STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

mánudagur, apríl 30, 2007

Vorveður


Ég ætla bara að segja ykkur það að það er VORVEÐUR, það er ekki einusinni komið sumar. Allavega sögðu strákarnir í skólanum mér það í dag. Þó það hafi verið bara 18°c í dag, var sólskin og við strákarnir skelltum okkur niður á strönd. Sjórinn er ennþá mjög kaldur en það er samt hægt að bíta á jaxlinn og vaða örlítið, eins og Hinrik gerði. Við stoppuðum ekki lengi þarna, en nógu samt til að borða nestið okkar og svona.

Svo skelltum við okkur bara til Regínu og sátum úti í garði hjá henni í dágóða stund.

Ég get ekki sagt að ættingjar og vinir hafi beinlínis stokkið upp til handa og fóta til að kommenta við Eurovision færslurnar mínar! Hvernig er þetta eiginlega? Fylgist þið ekki með Eurovision? Á ekkert að vera með í umræðunni?
Posted by Picasa

sunnudagur, apríl 29, 2007

Mezzoforte í Sønderborg.... 2. kafli

Þess er helst að geta í öðrum og seinni kafla tónleikasögu Mezzoforte í Sønderborg, að tónleikarnir voru HRIKALEGA skemmtilegir. Alveg hreint stórkostlegir. Eyþór, Jóhann og Gunnlaugur stóðu sig allir með stakri prýði ásamt hinum þremur hljóðfæraleikurunum sem ég man ekki hvað heita nema saxófónleikarinn, hann heitir Óskar Guðjónsson.
Og sérstaklega var gaman að spjalla við þá eftir tónleikana. Þar kom meðal annars fram að Jóhann langar mest af öllu til þess að kaupa af mér bláa Yamaha bassann minn, en hann keypti ég af Jóhanni árið 2000.... eða 2001, man það ekki alveg.

Á tónleikunum hitti ég Jens trommara sem ég spilaði með á einni æfingu með hljómsveitinni OLD SPICE nú í vetur, en hann bað mig um að spila með sér á einhverju giggi sem er þann 18. maí næstkomandi, akkúrat sama dag og Regina frænka er búin að bjóða okkur í fimmtugs afmælið sitt, ég á eftir að finna út leið til þess að tækla þetta allt saman. En Kim einhver, félagi Jens, er gítarleikari og bað Jens um að spila með sér þarna og spurði hann í leiðinni hvort hann (Jens) vissi um einhvern professional bassaleikara. Jens sagðist vita um einn og bað mig sem sagt um að spila. Þetta er líklega mesta áskorun sem ég hef lent í á mínu spilaferli vegna þess að:

1. Það verður EKKERT æft fyrir giggið; það er enginn tími til þess.

2. Ég hef ekki HÖGGMYND hvað á að spila þarna fyrir utan afmælissönginn og einhver 70' og 80' lög og þá mest rokk. Guð hvað ég er feginn að Hjalti Júl hefur kennt mér mikið af þessum rokk slögurum. Takk Hjalti minn :)

3. Ég á ekki bassamagnara en Jens ætlar að redda einhverjum kettlingi sem heyrist eitthvað í.
Sem sagt ÁKAFLEGA spennandi.
Eftir þetta fór ég sæll og glaður að sofa :-)
Takk fyrir mig.

laugardagur, apríl 28, 2007

Eurovision - 3.kafli

Jæja, loksins höfðum við okkur í að horfa á þriðja þáttinn í kynningu á Eurovision lögunum. Til að spara okkur tíma þá horfðum við á hann saman Eyþór og ég. Mér fannst þetta bara hinn besti þáttur og það er greinilegt að það er mikil fjölbreytni í lögum í ár. Hér koma svo stigin okkar:

 1. Malta. Mikið að gerast í myndbandinu... mikið um texta, held samt að þetta lag gæti ekki orðið neitt sérstaklega vinsælt í útvarpi. Ekkert slæmt lag samt, við Eyþór gefum bæði 3 stig.
 2. Andorra. Þetta lag gæti ég miklu frekar átt von á að heyra í útvarpi. Þessi hljómsveit minnir mig á... æi einhverja strákahljómsveit sem ég man ekki núna hverjir eru. En allavega fá þeir 4 stig frá mér en bara 1 stig frá Eyþóri.
 3. Ungverjaland. Eitt af uppáhaldslöndunum mínum í Eurovision. Og líka frábært lag, mér finnst með söngkonan með æðislega rödd. Ég gef þeim 5 stig – 6 ef ég mætti. Eyþór gefur bara 1 stig!
 4. Eistland. Iss, piss.. ekkert sérstakt lag! Ég gef því ekki nema 2 stig. Eyþór gefur líka 2 stig.
 5. Belgía. Hey, flott fönkað diskólag! Hver segir að Eurovision lög séu öll eins?? Mér finnst þetta skemmtilega hallærislegt og ég elska alltaf fönk. 4 stig. Eyþóri finnst þetta skásta lagið fram að þessu í kvöld og gefur því 5 stig.
 6. Slóvenía. Þetta finnst mér vera eitt besta lagið í keppninni (á reyndar eftir að heyra örfá lög, en finnst þetta samt) Mér finnst þetta æðislegt og gef því 6 stig án þess að blikna! Eyþór gefur 5 stig.
 7. Tyrkland. Hahaha... þetta minnir mig örlítið á “Shake it” sem Grikkinn Sakis söng um árið. Nema að mér finnst þetta aðeins efnismeira lag. Gef því samt bara 3 stig. Eyþór gefur 4 stig.
 8. Austurríki. Ég var ekki búin að heyra þetta áður. Mér finnst þetta flott lag og get alveg ímyndað mér það í útvarpi. Veit ekki hvort því gengur vel í eurovision en ég gef því 4 stig. Eyþór gefur því 5 stig.
 9. Lettland. Æi, hvað eru þeir að gera með þessa hallærislegu hatta á höfðinu?? Iss, piss... viðlagið er sæmilegt. Ég gef þeim bara 2 stig. Eyþór gefur bara 1 stig.

Þau lönd sem komast því áfram skv. okkar stigagjöf eru (Ekki í neinni annarri röð en þeirri að þau lönd sem fengu flest stig koma fyrst o.s.frv. ):

Helga (þau lönd sem fengu 5 og 4 stig frá mér):

 • Hvíta-Rússland
 • Ísland
 • Danmörk
 • Serbía
 • Ungverjaland
 • Slóvenía
 • Kýpur
 • Sviss
 • Moldóva
 • Holland
 • Andorra
 • Belgía
 • Austurríki (Of mörg lönd fengu 4 og 5 stig frá mér svo ég get ekki gert upp á milli)

Eyþór (Þau lönd sem fengu 5, 4 og 3 stig frá honum):

 • Belgía
 • Slóvenía
 • Austurríki
 • Kýpur
 • Ísland
 • Makedónía
 • Tyrkland
 • Hvíta Rússland
 • Moldóva
 • Holland
 • Danmörk
Jæja, hvað finnst ykkur? Eruði sammála okkur Eyþóri?

föstudagur, apríl 27, 2007

Gott veður maður!

Heitt, heitt, heitt... og sumarið bara rétt að byrja!
24° c þegar heitast var í dag. Sem betur fer er eitthvað svo mikið mistur að sólin hefur ekki skinið eins mikið og ef það væri heiðskýrt.

Ég keypti kubbaspilið í gær og við spiluðum það í garðinum heima hjá Ingu Lenu í gær og svo aftur í garðinum hjá Hrund í dag. Alveg hreint snilldarspil!

Prófverkefnið í skólanum byrjaði á miðvikudaginn. Við eigum að hanna forrit fyrir blóðbanka - voða gaman. Við fáum einhverjar 6 vikur fyrir þetta.

ahh... nú væri gott að leggja sig bara. Í hitanum sko!

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Mezzoforte í Sønderborg.

Titillinn segir ALLT sem segja þarf.

Það er núna á eftir, klukkan 20:00 að staðartíma, ÉG ER AÐ FARA Á TÓNLEIKA MEÐ MEZZOFORTE..... NNNÚÚÚNNNNAAAA HÉR Í SØNDERBORG. BRILLLLIANT.
Og þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á tónleika með þessari (einni af) minni uppáhalds hljómsveit.

Bleeeeeess,
Palli.

Prufa ùr sìma.


Eins og allir vita er Helga spilasjùk. Tjahh.... kannski ekki sjúk en hefur gaman af allskonar spilum. Hún fór út í stafrófsbúðina áðan og keypti kubbaspilið sem var spilað af miklu kappi á Klömbrum í fyrra svona fyrir þá sem muna.
Kveðja, Palli.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

American Idol

Hafiði fylgst með American Idol? Ég er auðvitað húkkt á þessum þáttum en þeir sem þekkja mig - eða bara kannast við mig - vita sjálfsagt að það er nóg að um raunveruleikaþátt sé að ræða og þá er ég húkkt.
Ég hef haldið með Lakishu frá upphafi, mér finnst hún bara æði en ég er núna eftir síðast þátt farin að halda meira með Jordin. Hún var svo góð í síðasta þætti að ég táraðist. Reyndar segir það kannski ekki mikið því ég tárast oft. Oft í roki. Og þegar ég hlæ. Og yfir The Bachelor. Nei, nei, það er reyndar ekki satt því "tárast" væri ekki nógu sterkt til að lýsa því. "Grenja" lýsir því betur. En allavega, ætla nú ekki að fara að tala um Bachelorinn hérna.
Af strákunum finnst mér Blake bestur. En Melinda Doolittle er best þegar maður horfir ekki á hana. Æi, hún er eitthvað farin að fara í mínar fínustu greyið!

Mér finnst eiginlega að Jordin ætti að vinna! Já, held það bara. Ég verð líka að segja að mér finnst einkennandi fyrir þessa þáttaröð hvað mér finnst allir söngvararnir vera góðir. Amk þeir sem eru komir í 7 manna hópinn.
En hvað finnst ykkur?

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Skrítið veður

Já, það er mjög skrítið veður í dag. 22 stiga hiti sá ég á einum útimæli við stórverslun, en nær alveg skýjað og mikið mistur í lofti. Eiginlega er ekki hægt að segja að það sé skýjað - bara mistur, s.s. mistrað!

Við erum að byrja á stóru verkefni á morgun. Þetta er prófverkefnið okkar og tekur um 6 vikur. Svo þurfum við að verja það og því næst er próf og eitthvað. Seinni tíma vandamál!

Asia vinkona í Póllandi er eitthvað að hugsa um að skreppa hingað um helgina - næstkomandi, held ég. Það yrði geðveikt gaman. Við förum svo til hennar í sumar og ég ætla svo aftur ein í brúðkaupið þeirra í byrjun ágúst. Spennandi.

Við fórum með hamstrana í gær, alla nema einn. Gæludýrabúðin vildi ekki taka við einum. Hann er nefnilega svoddan grey, pínulítill og hálfblindur því annað augað opnaðist aldrei. Gaurinn í búðinni sagði að hann gæti verið veikur og vildi ekki taka við honum en benti mér á að fara með hann til dýralæknis til að láta lóga honum.
Veggjalýsnar eru líka á undanhaldi. Eru ekki alveg horfnar en næstum því. Í nótt ætla ég að gera vísindalega talningu á stofni lúsanna. Verður það gert með því að setja teppalímband í ferning á dýnu í kojunni og í miðju ferningsins set ég hitapoka - því ég hef lesið að þær skynji líkamshitann og þannig viti þær þegar einhver er í rúminu. Þar fyrir utan verður sett teppalímband á öll önnur rúm sem sofið verður í í nótt og á morgun fer talning fram. Ég vona að þetta endi ekki eins og forsetakosningarnar í BNA þar sem telja þurfti einhvern slatta af atkvæðum aftur. Nei, ég ætla bara að telja einusinni og láta þar við sitja!

Hafið það gott.

sunnudagur, apríl 22, 2007

Eurovision - 2. kafli

Jæja, þá er annar þátturinn af fjórum búinn. Ég varð auðvitað að drífa mig að hlusta á lögin og mynda mér skoðun um þau áður en ég gat lesið bloggið hans Daníels sem annars bloggar alltaf um lögin.

 1. Albanía. Ok, byrjum á því að tala um það góða: myndatakan var á köflum fín! En þetta hlýtur að vera djók! Ég meina ég skellti allavega upp úr þegar ég sá dúddann sem syngur. Og svo annað hrós: Ég hef heyrt leiðinlegri lög... hmm... t.d. eins og lagið Primadonna frá Rússlandi fyrir nokkrum árum síðan. Gef þessu 1 stig. Eyþór gefur 0 stig.
 2. Danmörk. Altså, det er faktiskt en rigtig go’ sang! Mitt uppáhaldslag í dönsku keppninni og gaman að heyra að Peter er svona mikill Eurovision fan. 5 stig frá mér! Eyþór gefur 3 stig.
 3. Króatía. Æ, æ... eitt af mínum uppáhaldslöndum í Eurovision. Ok, það góða fyrst: það er sungið að hluta til á króatísku (sem er geðveikt flott tungumál). Ég get bara ekki sagt neitt meira gott um þetta lag... Það fær 1 stig fyrir króatískuna! Eyþór gefur 0 stig.
 4. Pólland. Mér finnst þetta enn vera skrítið lag en samt ekki eins slæmt og þegar ég heyrði það fyrst. Gef því 3 stig. Eyþór gefur 3 stig.
 5. Serbía. Ég var heillengi að átta mig á því hvort þetta væri karl eða kona sem væri að syngja. En mér finnst þetta flott lag... minnir mig á Lane Moja sem var náttúrlega ógeðslega flott lag... Hmm... gef þessu 4 stig og eitt stig til viðbótar fyrir tungumálið. Semsagt 5 stig. Eyþór gefur ekki nema 1 stig.
 6. Tékkland. Nei, nei, nei ekki minn tebolli! 0 stig frá mér! Eyþór gefur 2 stig.
 7. Portúgal. Ég hef ekki nema einu sinni fílað lag frá Portúgal, og það er ekkert að breytast hér. 0 stig. Eyþór gefur 0 stig.
 8. Makedónía. Þetta er svona allt-í-lagi lag. Hvorki fugl né fiskur. En ég tek eftir því að eitthvað hefur verið sparað til við efniskostnað á söngkonuna. Gef þessu 2 stig. Eyþór gefur 4 stig.
 9. Noregur. Ágætt lag. Vonandi verður það nógu kraftmikið á sviðinu. Flott kjólaskiptingin! Gef þessu samt bara 3 stig. Eyþór gefur 3 stig.

Við Eyþór erum annars meira sammála þessa vikuna heldur en hina. Nú erum við sammála um Pólland, Portúgal og Noreg.
Hafiði annars tekið eftir því að þegar norðurlandaþjóð er með lag, þá er talað við einhvert fólk og takið eftir sænska karlinum. Hann er nefnilega með alveg eins augu og hún Charlotte Perrelli.

En jæja, komið nú með ykkar stig... þið hljótið að hafa skrifað þau niður samviskusamlega!

föstudagur, apríl 20, 2007

Tískusagan

Ég náði í myndbandsbrot í gær sem var af árshátíð sem haldin var í Laugarbakkaskóla 1986! Ég var þá.... hmmm... 14 ára og var kynnir. Ég auðvitað sýndi strákunum aðeins, við nenntum nú ekkert að horfa á allt dótið enda mynd- og hljóðgæðin aðeins lakari en við eigum að venjast.

Allavega. Nú í morgun vorum við inni í eldhúsi að borða morgunmat þegar Hinrik sagði:

- Mamma, myndin sem var af þig sem þú varst lítil...?
- Já?
(Sagt með mikilum umhyggjutón) - Var það ekki skemmtilegt fyrir þig?
- Jú.
Örstutt þögn, svo sagt með festu:
- Ekki fyrir mig!

Hvað meinar hann? Fannst honum pínlegt að horfa á móður sína á einu besta ári tískusögunnar, íklæddri einhverju bláu, sennilega ofsalega síðri skyrtu, með breitt svart belti um sig miðja. Ekki nóg með það heldur var hárgreiðslan óaðfinnanleg, vel greitt aftur í hliðum, örlítill brúskur upp að ofan, toppurinn til hliðar og svo voru axlasíðir eyrnalokkar til að kóróna allt saman! Nei, nei, toppurinn hlýtur að vera að ég sá glitta í appelsínugult pils undir þessu sem virðist vera ofsalega síð skyrta! Yndislegt! :-)Hahahahahahaha... við nánari skoðun sé ég að mér hefur greinilega fundist vanta eitthvað upp á fylgihlutina svo ég hef bætt við bláum borða í hárið (!!!) og perluhálsfesti! Ég veit ekki á hvaða lyfjum ég hef verið (nei ég er ekki að tala um klæðnaðinn hér) því ég man ekki rassgat eftir þessu. Ekki bara lúkkinu heldur atriðunum á árshátíðinni eða nokkru öðru! Merkilegt!

Jæja, þetta var nú aldeilis skemmtilegt! Látið ykkur nú hlakka til næsta Eurovision bloggs! :-)
Posted by Picasa

þriðjudagur, apríl 17, 2007

Eurovision - 1. kafli

Já, maður tapar aldeilis áttum hér í nafla Evrópu þar sem spekingaþáttur norðurlandanna fór fram á föstudaginn var og hún litla ég var bara að hugsa um flóamarkað! Ja, hvað er að verða um mann?

Sem betur fer er hægt að horfa á þáttinn á RÚV þannig að ég get verið með í umræðunni... ehemm... já eða einræðunni. Reyndar horfði Eyþór á þáttinn líka og gaf öllum lögunum stig svo við getum allavega haldið uppi samtali um lögin! Hér koma þau svo:
 1. Búlgaría. Æi mér finnst þetta hálfgert prump. Mér finnst undirspilið flott en söngurinn er svoddan endurtekning að það hálfa væri nóg. Ég gæfi því 2 stig. Eyþór gefur 3 stig.
 2. Ísrael. LEIÐINLEGT. Fátt annað um það að segja. 0 stig! Eyþór gefur 1 stig.
 3. Kýpur. Ágætt lag. Gæti samt fljótlega orðið leiðinlegt vegna þess að það eru svo miklar endurtekningar í því. Eða ekki. Gef því 4 stig. Eyþór gefur 4 stig.
 4. Hvíta Rússland. Flott lag, sætur söngvari og geðveikislega flott myndband. Hmm... 5 stig. Eyþór gefur 3 stig.
 5. Ísland. Já, ég hef sagt það áður að það var besta lagið sem vann undankeppnina, og ef eitthvað er þá finnst mér það enn flottara en áður. Eyþór gefur 4 stig.
 6. Georgía. Við fyrstu tóna virtist þetta vera ágætislag... en nei... það er of mikil endurtekning og æi... eitthvað leiðinlegt. En flott landslag í myndbandinu. Usssss... 2 stig. Eyþór gefur 3 stig.
 7. Svartfjallaland. Sæmilegt lag... ekkert sérstakt. 1 stig. Eyþór gefur 2 stig.
 8. Sviss. Mér finnst þetta flott lag með flottu viðlagi sem auðvelt er að fá á heilann. Og ég býst sterklega við miklu showi á sviðinu um kvöldið. 4 stig. Eyþór gefur 2 stig.
 9. Moldóva. Mér finnst lagið flott enda minnir það mig á Evanessence. Gef því hiklaust 4 stig. Eyþór gefur 3 stig.
 10. Holland. Ég hélt að þetta lag yrði sungið á ensku!! Best að tékka á netinu... júbb... ég get ekki annað skilið á www.esctoday.com en að lagið verði sungið á ensku. En hvað um það. Mér fannst það flott á hollensku – sem er mjög óvanalegt því hollenska er eitt það ljótasta tungumál sem ég veit um en mér finnst lagið enn flottara á ensku. Það fær samt bara 4 stig. Eyþór gefur 3 stig.
Svo við Eyþór erum bara sammála um Kýpur. Við teljum svo saman eftir að það er búið að kynna öll lögin sem taka þátt í undankeppninni hvaða lög við höldum að komist áfram í aðalkeppnina.
Gaman líka að lesa hvað Daníel hefur að segja um Eurovision. Ég passaði mig samt á að lesa hans dóm eftir að ég hlustaði á lögin og myndaði mér skoðun um þau. Það er alltaf skemmtilegra.

mánudagur, apríl 16, 2007

Aldeilis fín helgi

Olga, Baldur og co fara á morgun... og þetta er ekki sagt með feginsröddu! Alls ekki því það er búið að vera svo gaman að hafa þau.
Við erum búin að finna froska inni í skóginum, búin að fara niður að strönd og vaða örlítið í sjónum. Í gær fórum við út að borða á mongólska veitingastaðnum sem er bara snilld. Já og ekki má gleyma að við Olga fórum í "örstuttan" verslunarleiðangur á laugardaginn. Við byrjuðum á að keyra Palla til Padborg en hann átti að mæta í vinnu kl. 9. Eins gott líka því þá gátum við verið mættar á flóamarkaðinn fyrir klukkan 10! Og þar mætti okkur aldeilis skrautleg sýn. Það var eins og við værum mættar í Gamlingjaréttir! Við vorum laaaang yngstar - og fallegastar - en restin var eins og það hefði verið farið í vettvangsferð af einhverju elliheimili. Múgurinn var æstur þegar klukkan var að nálgast 10 og nokkrum mínútum fyrir kom einhver karl út sem minnti mann sterklega á Samúel Örn íþróttafréttaritara, og talaði hann við lýðinn. Á slaginu kl. 10 lét hann reipið falla og þá var sko um að gera að reyna að halda lífi. Olga datt og var einhver gömul kerling með göngugrind sem spólaði yfir hana og er hún enn með skófarið á bakinu. Nei, kannski ekki alveg, en hefði samt passað vel við!

Nú, við urðum auðvitað að koma upp með einhverja áætlun um hvernig við ætluðum að haga okkur þarna inni svo við yrðum ekki af einhverju góssi. Olga vildi helst að við værum báðar með dómaraflautur til að flauta í ef við sæum eitthvað bitastætt en það var of seint að hugsa um það.

Nú var um að gera að hlaupa inn, maður gerði eins og hinir ellismellirnir sem kunnu aðferðina, notaði olnbogana til að þoka sér áfram. Við vorum snöggar að sirka út hvar leirtauið var staðsett, enda báðar með gott nef fyrir svoleiðis. Á leiðinni þangað sáum við 2 geðveikt flottar smáhlutahillur, eða setjaraskúffur eins og ég held það heiti, og Olga ákvað að grípa aðra þeirra strax. Eins gott því um 10 mínútum síðar var hin farin! Hún var eins og kýr nýsloppin út að vori... nei, nei, svo slæm var hún ekki, en ég vil nú þó monta mig á sérstaklegri staðfestu og sjálfstjórn því ég keypti ekki matardiska frá Villeroy & Boch, þó að ég sé með merkjasnobb og það sé það flottasta!

Úti fyrir voru húsgögn og þar var líka ógeðslega flott, stór kista til sölu. Ofan á henni sat kona sem fastast og leit hún út fyrir að vera tilbúin til að verja kistuna með kjafti og klóm. Við vitum ekki eftir hverju hún var að bíða en hún allavega ætlaði að kaupa kistufjandann.

Eftir nokkra flotta hluti sem fengu að koma með okkur heim fórum við til Flensborgar og vorum þar alveg til kl. 20:30. Tekur því varla að skrifa nokkuð um það því það myndi bara fölna miðað við þennan flóamarkað sem við fórum á.

Myndir frá flóamarkaðshlutunum eru komnar inn í myndaalbúm.
Ó, og já, það var u.þ.b. 25 gráðu hiti í dag - bara að segja ykkur það!

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Gestir

Olga, Baldur og co eru í heimsókn. Þau komu á miðvikudaginn. Við ætlum í Legoland á morgun og svo ætlum við konurnar... aðeins... bara pínu að versla á laugardaginn. Meira um það og fleira seinna.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Páskar.

Gleðilega páska!

Við tókum forskot á sæluna og borðuðum páskamatinn í gær, hangikjöt og meððí. Og svo fengum við íslensk páskaegg í dag! Nammigott!

Við Lóa og Helga fórum AÐEINS á rúntinn í gær. Ætluðum aðeins að líkja á flóamarkað. Og þar komumst við aldeilis í feitt. Reyndar var annar staðurinn sem við fórum á Antíkbúð en hitt var markaður. Á markaðinum var hægt að fá allt frá nærbuxum og þvagflösku upp í húsgögn og matarstell! Verst var að þetta var frekar dýrt - svona miðað við flóamarkað. Ég sá þarna geðveikan stól sem mig langaði í. Hann hefði verið flottur á svalirnar maður! En hann átti að kosta 1200 DKr og svo var þarna gömul fiðla í harðri tösku með tveimur bogum sem mig langaði líka mjög mikið í en hún átti að kosta 1400 kr. En þar sem mig VANTAR hvorugt, var þetta ekki keypt. Ég hlýt að finna eitthvað ódýrara í sumar. En annars keypti ég kertastjaka með gleri - sem því miður brotnaði stuttu eftir að við komum heim (Marek varð alveg miður sín því hann vorkenndi mér svo að þurfa að henda því sem ég var nýbúin að kaupa), vínrekki - sem verður sennilega alltaf hálftómur og kleinuspaði úr áli. Nú getur maður farið út í kleinuframleiðslu!

En eruð þið ekkert farin að sakna Eurovisionbloggs? Eigum við að tala oftar um veðrið? Eða á ég að skrifa meira um flóamarkaði? Skoðið þið myndirnar okkar? Viljiði kannski fleiri bílaupplýsingar frá Palla? Látið skoðanir ykkar í ljós, endilega!

föstudagur, apríl 06, 2007

Kleinur í dýragarði

Kleinugerðin tókst með afbrigðum vel. Við Regína erum alveg hreint snillingar í að steikja kleinur og við sáum vel að Lóa hefur engu gleymt! Kleinurnar voru svo vel þegnar þegar við fórum í dýragarðinn í Hamborg í dag. Við enduðum svo daginn á grískum veitingastað - namm!

Set inn myndir.... skoðið!

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Tengdó í heimsókn

Jábbs, apríl bara að verða búinn! Ja, nei kannski ekki alveg, en mikið djö sem tíminn líður hratt!

Lóa tengdó (þetta er s.s. Helga sem skrifar) og Helga Rún komu í heimsókn á sunnudaginn síðasta. Palli keyrði Eyþór til Köben sama dag og tók þær með í bakaleiðinni.
Það er búið að bardúsa ýmislegt með þeim, þó aðalega í Þýskalandi! Við fórum öll, nema Palli sem var að vinna, til Flensborgar á mánudaginn í skoðunar/verslunarleiðangur. Ég fór svo aftur ein þangað daginn eftir til að fara í klippingu en klipping og litur kostar þar á einni stofunni 2148 krónur hvorki meira né minna! Það var að vísu tilboð á þriðjudegi þar sem litur var á hálfvirði. En hér í DK myndi ég borga a.m.k. 6 - 7 þúsund krónum meira svo það borgar sig alveg að keyra þarna niður eftir.
Palli fór með alla strolluna niður í miðbæ hér í Sønderborg í gær á meðan ég var í klippingu.
Í dag var svo farið enn einu sinni til Flensborgar. Nú var Lóa búin að taka bíl á leigu svo við komumst öll niðureftir. Ástæðan var að á mánudaginn sáum við ferðatívolí sem við þurftum endilega að kanna betur.
Það opnaði svo víst ekki fyrr en kl. 14 svo einhvernvegin urðum við að drepa tímann, en við vorum mætt rétt fyrir hádegi. Það var ákveðið að fara að fá okkur að borða og varð ítalskur veitingastaður fyrir valinu. Hrikalega góður matur! Þá passaði fínt að fara í tívolíið. Það eru komnar inn myndir frá þessum dögum. Endilega skoðið bara.

Annars er svo næst á dagskrá að á morgun á Lóa afmæli og hún ætlaði að bjóða Regínu og fjölskyldu í kaffi. En í gær, eftir matinn, fórum við að ræða kleinugerð og það var ákveðið að prófa að steikja kleinur í dag, heima hjá Regínu. Við förum því bara með afmæliskökurnar með okkur til Regínu og ef vel tekst til með kleinurnar þá verða þær líka í kaffinu. Geðveikt!
Á föstudaginn förum við aftur til Þýskalands, nú til Hamborgar til að skoða dýragarðinn þar.

Á laugardaginn hef ég augastað á tveimur flóamörkuðum! Oh, það er bara langt síðan ég hef farið á flóamarkað... einhverjar tvær, þrjár vikur bara!