STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Ekkert jólastress hér

Vitiði hvað ég elska? Nei, ég skal bara segja ykkur það. Ég ELSKA þrifkonuna mína. Það er algerlega platónsk ást, en ég hlakka til í hverri viku að hún komin hingað heim og skúri fyrir mig. Það er fátt eins ánægjulegt eins og að koma heim til sín og heimilið er hreint og tiltekið og maður átti svo lítinn þátt í því. Kristín, takk fyrir að skúra hjá mér. Þú ert yndisleg!

Ég nefnilega elska Kristínu jafn mikið og ég hata heimilisstörf. Og það er nú ansi mikið. Verst að við getum ekki átt hana.

Palli minn, ferðu nú ekki að koma heim?

Annars er lífið allt að flækjast þessa dagana, fyrir grasekkjur. Það er nefnilega svo mikið um að vera í skólum, jólaföndur hér, ljósahátið þar, Hinrik að gista í leikskólanum, Hinrik að "fara út að borða" í leikskólanum, Marek að ákveða hvort hann eigi að taka þátt í Lúsíuhátíð í skólanum. Fundur í nestismálanefndinni, sem ég er í, í leikskólanum. Mamma og Halldóra að koma á sunnudaginn í örfáa klukkutíma. Allt of fáa. Hinrik í barnaskoðun í fyrramálið, Eyþór þarf að fara í klippingu. Svo þarf að klára jólagjafakaup, jólakortagerð, baka örlítið... best að geyma það aðeins! Muna eftir að skutla Eyþóri í tónlistarskóla á mánudögum, hinum strax á eftir í leikfimi, Marek á sundnámskeið á miðvikudögum. Fundur í þorrablótsnefnd, jólaglögg hjá Ann og Gísla á sunnudagskvöld. Namm jólaglögg... sem minnir mig á það að um daginn... síðustu viku eða einhverntímann, hver er svosem að telja dagana, þá var s.s. jólaföndur í leikskólanum og við fórum auðvitað öll. Haldið ekki að þar hafi verið á boðstólnum jólaglögg fyrir FULLORÐNA fólkið. Já alvöru jólaglögg með ÖLLU. Ef leikskólar eru eitthvað að kvarta yfir áhugaleysi foreldranna í sambandi við svona viðburði þá er þetta einmitt lausnin; áfengi á boðstólnum fyrir þreytta foreldra. Jiii hvað það trekkir að! Ha?

En allavega, mitt í öllu amstrinu erum við í verkefnavinnu í skólanum. Við erum að hanna forrit fyrir flugmiðabókanir. Mjög skemmtilegt.

Já, það er mikið að gera á sumum heimilum í Danmörku. Ansi hreint mikið.... skál bara!

föstudagur, nóvember 23, 2007

Vinsælasta orðið.

Ef til væri keppni um mest-notaða-orðið þá held ég að á þessu heimili myndi orðið “hættu” hreppa vinninginn. Eflaust eru einhverjir sem myndu halda að orðið “mamma” væri mest notað en það er nú ekki svoleiðis. Hinsvegar er “hættu” orðið mest notað af þeirri sem svarar til “mömmu” orðsins.

“Hættu” er líka stundum notað í fleirtölu – já og jafnvel oftar en ekki, og er það þá “hættið”. Ýmislegt getur fylgt þessu orði, langoftast önnur orð en því miður sjaldan sagnorðið “að hlýða”.
Algengast er að heyra “hættu” eða “hættið” með mismunandi raddblæbrigðum, langalgengast er hvass reiðitónn, stundum sagt á milli hláturkviða þá alls ekki með reiðitón og mjög oft heyrist þetta sagt með uppgjafartón. Hér á eftir kemur listi yfir algengar notkunarmyndir orðsins “hættu” eða “hættið”:
Hættu / hættið
Strákar, hættið þið!
STRÁKAR, HÆTTIÐ ÞIÐ!!
Viljiði gjöra svo vel að hætta!
Hættu/hættið þessum hávaða.
Hættu/hættið að fíflast.
Hættu þessum leikaraskap.
Hættu/hættið þessu suði.
Hættu að kitla.
Og þegar kveikjuþráðurinn er orðinn verulega stuttur og viðkvæmur: hættið þið þessum helvítis hávaða/látum (eða hvað sem það er).
Í Guðs bænum, gerið það fyrir mig að hætta....

Í næsta þætti tökum við fyrir orðið "ekki".

Helga - í málræktarpælingum.

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Frúin í Hamburg

Mikið agaleg ósköp sem maður getur orðið fróður á nokkrum dögum! Nú veit ég alveg heilmikið um jólamarkaðinn í Hamburg. Hér er t.d. ein mynd af honum:

Ansi flott þetta.
Markaðurinn er haldinn frá 27. nóvember til 23. desember og hef ég lesið að fólk í norður Þýskalandi fari hreinlega ekki í jólaskap fyrr en það hefur farið á jólamarkað. Þetta getur reyndar verið kolrangt og alger misskilningur því ég las þetta allt á þýsku. En það hljómar allavega vel! :-)

Það væri nú gaman að kíkja! Bara smá! Einn dag til dæmis. Ha? Palli? Eigum við? Fara bara öll saman. Ha? Þaggibara?

Annars er ég bara að slæpast í skólanum... ja, slæpast og ekki slæpast! Ég er búin með skilaverkefnið sem við eigum að skila á föstudaginn. Já! Þið lásuð rétt, ég er ekki á síðustu stundu! Alls ekki. Svo ég er bara að dunda mér við eitthvað annað... laga kóðann... blogga... lesa póst... spjalla við Hafdísi... borða snúð... drekka kaffi... og margt fleira. Já, það er svo margt sem manni er til lista lagt! Allt þetta get ég gert og margt til.

Ja, hérna... það fer bara að koma hádegismatarhlé! Kominn tími til að fá smá pásu.

Það var Helga sem gaf sér augnarblik frá amstri dagsins til þess að blogga!

mánudagur, nóvember 19, 2007

Jólamarkaður

Ég var að heyra að það væri STÓR útimarkaður í Hamburg í Þýskalandi þann 12. desember.
  • Veit einhver annar eitthvað um þetta?
  • Ætlar einhver að fara?
  • Á að láta þetta fram hjá sér fara?
Já, maður spyr sig...

Helga, í jóla(markaðs)hug

föstudagur, nóvember 16, 2007

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ÁSTIN MÍN!

Hann Palli minn á afmæli í dag! 35 ára karlinn og aftur orðinn jafngamall mér! Og mér finnst svo leiðinlegt að vera ekki hjá honum. En svona er þetta bara. Ég var nú að hugsa um að baka bara köku og fara með í skólann á morgun til að halda upp á þennan merkisdag... en hætti við og læt duga að fara sjálf með strákana í afmælisveislu Sólbrár Söru Leifsdóttur sem er 30 árum yngri en Palli. En af tilefni dagsins ætla ég að setja inn nokkrar myndir af kappanum:

Enn og aftur: Til hamingju með daginn Palli minn, vona að þú getir gert þér einhvern dagamun og að hún tengdamóðir þín gefi þér extra góðan mat að borða.

Helga - jafngömul.

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Smá update á veðri

Það er svo langt síðan ég hef talað um veðrið hérna að ég er viss um að þið haldið að hér sé alltaf sól og sumar. En nei, það er sko ekki aldeilis svoleiðis. Og því ákvað ég að koma með smá veðurfréttir.

Kl. 7:50 í morgun var hitinn í 2 gráðum, loftraki var 93% og það var hreint út sagt skítakuldi. Ég þurfti að skafa af bílrúðunum áður en við lögðum af stað. Strákunum fannst það alls ekkert leiðinlegt því þetta er sá mesti snjór sem þeir hafa séð hér í Danmörku í tæpt ár!

Þrátt fyrir kuldann er alveg hreint yndislegt haustveður! Sólin er komin upp og litar allt gult og það er alveg stillt. Ég ætla samt bara að hanga inni. Þarf endilega að læra smá... vinna upp verkefni og svoleiðis.

Annars er bara allt í gúddí hér. Það eru kostningar í dag, sem er gott því þá fara helv... auglýsingaskiltin að fara niður. Jii, hvað ég er orðin þreytt á þeim. Hehehehe... þetta minnir mig á skiltin sem við Jóna Magga bjuggum til fyrir nokkrum árum. Það voru sveitastjórnarkostningar og daginn fyrir kjördag þá máluðum við á skilti, vöknuðum svo eldsnemma um morguninn (kl. 5 held ég) og fórum með skiltin niður á bryggju. Við þurftum nefnilega að negla þau á spýtur og vildum ekki taka sjensinn á að einhver vaknaði, þess vegna fórum við niður á bryggju. Hahahahaha... guð hvað við hlóum mikið. Síðan fórum við fyrir utan hverja kostningaskrifstofu og negldum niður skiltin þannig að fyrir utan skrifstofu Framsóknarflokksins var skilti sem á stóð "X-B fyrir brjóstabínur", Sjálfstæðisflokkinn: "X-D fyrir dásamlegar dísir", T-listann: "X-T fyrir tælandi tátur" og ég man ekki hvað stóð á S-lista skiltinu. Voru svo nokkuð fleiri flokkar með framboð? En mikið hrikalega fannst okkur þetta fyndið! Og flestir höfðu líka húmor fyrir þessu, ég frétti reyndar að einn flokkurinn hafði það ekki og tók skiltið strax niður. Það er svona fíflagangur sem gefur lífinu lit! :-)

Það var Helga sem sagði pólitískar veðurfréttir úr nafla Evrópu.

föstudagur, nóvember 09, 2007

Fíkn

Hæ, ég heiti Helga og ég er fíkill.

Ég er háð sjónvarpsþáttum og hef verið það í nokkur ár. Get reyndar einhvernvegin náð að trappa mig niður um sumartímann en svo hellist þetta yfir mann aftur. Nú orðið get ég varla beðið eftir að helgin komi svo ég geti dottið í það og horft á Survivor, Americas Next Top Model, Gray's Anatomy, Ugly Betty, Men in Trees, Beauty and the Geek og nú síðasta og stærsta fíknin; DEXTER! Ég eeeellllska Dexter! Er nokkuð til kynþokkafyllri raðmorðingi? Ef ég lendi einhverntíman í klóm raðmorðingja - pant þá fá Dexter! Sjitt... segi ég bara. Þetta eru snilldar þættir, frábært plott, vel skrifaðir og frábærir leikarar! Sá sem leikur Dexter lék líka David í "Six feet under". Ég horfði á þá annað slagið, en ekki meira en það.

Ég hefði aldrei átt að byrja á að horfa á Dexter! Eða... öllu heldur, ég hefði bara átt að bíða með það þar til um jólin. En nei, sjálfsstjórnin er ekki meiri en svo að ég gat ekki hamið mig og varð að horfa.

Það er sagt að fyrsta skrefið í átt að bata sé að gera sér grein fyrir fíkninni. Ég geri það en ætla sko ekkert að fara eitthvað að "laga" þetta. Ne-hei, ég er sko hæst ánægð með þessa fíkn. Verst að þurfa alltaf að bíða í heila viku eftir þáttunum. Það er frekar ömurlegt.

Á hvað horfið þið?

mánudagur, nóvember 05, 2007

Vika eitt. :-)

Jahérna, ég lifði af fyrstu vikuna þar sem ég er alein með strákana.
Ég er með góða geðheilsu.
Strákarnir eru heilir á húfi.
Þeir eru líka með ágæta geðheilsu!
Ég er búin að horfa á alla 1. seríuna af Dexter og alla þætti í 2. seríu sem búið er að sýna!
Enn með góða geðheilsu.

Palli er á Íslandi.
Held hann sé með ágæta geðheilsu... veit ekki annað.
Held hann ætti kannski að kasta inn eins og einni eða tveimur færslum hér á bloggið.

Ég er meira að segja búin að ná því að mæta í skólann á hverjum degi AMK 5 MÍNÚTUM FYRIR 8. Á hverjum degi, var ég búin að segja það? Það er reyndar ekki nema að hluta til mér að þakka, og að mestu strákunum að þakka því Marek er farinn að taka upp á því að láta vekjaraklukku hringja og vekja sig klukkan 6 á hverjum morgni - eins og Eyþór gerir - og svo þegar ég vakna rétt fyrir 7 er hann komin á fætur, búinn að borða morgunmat og er að horfa á teiknimyndir í sjónvarpinu. Og hann er jafnvel búinn að vekja Hinrik líka! Þannig að þeir eru aldeilis vel vakandi þegar við þurfum að fara út.
Eyþór hefur gert þetta í u.þ.b. 2 ár. Vaknar eldsnemma, borðar, klæðir sig og fer svo í tölvuna eða horfir á sjónvarpið. Honum finnst hann svo miklu betur vakandi þegar hann fer í skólann og ekki dottandi í tímum. Mér dettur ekki í hug að banna þetta, en ég set samt mörkin við kl. 6. Þ.e.a.s. þeir mega ekki fara að vakna fyrir klukkan 6 - nema þeir fari þá þeim mun fyrr að sofa á kvöldin!

Þetta minnir mig nú reyndar á það að í amk 2 ár var ég með auka vekjaraklukku sem hringdi alltaf kl. 4 á nóttinni því mér fannst SVO GOTT að slökkva á henni aftur, vitandi það að ég gæti sofið í amk 3 tíma til viðbótar! Er maður í lagi??