STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

laugardagur, september 29, 2007

Komið haust

Ég elska haustin! Þau eru æðisleg.
 • Ég elska haustlitina
 • Ég elska þegar laufin fjúka um allt
 • Ég elska fersku lyktina af frosti eldsnemma á morgnana (hún er nú reyndar ekki komin hér enn)
 • Ég elska líka hvað það verður dimmt á haustin
 • Ég elska líka alla framhaldsþættina sem ég get horft á á haustin. Þeir eru:
  • Grey's anatomy
  • Ugly Betty
  • Survivor
  • The Beauty and the Geek
  • Heroes
  • America's next top model
  • Lost
Já haustin eru góð!
Góða helgi... er farin að horfa á eitthvað.

mánudagur, september 24, 2007

Kleinubakstur án eftirlits

Við Regína bökuðum kleinur í gær - alveg einar og án alls eftirlits tengdamóður minnar. Hún var þó "innan seilingar" því við urðum auðvitað að senda henni sms þegar í ljós kom að sú uppskrift sem við vorum með var alveg ómöguleg. Regína var nefnilega með Lóu uppskrift en týndi henni, eða lagði hana frá sér á vitlausan stað og fann hana ekki aftur. Við notuðum því uppskrift úr Matreiðslubók Helgu Sigurðar. Bók sem er nauðsynleg á hverju heimili. Kannski ekki í Asíu... eða Afríku. Jah, nú þegar ég spái í það, þá er þetta eiginlega ekkert nauðsynleg eign á heimsmælikvarða!

Allavega, sú kleinuuppskrift var alls ekki nógu góð. Minnti mig bara á dönsku kleinurnar rétt fyrir jólin. Svo tengdó fékk sms sem hún svaraði um hæl, enda snögg að pikka inn, og við gerðum aðra uppskrift. Sú varð MIKLU betri - og ekki skemmdi nú að ég skellti slatta af kúmeni, svona þegar Regína sneri í mig baki.

Við enduðum á að hnoða 3 uppskriftir, ein HelgaSigurðar, hálf LóaMeðKúmeni og ein bara Lóa. Samtals tæplega 5 kíló.

Það var annars alveg dásamlegt veður á sunnudaginn og sem betur fer er Regína með garð og pall og nóg af stólum til að hvíla lúin bein á milli þess sem við hnoðuðum og snérum og steiktum.

Það er fyrirhuguð ferð til Póllands eftir tæplega mánuð með nokkrum hressum konum héðan úr sveitinni. Við ætlum til Szczecin sem er stæðsta borg í Póllandi sem styðst er í. Skilduð þið þetta. Þetta var ekkert smá erfið setning í fæðingu!
Þetta verður allavega alveg geðveik ferð. Það er ekki spurning!

Jæja, hef þetta bara stutt blogg að sinni. Ble

miðvikudagur, september 19, 2007

Alger gullfiskur!

Ég held maður sé að fara að tapa sér! Flestir kannast við hvað það er mikið að gera í fundastörfum á haustin. Ekki satt?
Jæja, ég er nú ekki mjög skipulögð manneskja, á ekki minnisbók til að skrifa hluti í því ég GLEYMI að kíkja í hana! En ég á frábæran síma! Í hann set ég alla merkisatburði sem ég þarf að muna sem og afmælisdaga... ja, þetta tvennt er eiginlega það sama!

Allavega. Ég var eitthvað að vandræðast með það um daginn að það væru tveir fundi á sama degi, á sama tíma. Báðir 20. sept, annar í bekknum hans Mareks, hinn í leikskólanum. Plús að það verður líka fundur hjá íslenskukennaranum sama dag.

10. sept ákvað ég að heimsækja Hafdísi... fer út úr húsi og hef það svo sterkt á tilfinninguna að ég eigi að vera einhverstaðar. Hringi í hana því hennar dóttir er á sama leikskóla og Hinrik. Enginn fundur þar um kvöldið. Hringi heim. Palli finnur engan miða á ísskápnum um fund. Fer yfir allt í huganum! Ekkert fundarboð þar! Svo ég fer bara í heimsókn.

Tveimur dögum seinna fattaði ég að það var fundur hjá bekknum hans Mareks!! Ég hafði stillt símann góða vitlaust! Vitlaus ég! Fegin að þurfa þó ekki að klóna mig þann tuttugasta!

Í gær hugsaði ég stíft að ég mætti alls ekki gleyma fundinum hjá íslenskukennararum. Og í leikskólanum um kvöldið. Hugsaði svo stíft um það að það fór að rjúka.
Minntist eitthvað á það við Hrund... eða Þórunni, man það ekki lengur, en það var leiðrétt. Fundurinn ekki fyrr en á fimmtudag! Hjúkkit! Þá er bara einn fundur á morgun, hugsaði ég í gær. Í dag komu Hrund, Steini og börn í kaffi og voru fram að kvöldmat. Urðu að rjúka út því Hrund þurfti á fund í grunnskólanum. Ég líka - kl. 19! Ég ákvað að vera mjög tímanleg, svo ég fengi örugglega bílastæði. Var líka langfyrst. Hringi í Þórunni. Hún ætlaði ekki - var búin að steingleyma fundinum. Klukkan var að verða 19 og enginn annar kominn. Samt var greinilega fólk inni á leikskólanum. Ég hringi í Hafdísi. Og nei nei, enginn fundur í kvöld. Hann er á morgun þann tuttugasta september. Úff... tveir fundir á morgun til að muna eftir, enginn í kvöld.

Ég fer heim og fæ SMS frá Hrund: fundurinn sem hún var að flýta sér á, átti að vera 17. september!

sunnudagur, september 16, 2007

Sveitaferð

Í dag fórum við í sveitaferð. Það var svona "Bændur bjóða heim" dagur og við völdum að skoða kúabú. Eins og við höfum ekki séð svoleiðis áður! En þetta var risastórt kúabú með tveimur mjaltarróbótum og fannst strákunum ansi spennandi að sjá þegar verið var að mjólka kýrnar. Marek fullyrti að hann hefði nú fundið hvar mjólkin er búin til!

Við fengum svo að smakka á ýmsum mjólkurvörum - þeim sem finnst svoleiðis gott á annað borð!

Annars er lítið að frétta af þessum herstöðvum. Allt við sinn vanagang. Strákarnir spila PlayStation allan daginn - þeir mega það ekki á virkum dögum.

Meira síðar.

þriðjudagur, september 11, 2007

Í dag er 11 september.

Manst þú hvar þú varst þegar flugvélarnar flugu á tvíburaturnana í New York?

Jón á Ósi, Gulli á Söndum, Steini á Reykjum og ég vorum allir á Arnarvatnsheiðinni á einhverju holti sem ég man ekkert hvað heitir. Þar vorum við í vegagerð en vorum stopp vegna þess að það þurfti að gera eitthvað við skurðgröfuna hans Gulla. Við vorum allir úti við, það var engin vél eða mótor í gangi en útvarpið í einum traktornum var í gangi og sæmilega hátt stillt. Svo heyrum við þegar Magnús R. Einarsson, mublan á Rás 2 "rýfur" útsendingu til að koma á framfæri þeim skilaboðum að farþegaflugvél hafi flogið á annan turninn. Jón var sá fyrsti af okkur sem sagði eitthvað um þetta en það var: "Sannið þið til strákar, þetta er ekki óhapp. Þetta er mjög líklega hryðjuverk, að eftir smá stund þá kemur önnur vél og flýgur á hinn turninn".
Við hinir fórum að hlægja að honum og gerðum grín að þessari vitleysu í honum. En hann stóð fastur á þessu.... sem reyndist svo rétt. Ca 10 mínútum seinna kom svo hin vélin á hinn turninn. Ótrúlegt.

Palli.

laugardagur, september 08, 2007

Kominn heim!

Já, ég held þið vitið um hvern ég er að tala! Það er rétt; skápurinn minn... ehemm OKKAR, er kominn heim og inn í stofu. Og þvílíkt sem hann var ógeðslegur maður! Vá! Þ.e.a.s. hann er auðvitað ógeðslega flottur en hann var svo hrikalega illa farinn af raka. Mikið af myglu á honum - í öllum litum nema rauð. Mest var af hvítri myglu.
En svona lítur hann út núna, inni í stofu. Það er búið að þrífa hann - reyndar ekki rúðurnar á þessari mynd - en það á eftir að olíubera hann.

Nokkuð flottur, er það ekki?
Takk Garðar, Steini og maðurinn sem var með Steina fyrir að hjálpa okkur að flytja hann og bera hann upp.

Strax eftir að skápurinn var kominn fórum við á haustfagnað hjá Íslendingafélaginu. Þar var grillað og leikir fyrir börnin. Fullt af fólki og mjög gaman. Ekki líka á hverjum degi sem maður fer eitthvert og strákarnir fara á fullt í leiki um leið!
Í kvöld verður svo meira fjör fyrir fullorðna fólkið og ætla ég að rölta... já nei, ég fer víst á bílnum því Palli rölti áðan... yfir á (eða niður eftir, eða eitthvað) Loftið þar sem íslendingafélagið hefur aðstöðu. Það er bara í þarnæstu götu við okkur. Palli verður eitthvað örlítið að spila í kvöld, og ekki vil ég nú missa af því. Hef ekki séð hann spila opinberlega í... hmmm... rúmt ár held ég bara!

Góða skemmtun til okkar!

fimmtudagur, september 06, 2007

Fúsaterta

Vegna gífurlegrar eftirspurnar - frá Evu Björk - þá hef ég ákveðið að uppljóstra uppskriftinni upphátt (Hahahaha) af brúntertunni sem ég baka við hvaða tækifæri sem gefst. Hún er annars kölluð Fúsaterta í minni fjölskyldu því mamma fékk uppskriftina hjá vinkonu sinni sem á mann sem er kallaður Fúsi og sjálfsagt hefur honum þótt kakan góð. Við skulum bara gera fastlega ráð fyrir því.

125 gr. smjörlíki
300 gr. sykur
2 egg ---------- hræra þetta þrennt VEL saman
250 gr. hveiti
1 tsk ger
1/2 tsk natron
1 tsk salt
4 msk kakó
2 1/2 dl mjólk

Bakað í 2 formum í 40 mín við 175, eða í einu smelluformi í aðeins lengri tíma (þar til hún er tilbúin) eða tvöföld uppskrift í skúffu, bakað þartil tilbúin.

_______________________________________________
Viðbót:
Hafdísarkrem:
Slatti af flórsykri
Dass af kakói,
tssssss af vatni

öllu hrært saman, smakkað til og smurt svo ríkulega á tertuna.
_____________________________________________

Svo einfalt er það nú!

Það sem er framundan hjá okkur; Sækja skápdjásnið á laugardaginn. Fara svo 2x á haustfagnað hjá íslendingafélaginu á laugardaginn, fyrst grill um daginn svo skemmtun um kvöldið. Grillveisla í skólanum á morgun. Var ég búin að minnast á að skápurinn verðmæti verður sóttur á laugardaginn? Æi, kannski maður kíki örstutt inn í antíkbúðina fyrst maður verður á staðnum á annað borð! Ég veit það ekki, en mér finnst einhvern veginn ég vera með antík og "flær" á heilanum! Ætli þetta sé ólæknanlegt? Ætli ég þurfi í nálastungumeðferð eða kannski í dáleiðslu? Skyldi ég vera með þráhyggju? Nei! við getum strax svarað þeirri spurningu neitandi! Breytum um umræðuefni... hvað er að frétta af mömmum ykkar???

sunnudagur, september 02, 2007

Antíkgóss og aðrir gullmolar

Já, eins og ég bloggaði í gær þá hafði ég hug á að kíkja aftur í antíkbúðina til að tékka aðeins á stofuskápnum. Við fórum þrjár skutlur í morgun; ég, Dísa og Sólrún. Ætluðum bara að vera örstutt!

Vá, hvað skápurinn var miklu flottari en mig minnti. Hér er smá mynd sem ég tók af honum í símanum mínum. Guði sé lof fyrir gaurinn (eða gelluna) sem fann upp myndavélasíma!!
Smellið á myndina til að sjá hana stærri. Myndin sýnir bara efri hlutann en það var svo hrikalega þröngt þarna að það var ekki hægt að taka mynd af honum öllum í einu. Skápurinn verður svo sóttur á laugardaginn og tekur bara við að skrúbba og þvo og þrífa enn betur!
Ég tók fleiri myndir þarna. Eiginlega bara af öllu dótinu, maður átti ekki til orð yfir allt það sem var til þarna - og af öllu magninu af köngulóarvef sem var þarna!

Við fórum amk 4 umferðir um allt og alltaf gátum við séð eitthvað hrikalega flott. Verst fannst mér allar ferlega flottu myndirnar sem voru þarna, á 50% afslætti, og ég ekki með nægilega stórt húsnæði fyrir þær allar! Stelpurnar keyptu sér alveg ýmislegt; myndir, kertastjaka, ljósakrónu, skálar, talnaband og margt fleira.

Á leiðinni heim komum við á tveimur öðrum loppumörkuðum. Aldrei að sleppa úr loppu!
Við vorum ekki komnar heim fyrr en kl. 14:30 - eða næstum 4 tímum eftir að við fórum um morguninn! Svona á að eyða degi!