STOP THE TRAFFIK

Powered by Blogger

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Handboltinn... að leikslokum

Jæja, hvað ætli það bloggi margir um handboltann í kvöld? Örugglega einhverjir tveir eða þrír.

En vá hvað þetta var spennandi og skemmtilegur leikur! Ég hélt á tímabili að ég þyrfti áfallahjálp. Við Eyþór ætluðum að fara og horfa á leikinn með Íslendingafélaginu en ég fékk ekki barnapíu (leitaði reyndar ekki mikið) svo við horfðum bara á hann hér heima, ég og strákarnir. Þeir voru hæstánægðir með að fá snakk og nammi svona á virku kvöldi og sátu og horfðu á. Urðu svo ferlega spenntir yfir þessu öllu. Þjóðerniskenndin blússaði upp - nema hjá Hinrik. Hann hélt staðfastur með Dönum! Í hvert sinn sem þessir rauðu karlar hlupu eitthvert hvatt hann þá áfram, öskraði svo YES þegar þeir skoruðu en greip um höfuð sér ef Íslendingar skoruðu og stundi "Ég trúi þessu ekki". Í hálfleik var hann sendur af velli - í háttinn!
Marek neitaði að fara að sofa fyrr en hann vissi hverjir ynnu. Ég var komin með svo hraðan hjartslátt að ég íhugaði að hætta að horfa. Sem betur fer - og líka því miður - gat ég ekki haft lýsingu á leiknum á netinu um leið og við horfðum á leikinn. Það hefði kannski æst mann enn meira upp!

Annars rétt hljóp ég inn í búð Hjálpræðishersins í dag. Ætlaði bara rétt að kíkja, svo langt síðan ég fór þangað síðast. Málið var að mig langar til að kaupa lítið borð fyrir strákana inn í herbergi til að leika sér við. Það fyrsta sem ég sé er matar og kaffistell sem er til sýnis í glugganum. Ég sem er haldin ólæknandi matar- og kaffistellsfíkn á svo háu stigi að það ætti eiginlega að kalla mig Stellu, hljóp þangað til að skoða. Og ég lét ekki þar við sitja heldur tók ég líka myndir af því. Þarna var s.s. 12 manna stell, með ýmsum skálum, kökudiskum, kaffikönnu og öllu tilheyrandi fyrir... já og haldið ykkur nú... tæplega 3000 kr íslenskar! Ég keypti það ekki.
Sá svo eftir því þegar ég var komin heim. Fór aftur í kvöld, eftir lokun. Bara aðeins að tékka. Alveg ákveðin í að ef stellið væri enn í glugganum þá væri það merki frá Guði um að ég ætti að kaupa það. Það var farið. Ég átti greinilega ekki að kaupa það.
Ég get alls ekki tengt símann minn við fartölvuna til að setja myndirnar inn. Verð sennilega að gera það seinna - en þeirra tími á netinu mun koma.

Verð að fara að læra!

mánudagur, janúar 29, 2007

Handboltinn

Mér hefur fundist ömurlegt að geta ekki fylgst með íslenska liðinu í HM í Handbolta öðruvísi en að lesa um gengi þess á mbl.is. Það er ekki hægt að horfa á leikina á netinu nema maður sé á Íslandi og ég hef ekki rekist á einn einasta leik liðsins í dönsku sjónvarpi. Ég var því mjööögg glöð þegar ég las að Ísland muni leika á móti Dönum á morgun því þá er það pottþétt sýnt í sjónvarpinu.

Verst er að leikurinn er í Hamborg og það er svooooo stutt þangað héðan frá okkur. Okkur Eyþóri langar svo mikið til að fara á leikinn, en það verður varla neitt úr því. Ekki nema svo ólíklega vilji til að einhver hringi í okkur, segist vera með far til Hamborgar, miða á leikinn til sölu og helst pössun fyrir hina strákana!

ÁFRAM ÍSLAND!

sunnudagur, janúar 28, 2007

Góður dagur maður!

Við áttum alveg frábæran dag í gær.
Hann byrjaði bjartur og fagur þar sem sólin skein sem aldrei fyrr. Við Eyþór skelltum okkur á flóamarkaði (tvo) þar sem kenndi margra grasa. Við keyptum safapressuvél, járn til að slökkva á kertum, skeiðar og svona grænmetis járn - svona til að saxa niður krydd, lauk eða eitthvað svoleiðs. En það var sko fullllllltttt af hlutum sem mig langaði í. T.d. 12 manna matar- og kaffistell með hinum ýmsu fylgihlutum s.s. alls konar köku/matardiskum og súputarínu. Málið var bara að það vantaði alla kaffibollana í það. Ég spurði ekki einu sinni hvað það átti að kosta!

Þegar við komum svo heim, var Palli búinn að gera hina strákana tilbúna til að fara út á skauta. Eva hafði hringt um morguninn og boðið okkur með sér á skauta en það er útiskautasvell hér niður við sjóinn. Það var ferlega gaman og ég er alveg hissa á að við hefðum ekki verið búin að fara þangað fyrr, sérstaklega þar sem það kostaði ekkert annað en leiga á skautum. Hrund kom líka með eina af sínum stelpum og tvær auka stelpur. Á eftir fór öll hersingin heim til Hrundar í kaffi.

Palli fór í morgun með lest til Frederikshavn til að fara sem farþegi til Noregs því hann á eftir að fara svona ferðir þegar hann byrjar að vinna.

Það var mikil Eurovisionveisla fyrir auga og eyru hér um helgina. Á föstudagskvöld var fyrra undanúrslitakvöld af tveimur hér í Danmörku. Af 8 lögum fannst mér bara 2 sæmileg. Það er hægt að horfa á keppnina inni á www.dr.dk. Í gær var svo íslenska keppnin. Mér fannst áberandi hvað lögin í gær voru betri en lögin í síðustu viku. Skrítið. Mitt uppáhaldslag var lagið sem Hera söng. Ekkert smá fallegt lag.

Læt þetta duga í bili. Er svo búin að setja inn myndir.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Hinrik er stríðinn

Já, ekki veit ég hvaðan Hinrik Elvar hefur stíðnina... eða jú, þetta er lýgi, ég veit alveg hvaðan hann hefur hana og ekki er hún í anda Víðdælinga!

Hann hefur unun af því að stríða Marek, enda verður að segja að hann fær yfirleitt góð viðbrögð við því. Nú í kvöld, þegar við sátum við matarborðið, var Marek að telja upphátt. Hann ætlaði að telja upp í óteljandi - sennilega til að athuga hvaða tala það er! Hann var kominn upp í "fjögurhundruð-og-þrjátíu-og sjö"... og svo framvegis þegar Hinrik byrjaði að telja líka, með augun alveg fast skorðuð á Marek til að kanna viðbrögðin. Og ekki var hann búinn að telja lengi "fjögurhundruð þrjátíu og fjögur, fjögurhundruð þrjátíu og tuttugu, fjögurhundruð þrjátíu og þrjátíu..." þegar Marek öskraði "Ohhhh... nú ruglaðist ég!!!"
Þá glotti Hinrik!

Við Palli áttum svo bágt með okkur að tryllast ekki úr hlátri yfir þessu öllu - þ.e. yfir því hvernig Hinrik lét - ekki yfir því að það var verið að stríða Marek.

Þetta endaði með því að Marek fann sjálfsagt óendanleikann, hann taldi upp í 500 í huganum og svo var ekki minnst á tölur eftir það.

mánudagur, janúar 22, 2007

Veturinn kom.......


Ég get bara sagt ykkur það að það snjóaði hér í Sønderborg í morgun eins og myndin hér ber með sér. Það voru skaflar og þæfingur út um allt og ég var nú bara hissa að sjá þetta. Bjóst ekki við því að þetta gæti gerst hér. Hér getið þið svo séð veðurspána fyrir vikuna í Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi. En myndin er tekin núna í morgunsárið, um klukkan 08:15 svona ca. Ef horft er VEL á myndina má sjá smá snjórönd lengst til hægri á framrúðunni séð frá okkur.

Ég ætlaði að leggja af stað til Frederikshavn nú í morgunsárið á merinni (Almerunni sko) til að hitta konu sem stjórnar þar flutningafyrirtæki einhverju. Það fyrirtæki gerir út bíla og vagna (trailera) sem aka héðan frá Suðurjótlandi norður til Noregs og Svíþjóðar og til baka. Það vantar víst fólk í þessa keyrslu og er víst ágætlega borgað. En fyrst verð ég að fara með merina á verkstæði til að láta laga rúðuþurrkubúnaðinn á henni. Þurrkan vinstramegin á það til að hætta bara að þurrka og stoppa einhverstaðar á færsluferlinu. Helvítis japanska drasl. Og hverjum er ekki sama :)

Palli.

sunnudagur, janúar 21, 2007

Sammála....

Já ágætu lesendur.... ég er sammála íslensku þjóðinni þegar ég segi að ég hefði ekki viljað sjá úrslitin fara öðruvísi í Söngvakeppni Sjónvarpsins nú í kvöld. Reyndar fannst mér "strengjasveitalagið" sem Heiða söng (eða var það ekki annars hún) bara nokkuð töff. Mjög flott að sjá og heyra strengjasveit á sviðinu og ekki tölvu búmm tiss búmm tiss trommuslátt eða lélegar eftirlíkingar af Stradivarius fiðlu úr Roland ABCD 1234 eða hvað þau nú heita þessi "hljómborð" sem prangað er inn á okkur vesælu tónlistarmennina. Mér finnst lagið sem Matti, Pétur og Einar sungu og spiluðu áberandi best og er eins og áður sagði, ánægður með þetta allt saman.
Hvað fannst þér?

Palli.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Blóðgjafir

Við Eyþór fórum á sjúkrahúsið í dag í þeim tilgangi að gefa blóð. Þ.e.a.s. ég ætlaði að gefa blóð, hann ætlaði að horfa á. Við urðum reyndar frá að hverfa í fyrstu því það var svo löng bið og við áttum eftir að sækja Hinrik á leikskólann. En við mættum bara tvíefld aftur. Ég þurfti að fylla út allskonar form því þetta er í fyrsta sinn sem ég gef blóð hér í Dk og svo tók við enn meiri bið. Því næst var mér vísað inn í lítið herbergi þar sem átti að taka úr mér blóðprufur. Eyþór fékk að horfa á og meiddi sig alveg heilmikið að því er mér sýndist á grettunni á andlitinu á honum! En honum til mikillar ánægju fékk hann súkkulaði og gúmmíarmband. En hann var ekki par glaður þegar ég sagði honum að ég hefði líka fengið súkkulaði og armband og að auki kók, penna, pinna til að festa í föt og límmiða! Nú hugsar hann sér gott til glóðarinnar að verða 18 svo hann geti gefið blóð og fengið fullt af fríum hlutum!
Nú er næsta skref að bíða eftir símhringingu um hvort ég sé álitlegur blóðgjafi eða ekki.

Gaman að þessu!

mánudagur, janúar 15, 2007

hitt og þetta

Halló spalló.
Best að reyna að blogga eitthvað. Það var þetta með rauðvínsdrykkjuna mína. Það hefur ekkert gengið með þessa auknu drykkju sem átti að eiga sér stað á heimilinu! Þar sem drykkjan átti að gerast af heilsufarsástæðum enda ég nú líklega með kransæðastíflu með lækni yfir mér sem segir: rauðvínsglas á dag hefði nú komið í veg fyrir þetta góða mín! Jæja...

Palli er á hljómsveitaræfingu með hljómsveitinni OLD SPICE. Gaman að því. Hann er s.s. í svona prufu því þá vantar bassaleikara. Svo fær hann líka að vita á morgun með eina vinnu sem hann hefur augastað á. Krossa fingur og tær svo hann fái hana! Reyndar yrði hann þá geðveikt mikið í burtu, kæmi bara heim um helgar skilst mér - en kannski eru það ýkjur, en allavega, ég hlýt að lifa það af.

Nú fer að líða að því að Eurovision skelli á - já já ég veit að það er samt nokkrir mánuðir í það! Keppnin verður 10. og 12. maí en mig langaði til að benda á skemmtilega geisladiska sem hægt er að kaupa sér. Þetta eru diskar með spurningaleik tengda Eurovision. Maður einfaldlega skellir disknum í spilarann og allir þátttakendur sitja með blað og blýant og skrifa niður svörin. Á disknum eru svo spiluð lagabrot (eða lögin í fullri lengd) og spurningin er birt á skjánum á meðan. Hvor diskur er um klukkutími og já... þetta er mjög skemmtilegur leikur. Hér er hægt að panta diskinn (frá Svíþjóð).

Annars er lítið að frétta. Allt við sinn vanagang. Jájá... þaheldénú!

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Hvurt þó í logandi....!!!!


Ég fór áðan í T.Hansen, sem er einhverskonar Bílanaustverslun Danmerkur nema bara frekar mikið stærri að umsvifi. Þar inni keypti ég mér þennan afbragðs felgulykil. En það sem ég er mest hissa á er verðlagningin..... Á ÍSLANDI!!! Þessi felgulykill kostar 29 krónur hér í fanmörku (ca 364 krónur íslenskar) en á tilboði hjá Bílanaust kostar alveg eins felgulykill 995 krónur ÍSLENSKAR. Þetta er auðvitað ekki í lagi.

Ég fór í atvinnuviðtal í gær til manns sem heitir Karsten Hansen. Hann er einhvurskonar yfirmaður, eða starfsmannastjóri hjá fyrirtækinu Haderslev Busselskab. Það er fyrirtæki sem sér um fólksflurninga í rútum (en ekki hvað) um allt Suðurjótland. Ég var nú ekki ráðinn á staðnum vegna þess að ég er ekki nógu góður í dönskunni ennþá.

En svo fór ég a sækja Marek í skólann og Hinrik í leikskólann núna áðan. Hinrik vildi endilega fá mig til að taka mynd af sér af því að hann sá að myndavélin var með í bílnum. Og þetta er útkoman.
Myndin er ekki svona óskýr úr myndavélinni heldur var ég að "breyta" henni í Picasa2 frá Google.

Takk að sinni og góðar stundir.
Palli.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Fallin....!

Jah, ég get ekki sagt annað en að ég sökki feitt í heitum! Er kolfallin á 3. janúar-heitinu mínu sem ég strendgi í síðustu viku um að drekka glas af rauðvíni á hverjum degi. Það entist bara í 3 daga! Usss! Ekki gott! Ég fattaði það bara í gærkveldi að ég hefði bara algerlega gleymt þessu! Ætli það sé gott að bæta fyrir það með því að drekka tvö glös á dag næstu þrjá daga?

Ég strengi því hér með heit um að standa við hitt heitið sem þó er hálf fallið ef svo má heita!

helga

sunnudagur, janúar 07, 2007

Heimsókn í febrúar

Ég er búin að panta ferð fyrir mig og strákana til Íslands í vetrarfríinu sem verður þriðju vikuna í febrúar. Sem minnir mig á það að ég átti eftir að fullvissa mig um að ég væri líka í fríi þessa viku.... júbb... hjúkkit!

Á föstudaginn fór ég eftir kvöldmatinn til Ingu Lenu og Hjalta til þess að ná í vatn því ég þoldi ekki við mínútunni lengur án þess að þvo mér um hendurnar (eftir matarstúss og svoleiðis). Ég fór með tvær stórar flöskur, önnur fyrir drykkjarvatn sem færi inn í ískáp og hin fyrir þvottavatn, hugsaði ekkert um það hvernig við færum að því að sturta niður í klósettinu. Hinrik kom með mér og við stoppuðum í ca klukkutíma hjá þeim. Á leiðinni heim þurftum við að stoppa í sjoppu til að kaupa meiri mjólk og í þann veginn sem ég var að setjast inn í bíl hringdi Palli til að segja mér að vatnið væri komið!! En það var allavega gaman að hitta Ingu og Hjalta - eins og venjulega!

Ég horfði aftur á áramótaskaupið í gær. Mér finnst það bara ferlega gott. Mér finnst t.d. hrikalega fyndin "staur-stelpan", Jón Grarr sem fréttamaður og svo þegar útvarpsstjórinn talaði við þjóðina um að vera ekki að gagnrýna áramótaskaupið! Það fannst mér hrikalega góður punktur! Og Gísli á Uppsölum sem vildi fá flatskjá! Hahahahahahahaha.........

föstudagur, janúar 05, 2007

Allt komið í gang aftur.

Það er allt að komast í sínar fyrri skorður eftir jólaaslöppun, skólarnir byrjuðu í gær og það er gott að hafa bara tveggja daga viku og komast svo í helgarfrí! Ég mæli með að fjöldi virkra daga í hverri viku verði endurskoðaður! Tveir til þrír eru alveg nóg.

Það er allt vatnslaust hér í blokkinni. Fyrst héldum við að það væri hjá okkur, að við hefðum kannski gleymt að borga einhvern reikning, en það bara stóðst ekki. Palli fór yfir til Bjørns nágranna til að athuga hvort eins væri komið með hann. Ja... hann var allavega ekki í eins ásigkomulagi og Palli þar sem hann sat þarna inni ásamt kunningja sínum, í hnausþykku reykjarkófi og drakk bjór! Palli stoppaði þarna inni í ca 5 mínútur - ekki lengur, og hann varð að fara úr fötunum þegar hann kom yfir því það var svo vond lykt af þeim. Nú er hann algerlega allsber. Eða nei, hann fór víst bara úr peysunni.
En það var líka vatnslaust hjá Birni og líka hjá konu á neðstu hæðinni. Og enginn veit af hverju!
Verst ef við þurfum að keyra alla leið til Ingu og Hjalta í hvert sinn sem við þurfum á klósettið!

Það eru loksins komnar inn mydnir frá jólum og áramótum. Vessgú.
Helga.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Áramótaheit

Ég er eiginlega algerlega á móti áramótaheitum. Mér finnst engin ástæða til þess að miða eitthvað sérstaklega mikið við áramótin, frekar en 1. mars eða 13 október ef því er að skipta. Þar fyrir utan þá held ég að fæstir standi við sín áramótaheit - en ég er kannski bara eitthvað of sjálfmiðuð þegar ég segi þetta.
Ég allavega hef ákveðið að strengja 3. janúarheit! Á þessum árstíma dynur mest á manni mikilvægi þess að vera mjór og flottur, helst hlaupandi úr um allar trissur og enginn maður er með mönnum nema hann borði grænmeti í gríð og erg og skoli því niður með svalandi vatni.
Mitt 3. janúarheit er, vegna þessa, líka um heilsuna. Ég ætla að byrja á kúr! Já, það er kominn tími til að tala í taumana og gera eitthvað í sínum málum. Ég ætla því, frá og með deginum í dag að drekka eitt til tvö rauðvínsglös Á HVERJUM DEGI.

Og til rökstuðnings þessum kúr, vísa ég á greinar á mbl.is Hófdrykkja getur dregið úr hættu af völdum háþrýstings (þessi kúr verður því fyrirbyggjandi) og Rauðvín dregur úr afleiðingum matgræðgi Skál - í hófi!

Segið mér svo, svona í alvöru, hverjir hafa strengt áramótaheit og hvernig gengur að halda það (þá á ég ekki við hverjir hafa haldið það í 3 heila daga - heldur meira svona fyrri reynsla!!)

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Sammála

Já, ég er sammála síðasta ræðumanni þegar ég segi Gleðilegt ár!
Héðan er allt gott að frétta, við bíðum spennt eftir Eyþóri sem kemur í kvöld. Marek er búinn að spyrja milljón sinnum hvort við eigum ekki að fara að sækja hann. Honum finnst víst tíminn eitthvað lengi að líða.
Við fjölskyldan skruppum til Billund um daginn að heimsækja Íslendinga - og Akureyringa sem búa þar. Þau heita Ágúst og Fanney og eiga þau tvo stráka. Það var mjög gaman að hitta þau og líka bara gaman að breyta aðeins um umhverfi. Strákarnir léku sér líka vel með þeirra strákum.
Þau sögðu okkur frá einum mjög merkilegum flóamarkaði sem er haldinn í þorpi þarna rétt hjá. Hann hefur marga ára hefð og er alltaf haldinn 2. síðasta föstudag í júlí. Í fyrra kom um 250.000 manns! Það eru þrjú stór tún lögð undir markaðinn, fólk tekur tjald-bása á leigu og svo eru önnur tún fyrir utan bæinn lögð undir bílastæði. Á markaðinum er hægt að fá næstum því allt - ALLT - sem hugurinn girnist hvort sem það er nýtt eða notað. Og svo er líka skemmtun fyrir börnin þarna því það eru sirkusar og leiktæki og svo koma bændur líka með húsdýr svo börnin geti skoðað.
Þetta hljómar eins og Paradís - ekki satt?
Í ár verður markaðurinn frá 19. - 21. júlí sem þýðir að ÉG verð alla vega ekki heima. Ég reikna með að Palli verði ekki heldur heima né heldur strákarnir! Og þannig verður það nú.

Hafið það gott!
hh

mánudagur, janúar 01, 2007

Ágætu jarðarbúar, gleðilegt ár.

Jú komið þið sæl. Palli hér.
Ég vil byrja á því að segja við ykkur gleðilegt ár og takk fyrir það gamla og hin gömlu.
Hér í Danmörku kom nýtt ár rétt eins og á Íslandi líklega. Hjalti og Inga Lena komu hingað með hangikjet, sem Steinunn dóttir þeirra kom með frá Íslandi á Þorláksmessu, og var það etið af bestu lyst. Við sátum svo hér fyrir framan sjónvarpið og horfðum á áramótaskaupið og nutum þar með þess að vera með góða háhraðatengingu við Internetið. Reyndar horfðum við líka á ávarp Geira Haarde og annála innlendra og erlendra frétta. Helga, Hinrik, Marek, Jói Hjalta og Inga Lena fóru svo niður á strönd þar sem Íslendingafélagið var búið að hlaða smótteríis bálköst sem átti svo að kveikja í en það var víst of hvasst til þess að tendra þar bál svo úr því varð ekkert. Og það haug rigndi hér meðan mestu sprengingarnar dundu yfir sem var í ca 20 mínútur eftir miðnætti.
Og nú bara að standa við áramótaheitið sem er að REYNA að byrja í líkamsrækt einhverskonar. Ekki veitir nú af. Ég er ennþá ca 108 kíló og hef ekkert grennst þrátt fyrir að borða minna hér á landi en heima á Íslandi. Furðulegt þetta. En nú verður VONANDI breyting þar á. Ég þarf bara að fá örfáar ráðleggingar frá Ingunni systur minni varðandi svona rækt.
Og svo er ég líka að vona að ég fái vinnu hjá Danfoss en þar er Reynir nokkur Guðmundsson frá Hvammstanga að vinna. Ef ég man rétt þá hefur hann búið hér í.... tjahhh.... all mörg ár. Eitthvað var hann að tala um að geta kannski reddað mér vinnu þar.
En það er best að rita ekki frá sér allt vit á fyrsta degi nýs árs.
Hafið það gott í sprengingunum á Íslandi sem og annarsstaðar í heiminum.
Gúdd næt.
Palli.