum næsti tími ætti eiginlega að byrja. Mér til mikillar ánægju sagði hún mér að ég hefði ekki heyrt þegar það var tilkynnt að kennarinn væri veikur og tíminn félli niður. Því hef ég núna tíma til að blogga, gera heimavinnuna (bara 1 forrit í dag) og fara niður í bæ að stússa ýmislegt, sækja um húsaleigubætur, auka barnabætur og svoleiðis dót.

Best að nýta því tímann og fara að forrita.
hh.

fimmtudagur, september 21, 2006

Eðlisfræði

Frímínútur í skólanum...

Djö sem ég er fegin því að hafa lært Eðlisfræði í HA, þrátt fyrir að hafa haft þann kennara sem ég hafði þar. Í dag erum við nefnilega að skoða rafmagnsfræði og læra hvernig hún tengist tölvum og því dóti öllu. Geðveikt skemmtilegt, aðalega vegna þess að ég skil þetta!

Af heimilisfólki er það helst að frétta að það á að fara að taka fast á Hinrik og hans bleyjumálum og láta hann hætta með bleyju. Vandamálið hefur verið að hann kúkar á sig án þess að segja nokkuð um það fyrirfram. Nú er búið að kaupa geðveikt flottan Bionicle karl sem bíður uppi á eldhússkáp og hann fær hann í verðlaun þegar hann hefur kúkað í klósettið. Og svo eru kennararnir í leikskólanum allar tilbúnar að taka á þessu með okkur. Í gær var í fyrsta sinn sem hann sagði fyrirfram að hann þyrfti að kúka en svo kom ekkert þegar hann var komið á klóið, en þetta er þó allavega byrjunin. Svo gæti líka verið að ég kaupi bara kopp svo það sé þægilegra að sitja á honum. Ekki skemmir svo fyrir að bræður hans hlakka svo til að hann fái Bionicle karlinn að þeir hvetja hann til að fara á klóið og prófa!
Vonandi virkar þetta núna.

hh.

miðvikudagur, september 20, 2006

Jah, enginn veit fyrr en allt í einu!

Já, ég segi það. Bara tvö blogg á jafnmörgum dögum - ekki vikum!

Ég ákvað að vera lengur í skólanum heldur en venjulega til þess að geta klárað heimavinnuna. Það er alveg geðveik heimavinna þessa vikuna, og hvað geri ég? Jú fer bara að blogga í staðinn! Við eigum að útbúa forrit fyrir morgundaginn, annað fyrir mánudaginn og ég er ekki byrjuð að kíkja á þau. Fyrir utan forritun er ég að læra á Gagnagrunna eins og Access (Guð, hvað það er þreytandi), Tækni-eitthvað dæmi (Technologi) þar sem við lærum hvernig tölvur "hugsa" og svo Business-eitthvað þar sem við notum bók sem heitir Organization Theory! Jamm... þannig er það nú. Sá sem kennir það er mjög líkur Axel sem kenndi eðlisfræði í HA. Bæði í útliti og það hvernig hann kemur fram við nemendur.

Annars er bara fínt að fétta. Ég er búin að kynnast nágrannakonu einni sem gómaði mig niðri í þvottahúsi um daginn og spjallaði alveg heilan helling. Hún vissi sko mun meira um mig en ég um hana áður því hún hafði talað við Palla einhverntíman um daginn og vissi að við værum með 3 stráka. Svo sá hún Ólöfu Birnu í sólbaði úti með alla strákana og vissi því að hún hlyti að vera í heimsókn hjá okkur! Hehehe... hún var mjög indæl og bauð mér að kíkja í kaffi ef mig langaði. Gott að geta æft dönskuna einhverstaðar!

Ég fór með alla strákana í klippingu niður í bæ á mánudaginn og þvílíkt og annað eins. Ekki það að þeir hafi verið fyrirferðamiklir, alls ekki því þeir gátu horft á video á meðan við biðum (í ca 30 mín). En svo kom mikil lykt af afturenda Hinriks sem þýddi að ég þurfti að fara inn á klósett og reyna að þrífa hann. Þar inni ilmaði allt dásamlega á eftir. Svo seinna þurfti ég að spyrja Eyþór hvort hann væri sáttur við klippinguna, studdi mig við hillu við spegilinn og hrinti henni niður með pottablómi og öllu! Já, ég held að fólkið þarna inni hafi bara verið fegið þegar við fórum út. En strákarnir voru ferlega ánægðir með klippinguna - Eyþór vill meira að segja fá gel í hárið svo það verði flottara!

Jæja, nú verð ég að fara að læra.
hh

miðvikudagur, september 13, 2006

Loksins!

Ég ætla ekkert að vera með einhverjar blammeringar um það hversu hratt tíminn líði og að það sé bara strax - alveg óvart - liðin rúm vika án þess að eitthvað hafi verið bloggað þó að nóg gerist hérna megin. Nei, nei, ég ætla bara að sleppa því.

Það er helst að frétta héðan að Palli er kominn til Íslands aftur. Já, þið lásuð rétt en ég vil taka fram að þetta er bara tímabundið. Hann fór til að vinna fyrir Gumma Vil á Hvammstanga við vegavinnu á Heggstaðarneshálsinum. Svo hann er kominn "heim", og verður þar í.....
-Palli: Tjahhh... ætli ég verði ekki hér í ca 2-4 vikur. Það er ekki alveg komið á hreint ennþá. En þetta er ágætt sko. Vegavinna og stór fjegurra öxla vöru (malar) bíll sem ég keyri, 5 stiga hitinn í Húnaþinginu og svona. Hvað er hægt að biðja um meira? Svo erum við Hjalti og Mundi alltaf að pæla í að það væri máske gaman að spila á einhverju balli einhverstaðar hér í grenndinni.
En hvað varst þú að segja Helga mín?

Ehh.. já... gaman að heyra frá þér Palli minn. Ferðu ekki bara að koma heim?
Ólöf fór heim í gær svo ég er aftur orðin eina stelpan á heimilinu. Ég ætla nú að vera með stór, og kannski óraunhæf plön í dag að fara með alla drengina í klippingu! Já, ég veit ekki alveg hvernig það gengur en þessir tveir eldri eru á því að vilja alls ekki fara í klippingu. Sem væri allt í lagi ef þeir vildu þá fara aðeins oftar í sturtu og þvo á sér lubbann!
Ég veit ekki annað en að við fáum internettengingu núna í vikunni. Vona það allavega. Þá getur maður farið að vera online á MSN og jafnvel notað SmartSímann til að hringja í fólk á Íslandi! Hver veit. Guð hvað þetta er spennandi.

Ég er búin að vera með kvef síðan ég veit ekki hvenær. Eiginlega síðan við komum til landsins. Í síðustu viku fór ég svo í annað sinn til læknis sem sagði að ég væri með Bronkítis og lét mig fá sterkara pensílín en ég hafði fengið áður. Svo allt í einu fór ég að finna aftur lykt en lyktarskynið hefur legið algerlega niðri í allavega 4 vikur! Ekkert smá skrítið að finna lykt, og það mikið af fúkkalykt! Mér finnst allt lykta af fúkka eða raka! Skrítið!

Jæja, læt þetta duga. Bless í bili.
HH

fimmtudagur, september 07, 2006

Já, já, komin rúm vika - ég veit!

Jáh, tíminn flýgur sko áfram! Það gekk allt á afturfótunum á flutningsdaginn, við erum náttúrlega svo græn að við héldum að við gætum bara labbað út á bílaleigu og leigt okkur bíl til að flytja! En nei, ekki aldeilis. Þetta var náttúrlega 1. dag mánaðarins og það um haust svo það voru engir flutningabílar inni. Þá athugaði Palli með fólksbíl með dráttarkúlu og það var sama sagan þar. Hann sendi mér sms í skólann - það var einmitt fyrsti dagurinn minn þar - og sagði mér þetta. Ég sagði svo íslenskri stelpu sem er með mér í bekk frá þessu og hún sagðist bara lána okkur sinn bíl sem er með kúlu. En þá fengum við ekki kerru. Nú til að gera ógeðslega langa sögu mjög stutta þá reddaðist þetta allt um 5-leytið þegar Inga Lena hringdi í íslenska konu hér úti sem á kerru og við gátum flutt inn. Þá kom annað - minniháttar - vandamál. Það voru engin perustæði í íbúðinni. Já þú last rétt - ekki það að það vantaði perur heldur stæðin til að setja þær í. Það var bara smá ljós inni í eldhúsi og svo inni á baði. Svo fengu rauðvínsglösin mín góðu annað hlutverk sem kertastjakar en við dreyfðum kertum út um allt til að sjá eitthvað. Því það auðvitað dimmir um kl. 9 hérna.

Þannig að við erum smátt og smátt að koma okkur fyrir. Fundum í gær á kirkjusölunni ferlega flottan skáp sem fór inn í herbergi strákana undir leikföngin þeirra og svo skóskáp til að hafa á ganginum. Svo eru auglýstir allavegana 3 loppumarkaðir nú um helgina svo það er bara um að gera að þræða þá alla.

Ólöf Birna (frænka hans Palla) kom í gær. Ég labbaði niður að lestarstöð til að taka á móti henni og uppgötvaði hvað Sönderborg er falleg borg því að til þess að komast niður á stöð þarf maður að labba yfir brú og þá sér maður gamla bæinn og höllina og allt.

ææ...klukkan orðin svo margt... verð að blogga meira seinna.